Munu skátar sprengja samgöngukerfið?

Skátamótið World Scout Moot fer fram hér á landi í ...
Skátamótið World Scout Moot fer fram hér á landi í lok júlí. Ljósmynd/aðsend

Nokkur þúsund erlendir skátar munu væntanlega sprengja almenningssamgöngukerfi Reykjavíkurborgar í lok júlí nema til sérstakra aðgerða verði gripið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bandalagi íslenskra skáta.

Fjöldi erlendra skáta kemur til landsins til að taka þátt í alþjóðlega skátamótinu World Scout Moot sem fram fer hér á landi í lok mánaðarins. Mótssvæðið er Laugardalshöll og munu skátarnir gista í 11 skólum um höfuðborgarsvæðið. Því munu margir þeirra eiga langa leið fyrir höndum til og frá næturstað ef þeir geta ekki nýtt sér strætisvagna borgarinnar að því er fram kemur í tilkynningunni.

„Sem betur fer eru margir af skólunum, sem hýsa skátana, ekki langt frá mótssvæðinu en í nokkrum tilfellum er hins vegar drjúgur spotti sem skátarnir þurfa að ganga, t.d. þeir sem búa í skólanum í Kópavogi,“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta.

„Skátarnir hafa fengið 11 skóla víðsvegar um höfuðborgarsvæðið til að hýsa erlendu gestina fyrir og eftir mót þótt flestir séu í Reykjavík. Kynnisferðir hafa samþykkt að aka skátunum frá Keflavík til skólanna við komuna til landsins og sjá um akstur úr skólum yfir í Laugardalinn þar sem almennissamgöngukerfið ræður ekki við það,“ segir í tilkynningunni.

Miklar framkvæmdir á Úlfljótsvatni vegna mótsins

Hermann segir það mikilvægan stuðning við erlendu gestina þar sem margir þeirra koma til landsins með þungar byrðar og búið sé að meta samgönguþarfir skátanna í borginni út frá fjölda gesta á hverjum gististað fyrir sig. Í kjölfar þess hafi verið haft samband við Strætó um möguleika þess að fjölga ferðum á álagstímum til að tryggja að skátarnir komist um höfuðborgarsvæðið. Er það nú til skoðunar hjá Strætó.

Um er að ræða stærsta skátamót sem fram hefur farið á Íslandi og stærsta mót á vegum heimshreyfingarinnar fyrir þetta aldursbil. Mótið hefst í Laugardalshöll að morgni 25. júlí en skátarnir munu síðan dreifast um landið þar sem þeir sinna meðal annars sjálfboðastörfum í nokkra daga. Þeir munu skilja eftir sig um 20.000 vinnustundir í sjálfboðavinnu að því er segir í tilkynningunni.

Skátarnir dvelja á Úlfljótsvatni síðustu fjóra daga mótsins en þar er verið að smíða 50 sturtur, koma upp salernisaðstöðu, tengja rafmagn, laga stíga, setja upp mötuneyti, setja upp matarúthlutun í formi verslunar og undirbúa mótssvæðið fyrir tjaldborg með skátum frá alls 106 löndum. Mótinu verður slitið 2. ágúst.

mbl.is