Ósammála í innflytjendamálum

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. mbl.is

Guðfinna Jó­hanna Guðmunds­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar og flug­vall­ar­vina, segir ákvörðun Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita borgarstjórnarflokks Framsóknar og flugvallarvina, um að hætta í Framsóknarflokknum, ekki koma sér mjög á óvart. Sveinbjörg mun starfa sem óháður borgarfulltrúi út kjörtímabilið.

„Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að Sveinbjörg Birna átti ekki samleið með flokknum,“ segir Guðfinna Jóhanna í samtali við mbl.is. Sveinbjörg lýsti því yfir í Facebook-færslu fyrr í dag að ástæða ákvörðunar hennar sé ágreiningur í innflytjendamálum og sagði hún flokk sem ekki væri tilbúinn að ræða mikilvæg málefni aldrei verða annað en smáflokk.

Ósætti milli Sveinbjargar og borgarmálaflokks Framsóknar

Að sögn Guðfinnu hafa skoðanir Sveinbjargar og Framsóknarflokksins á innflytjendamálum ekki farið saman og þess vegna hefði orðið ósætti milli hennar og borgarmálaflokks Framsóknarflokksins, sem telur á milli 30 og 40 manns. 

„Strax í kosningabaráttunni [fyrir sveitarstjórnarkosningar 2014, innsk. blaðamanns] lýsti ég því yfir að ég væri ósammála henni í moskumálinu um leið og hún kom með það fram,“ segir Guðfinna. 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hefur sagt sig úr Framsókn.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hefur sagt sig úr Framsókn.

Hún segir að innflytjendamál í borginni hafi ekki verið flokknum mjög hugleikin heldur Sveinbjörgu. „Við höfum barist fyrir húsnæðismálunum. Leitt umræðuna um húsnæðisvandann í borginni. Þau mál sem við settum á oddinn eru húsnæðismálin og flugvöllurinn. Það eru mál sem við höfum barist fyrir allt kjörtímabilið og veitt meirihlutanum aðhald,“ segir Guðfinna.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig staðið verður að vali á lista Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Guðfinna hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hún gefi kost á sér en hún hefur áður tilkynnt um að hún muni aðeins sækjast eftir fyrsta sætinu ákveði hún að halda áfram.

Spurð hvort þessi úrsögn Sveinbjargar úr Framsóknarflokknum breyti afstöðu hennar fyrir borgarstjórnarkosningar, segir Guðfinna þær engu breyta. Hún ætli að bíða til haustsins með að ákveða um framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert