Í fyrsta sinn út fyrir refsirammann

Lögmenn ákærðu í réttarsal í dag.
Lögmenn ákærðu í réttarsal í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þynging refsingar Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings, umfram refsihámark ákvæðis hegningarlaga um fjárdrátt, á sér ekkert fordæmi í hrunmálunum svonefndu. Þetta segir Jón Þór Ólason, lektor í refsirétti við lagadeild Háskóla Íslands.

Hreiðar Már var í dag dæmd­ur í 12 mánaða fang­elsi í Héraðsdómi Reykjavíkur, en í hinum fyrri ómerkta dómi hafði honum verið gert að sæta sex mánaða fangelsi. Með þeim dómi var refsirammi auðgunarbrota samkvæmt hegningarlögum fullnýttur, eða alls sex ár, vegna dóms sem hann hafði áður hlotið.

Má þyngja um helming

Þynging refsingarinnar nemur þar af leiðandi sex mánuðum umfram þann ramma, en þyngingin byggir á 2. málsgrein 77. greinar hegningarlaga, þar sem kveðið er á um að eftir málavöxtum megi „þyngja refsingu svo, að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.“

Í dómnum eru einnig reifaðar þær aðstæður sem uppi eru. Segir þar að Hreiðari Má hafi verið gert að sæta fangelsi í 5 ár og 6 mánuði í öðrum dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti á árinu 2015, þar sem hann var sakfelldur fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun.

Refsihámark fyrir umboðssvik er 6 ára fangelsi og dómstólar hafi því þegar í fyrsta sakamáli sem höfðað var gegn Hreiðari Má nær fullnýtt refsimörk umboðssvikaákvæðis hegningarlaga.

Jón Þór Ólason, lektor í refsirétti við Háskóla Íslands.
Jón Þór Ólason, lektor í refsirétti við Háskóla Íslands.

Sami dómsformaður og í ómerkta dómnum

„Ákærði Hreiðar Már er nú á ný sakfelldur og í þetta skipti fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Er sem fyrr um að ræða alvarleg trúnaðarbrot sem leiddu til stórfellds fjártjóns almenningshlutafélags. Refsihámark fjárdráttar er hið sama og umboðssvika, eða 6 ára fangelsi. Ákærði hefur í málum sínum verið sakfelldur fyrir ýmiskonar efnahagsbrot,“ segir í dómnum.

„Að því gættu, og með hliðsjón af þeim refsiákvörðunarástæðum er áður var lýst úr fyrri dómum, þykir rétt að refsing ákærða verði þyngd umfram hin almennu refsimörk. Með hliðsjón af þessu og ákvæða um hegningarauka, er refsing ákærða Hreiðars Más ákveðin fangelsi í 12 mánuði.“

Dómsformaðurinn í þessum dómi, Símon Sigvaldason, fór einnig fyrir dómurunum í ómerkta dómnum.

Gætu metið alvarleika brotanna öðruvísi

Jón Þór segist í samtali við mbl.is hafa búist við að refsingarnar yrðu þær sömu og í hinum ómerkta dómi, færi svo á annað borð að sakborningarnir yrðu sakfelldir.

„Maður átti frekar von á því, ef þeir yrðu sakfelldir. Þá hélt ég að þetta myndi haldast í sex árum,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is. „Það getur verið að dómararnir meti alvarleika brotanna öðruvísi en áður. Það getur breytt refsiákvörðun ef aðkoma hans [Hreiðars Más] er af einhverjum ástæðum talin vera meiri heldur en í fyrri dómnum.“

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari. mbl.is/Ómar

Héraðssaksóknari mun skoða dóminn

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir ákvörðunina rökstudda í dómnum. Spurður hvort þetta geti haft áhrif á kröfur ákæruvaldsins í þeim hrunmálum sem eftir á að taka fyrir segir hann svo geta verið.

„Niðurstaðan getur spilað inn í og aukið líkur á að það verði gerðar þyngri kröfur í samræmi við þessar línur sem dómurinn tekur.“

Segir hann að dómurinn hafi með þessu teygt sig upp úr refsihámarkinu og í hegningaraukann sem ekki hafi gerst áður í hrunmáli. Með því sé opnað á að fyrir ítrekuð brot verði menn dæmdir til harðari refsingar en áður hefur verið gert í þessum málum og að embættið muni skoða þetta þegar kemur að því að gera sínar ítrustu kröfur.

Ólafur tekur þó fram að dómurinn sé nýfallinn og starfsmenn embættisins eigi eftir að fara yfir röksemdirnar nánar og sjá hvernig það falli að öðrum málum.

mbl.is

Bloggað um fréttina