Hlustendur verða hluti af verkinu

Ingibjörg Friðriksdóttir er fjölhæf listakona, söngkona og hljóðlistakona. Útskriftarverkefni hennar …
Ingibjörg Friðriksdóttir er fjölhæf listakona, söngkona og hljóðlistakona. Útskriftarverkefni hennar verður til sýnis í Hörpu.

Ingibjörg Friðriksdóttir, tónskáld, söngkona og hljóðlistakona, hefur lengi fengist við tónsmíðar og listsköpun. Hún útskrifaðist frá Mills College í Bandaríkjunum og er útskriftarverkefni hennar til sýnis í Hörpu fram yfir Menninganótt. Í verkinu sameinar Ingibjörg ástríðu sína fyrir tónlist og listsköpun, en allir þeir sem koma og upplifa verk hennar verða ósjálfrátt hluti af því.

Ef okkar innra sjálf væri hljóð, hvernig myndi það hljóma? Við þetta glímir Ingibjörg Friðriksdóttir í verki sem er til sýnis í Hörpu á næstu dögum sem hluti af tónlistarhátíðinni Ung nordisk musik festival.

„Verkið heitir Portrait en hugmyndin er að þetta sé einhvers konar abstrakt sjálfsmynd af sjálfri mér í hljóði,“ segir Ingibjörg sem er tónskáld, söngkona og hljóðlistakona. Hún útskrifaðist nýverið frá Mills College í Bandaríkjunum þar sem hún lagði stund á rafrænar tónsmíðar og upptökutækni og hlaut verðlaun á útskrift skólans fyrir framúrskarandi tónsmíðar. Verkið í Hörpu er einmitt útskriftarverkefni Ingibjargar.

Vildi ekki stjórna flæðinu

„Ég hlaut skólastyrk frá Mills til að kenna á hljóðgervla og einnig upptökutækni. Það varð þess valdandi að ég eyddi ófáum stundum í upptökuveri skólans. Ég safnaði óteljandi upptökum þar sem ég spann af fingrum fram og áður en ég setti hverja upptöku í gang hugsaði ég um eitthvað sem hefur haft áhrif á mig,“ segir Ingibjörg.

„Ég vildi síður stjórna flæðinu, það er eitthvað heillandi við að þurfa að takast á við það sem kemur í augnablikinu og því ákvað ég ekki hvaða efnivið ég myndi vinna með áður en ég mætti. Sumir af þessum svokölluðu áhrifavöldum eru því alls ekki eitthvað sem ég myndi viðurkenna opinberlega en er greinilega eitthvað sem liggur í undirmeðvitundinni.“

Gestir verða ósjálfrátt hluti af verki Ingibjargar þegar skuggar þeirra …
Gestir verða ósjálfrátt hluti af verki Ingibjargar þegar skuggar þeirra endurkastast á veggina þegar þeir ganga um salinn.


Öll hljóðin í verkinu eru upptökur af rödd Ingibjargar. Til að hver og einn hlustandi geti myndað sína eigin mynd notar Ingibjörg óhefðbundna hljóðvinnslu til að má út uppruna hljóðanna.

Gestir verða hluti af verkinu

„Ég var áhugasöm um hvernig allt ferlið, frá upptöku til endurspilunar, hefur áhrif á hljóðið. Upphaflega gerði ég tilraunir með að smíða hljóðmagnara. Magnararnir reyndust þó allir vera álíka lélegir og það var enginn heyranlegur munur á þeim. Hátalarar hafa þó mikil áhrif á hljóð og ég ákvað því að nota allt frá mjög lélegum hátölurum yfir í stóra hágæðahátalara,“ segir hún. „Það skemmtilegasta við þetta allt saman er að nú fékk ég fínasta tækifæri til að kaupa lítinn Batman-dótahátalara sem mig hafði lengi dreymt um að eignast.“

Sömu hljóðbútarnir færast á milli þessara 14 ólíku hátalara og hljóma ólíkt eftir gæðum hátalarans. Minni hátalararnir hanga úr loftinu í skúlptúrum sem snúast. Áhorfendur ganga um rýmið, en staðsetning þeirra í rýminu hefur mikil áhrif á upplifunina.

Skuggar leika einnig mikilvægt hlutverk í verkinu, en ljós varpa skuggum af skúlptúrunum á veggina. „Þegar gengið er um rýmið verður skuggamynd hlustendanna hluti af verkinu. Það er því ómögulegt að upplifa verkið án þess að verða partur af því. Þetta endurspeglar hvernig annað fólk hefur áhrif á sjálfsmyndina og staðsetning þess í rýminu hefur einnig áhrif á hvaða upplifun það fær.“

Ingibjörg er búsett Bandaríkjunum og vinnur þar sem aðstoðarkona listamannanna Johns og Ninu Zurier. Þau hafa bæði verið virk í listasenu Íslands en Nina Zurier er nú með ljósmyndasýningu í Ramskram-galleríi á Njálsgötu.

Innsetning. Verkið ber heitið Portrait og er hugmyndin að skapa …
Innsetning. Verkið ber heitið Portrait og er hugmyndin að skapa abstrakt sjálfsmynd af Ingibjörgu úr hljóði.


Spurð hvernig sé að vera listamaður í Bandaríkjunum segir Ingibjörg það ekki ósvipað því að vera listamaður á Íslandi. Spurð hvernig það sé að vera listamaður eftir kjör Donalds Trumps Bandaríkjaforseta segir hún að líta megi á kjör Trumps sem góðan listrænan efnivið. „Þrátt fyrir að við séum ósammála er mikilvægt að allar raddir samfélagsins heyrist, að einhverju leyti er betra að hafa hlutina uppi á yfirborðinu. Þá veit maður við hvað er að fást. Í San Francisco kjósa fáir Trump og ég hef því miður bara hitt einn stuðningsmann. Ég var svo spennt að tala við hann að hann forðaði sér. Mig langaði samt í einlægni bara að heyra hans skoðun og röksemdafærslu fyrir kjörinu.“

Sýnir á Menningarnótt

Verk Ingibjargar er partur af hátíð sem heitir Ung nordisk musik festival sem haldin er á hverju ári á Norðurlöndunum, en tónlistarhátíðin er í gangi alla vikuna. „Þetta er í raun keppni á milli ungra tónskálda á Norðurlöndunum. Hvert land fyrir sig velur sjö tónskáld til að vera í forsvari fyrir sitt land,“ útskýrir Ingibjörg.

Hátíðin hefur verið haldin á hverju ári frá 1946 en Ísland var fyrst með 1974 og hefur hátíðin verið haldin í Reykjavík á fimm ára fresti allt frá 1977. Á hverju ári berast um annað hundrað verk í keppnina. Innsetning Ingibjargar er í neðri kjallara Hörpunnar, K2, og mun standa fram yfir Menningarnótt. Í dag, fimmtudag, og á morgun má sjá verkið milli klukkan 16:30 og 19:30 en verkið er opið frá 12-3 á Menningarnótt, sem er á laugardaginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »