Skemmdarverk unnin á minnisvarða

Ungur drengur framdi skemmdarverk á minnisvarða um helförina í Boston. …
Ungur drengur framdi skemmdarverk á minnisvarða um helförina í Boston. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem minnisvarðinn hefur orðið fyrir skemmdarverkum. AFP

17 ára drengur er sakaður um að hafa unnið skemmdarverk á minnisvarða um helförina í Boston á mánudag. Er þetta í annað sinn sem minnisvarðinn er skemmdur á innan við tveimur mánuðum.

Að sögn lögreglu kastaði drengurinn steini í New England Holocaust minnisvarðann með þeim afleiðingum að gler klæðning brotnaði. Verður hann ákærður fyrir hafa skemmt eignina með illgjörnum ásetningi.

„Boston stendur upp gegn hatri. Það hryggir mig að sjá framið svo fyrirlitlegt verk í þessari frábæru borg,“ sagði Marty Walsh borgarstjóri Boston.

Atvikið átti sér stað tveimur dögum eftir árásina í Charlotteville í Virginíu.

„Í ljósi nýliðinna atburða og óreiðu í Charlotteville er sorglegt að sjá unga manneskju velja að taka þátt í þessari heimskulegu og skammarlegu hegðun,“ sagði lögreglustjórinn William Evans.  

Er þetta í annað sinn á tveimur mánuðum sem unnin hafa verið skemmdaverk á minnisvarðanum. Hann samanstendur af sex glerturnum sem tákna þá sex milljónir gyðinga sem létust í helförinni, sex stærstu dauðabúðirnar og árin sex þegar atburðirnir áttu sér stað, frá 1939-1345.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert