Myglufaraldur í húsnæði á Íslandi

Kjartan og Ólafur eru báðir sérfræðingar í myglu og raka.
Kjartan og Ólafur eru báðir sérfræðingar í myglu og raka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nánast er hægt að tala um faraldur þegar kemur að útbreiðslu og fjölda tilfella myglu sem komið komið hafa upp í húsnæði hér á landi síðasta áratug eða svo, bæði hvaða varðar eigna- og heilsutjón. Ekkert sambærilegt hefur átt sér stað í nágrannalöndunum.

Þetta segir Ólafur H. Wallevik, forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins, sem hefur reynt að fá fjármagn til rannsókna á rakamyndun og myglu hér á landi síðustu ár, án árangurs. Fyrir vikið höfum við dregist langt aftur úr í þekkingu og erum ekki nógu meðvituð um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn vandanum, sem virðist mjög umfangsmikill hér á landi.

„Þetta fór ekki að verða vandamál hér á landi fyrr en fyrir um 15 árum. Síðasta áratug hefur þetta orðið því næst faraldur á Íslandi. Við erum að tala um svo svakalega mörg húsnæði þar sem komið hefur upp mygla. Við erum að tala um vandamál af stærðargráðunni tíu þúsund tilfelli síðustu ár, sem hafa verið rannsökuð. Sum minni, en önnur sem kostar milljarða að gera við,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is, en hann veit til þess að bara ein verkfræðistofa hafi tekið að sér um 7.000 verkefni.

„Það er mikilvægt að horfa til þess hvernig þróunin hefur verið í Svíþjóð, af því Svíar hafa lifað með myglu í aldaraðir. Mygla er alls staðar, en hún er ekki alltaf skaðleg. Við skiljum hins vegar ekki alveg af hverju þetta er orðið svona svakalegt vandamál á Íslandi, þá sérstaklega með tilliti til heilsu fólks. Svíar glímdu við mikil mygluvandamál í kringum 1970 og 1980, og þá var tekið á mörgum málum þar. Mér skilst hins vegar að þetta hafi aldrei verið jafnstórt heilsufarsvandamál í Svíþjóð. Þegar ég ræði við kollegana á Norðurlöndunum þá er í raun enginn sem kannast við að þetta sé jafnmikið heilsufarslegt vandamál og hér.“

Rannsóknum á raka og myglu algjörlega hætt

Ólafur vísar til höfuðstöðva Íslandsbanka á Kirkjusandi og Orkuveitunnar, en í báðum byggingum kom upp mygla fyrir nokkrum árum. Starfsemi Íslandsbanka hefur nú verið flutt í annað húsnæði, en ráðist var í kostnaðarsamar framkvæmdir á húsi Orkuveitunnar og hefur ein bygging verið rýmd á meðan viðgerðir standa yfir. „Það er talað um að hátt í fjórðungur allra þeirra sem voru þarna inni hafi fundið fyrir einkennum. Það eru svo margar byggingar þar sem þetta hefur komið upp og fólk hefur veikst. Hjá Vegagerðinni er til dæmis ein hæð auð út af myglu, það er ástand á Landspítalanum, Vodafone þurfti að flytja vegna myglu, svo hefur komið upp mygla í húsnæði tveggja ráðuneyta. Þetta eru fyrirtæki sem þora að segja frá. Það er reyndar furðulegt að fyrst að ráðuneytin sjálf þurfa að glíma við þetta, af hverju þau sjá ekki þörf fyrir að leita upplýsinga um hvers vegna þetta gerist,“ segir Ólafur sem ítrekar mikilvægi þess að fjármagn fáist til rannsókna svo hægt sé að komast að rót vandans.

Raki og mygla í híbýlum fólks geta leitt til ýmissa …
Raki og mygla í híbýlum fólks geta leitt til ýmissa heilsufarsvandamála. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hann segir Íslendinga í raun vera tíu árum á eftir Svíum, að minnsta kosti, þegar kemur að því að takast á við rakavanda og myglu. „Við höfum algjörlega hætt öllum rannsóknum varðandi vatnstjón, rakamyndun og myglu. Þetta hefur drabbast niður hjá okkur á síðustu árum. Við stöndum okkur vel þegar kemur að steinsteypunni, en ekki þessu. Þá er skortur á leiðbeinendum og miðlun upplýsinga. Við erum að reyna að taka okkur á núna, en okkur skortir fjármagn.“

Byggja eftir kúnstarinnar reglum til að fá tryggingu

Kjartan Guðmundsson, lektor í húsagerð við KTH í Stokkhólmi, þekkir vel til mála í Svíþjóð og staðfestir orð Ólafs. Hann segir Svía vera mjög mikið á tánum út af myglu, þeir kunni vel að fyrirbyggja hana og komast fyrir rakavanda komi hann upp. „Þetta er til dæmis komið inn í ábyrgðarskilmála trygginga í Svíþjóð. Ef menn vilja tryggja þök fyrir vatnsleka þá verður að byggja eftir ákveðnum aðferðum. Eins í einbýlishúsum er krafist ákveðins frágangs á niðurföllum baðherbergja. Að setja þessa skilmála í tryggingar er hluti af lausninni í Svíþjóð. Þeir hafa séð að ákveðnar tegundir af vatnstjónum eru algengar, eins og í tengslum við niðurföll á baðherbergjum, og þessu hefur verið fylgt vel eftir. Til að fá tjón bætt þarf að sýna fram á að farið hafi verið eftir kúnstarinnar reglum við frágang.“

Iðnaðarmenn sem vinna við baðherbergi þurfa til dæmis sérstakt leyfi til að öruggt sé að gengið sé frá svokölluðum rakasperrum á réttan hátt. Þá eru mjög strangar reglur um hvað má gera eftir að gengið hefur verið frá baðherbergi. Það má til dæmis ekki endurbyggja hluta baðherbergisins, það þarf að rífa allt út svo það komi hvergi misfellur í rakasperruna.

Ýmsar leiðbeiningar eru til um frágang og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn raka hér á landi, til að mynda leiðbeiningabæklingur frá Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins, um frágang votrýma. Fólk þarf einfaldlega að sækja sér þessar upplýsingar og fara eftir þeim.

Svo virðist sem myglufaraldur hafi riðið yfir Ísland síðastliðinn áratug.
Svo virðist sem myglufaraldur hafi riðið yfir Ísland síðastliðinn áratug. Mynd/RB

Að sögn Kjartans geta nú allir sem koma að einhvers konar byggingarstarfsemi í Svíþjóð sótt námskeið um rakavanda og frágang, og fá í kjölfarið vottun sem sérfræðingar í rakamálum. Þeirra hlutverk er þá að fara yfir hönnun húsnæðis og fylgjast með á byggingarstað.

Húseigendur vilja ekki að fréttist af myglu

Hvað heilsufarsvanda vegna myglu varðar segir Kjartan Svía eflaust gleggri við að þekkja einkennin, enda myglan eldra og meira viðvarandi vandamál þar í landi. Þá þarf alltaf að fara fram ástandsmat á eignum við kaup og sölu í Svíþjóð, en slíkt er valkvætt á Íslandi.

„Það kemur fram í slíku mati að ákveðnar rakaskemmdir séu til staðar eða jafnvel yfirvofandi. Þá veit fólk af því. Það hefur þau áhrif að eignin lækkar í verði en að sama skapi þá veit kaupandinn að hverju hann gengur og bætir úr því sem þarf að bæta. Það er meiri meðvitund um þetta.“

Kjartan segir ýmislegt sem kaupendur eigna átti sig ekki á, en vert er að hafa í huga. „Sjálfur myndi ég til dæmis aldrei kaupa hús ef það væri nýbúið að mála kjallarann. Vegna þess að þá læðist að manni grunur að það hafi verið komnar rakaskemmdir og málað hafi verið yfir. Þetta er kannski sameiginleg reynsla sem margir í Svíþjóð búa að, en hérna kemur þetta fólki á óvart. Fólk er bara ánægt með að það sé nýmálað.“

Ólafur segir íslenska húseigendur síður vilja að það fréttist, komi upp raki eða mygla í eign þeirra, enda rýri það verðgildið þegar kemur að sölu. „Ástæðan er auðvitað sú að það er erfitt að fjarlægja algjörlega myglu eftir að hún er komin upp, en það er engu að síður hægt. Í stórum fyrirtækjum og stofnunum er hins vegar yfirleitt látið vita þegar svona kemur upp, það fréttist svo fljótt ef fólk hefur veikst. Svo þurfa stofnanir oft að flytja tímabundið, þannig vandamálið fer ekki fram hjá neinum.“

Kjartan liggur ekki á skoðun sinni á mikilvægi þess að fá fjármagn til að komast til botns í því af hverju raki og mygla hefur orðið jafnútbreitt vandamál hér á landi og raun ber vitni „Mér finnst lágmark að reyna að fá yfirsýn yfir vandamálið og átta sig á umfanginu. Þetta geta auðvitað verið rosalega ólík vandamál, en það ágætt að forgangsraða þeim. Þá er mikilvægt að bæta upplýsingaflæðið á þeirri þekkingu sem er til staðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert