„Verður kísilverinu lokað, já eða nei?“

Fjölmenni var á íbúafundinum í Stapa í kvöld. Einn mætti …
Fjölmenni var á íbúafundinum í Stapa í kvöld. Einn mætti með grímu til að leggja áherslu á það sem málði snýst um: Mengun kísilversins í Helgavík. Ljósmynd/Víkurfréttir

„Viljum við að Bítlabærinn okkar fallegi endi sem kísilbærinn í sögubókum komandi kynslóða?“ sagði Einar Már Atlason, formaður samtakanna Andstæðinga stóriðju í Helguvík, á fjölmennum íbúafundi í Stapa í Reykjanesbæ í kvöld. Setið var í hverju sæti og nokkrir þurftu að standa. „Við hættum ekki fyrr en við jörðum þessa verksmiðju.“

Umræðuefnið var kísilver United Silicon í Helguvík, en starfsemi þess hefur verið brösótt frá upphafi og íbúar ítrekað orðið fyrir lyktarmengun vegna hennar. Hundruð tilkynninga um ólykt hafa borist Umhverfisstofnun síðustu mánuði. Ekki er enn ljóst hvaða efni valda lyktinni sem íbúar hafa kvartað yfir og staðfest hefur verið að komi frá verksmiðjunni. Sértækar rannsóknir á efnum í andrúmsloftinu eru hafnar og niðurstaðna að vænta í lok mánaðarins. 

 „Mér gæti ekki verið meira sama um milljarða og milljónir,“ sagði Eygló Anna Tómasdóttir sem alin er upp í Reykjanesbæ, á fundinum. „Ég á fjóra drengi og þeir eru gimsteinarnir í lífi mínu. Mælirinn er fullur. Við ætlum að stoppa þetta, hvað sem er í húfi. Við erum í húfi.“

Áður hafði Kristinn Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagt að yrði verksmiðjunni lokað myndi það hafa mjög mikil áhrif á rekstur bæjarfélagsins.

Í mál við United Silicon

Á fundinum var tilkynnt að Samtök andstæðinga um stóriðju í Helguvík ætluðu að hefja fjársöfnun á Karolina fund til að standa undir kostnaði við fyrirhugaða hópmálsókn fyrir hönd íbúa Reykjanesbæjar við United Silicon, sem rekur kísilver í Helguvík. Söfnunin verður á alþjóðavísu. Mögulega verður einnig farið í mál við fleiri aðila vegna málsins. 

Meðal ræðumanna kvöldsins var Andri Snær Magnason rithöfundur. Ræddi hann um mesta „fíaskó á iðnaðarsvæði“ sem um geti í Vestur-Evrópu: Óklárað álver, kísilver í rugli og annað enn stærra kísilver væntanlegt.

Íbúar gagnrýndu meðal annars á fundinum að ekki væri gengið …
Íbúar gagnrýndu meðal annars á fundinum að ekki væri gengið frá hráefnum sem notuð eru til kísilmálmvinnslunnar við verksmiðjuna í Helguvík. Var svar Umhverfisstofnunar það að athugasemdir hefðu verið gerðar og von væri á úrbótum. mbl.is/Rax

Augljóst er að málefnið hvílir þungt á íbúunum. Einn fundargesta spurði hvort það þyrfti að taka það fram að fólk ætti rétt á hreinu lofti. Annar bað fólk sem fundið hefur fyrir einkennum vegna mengunarinnar að rísa á fætur og það gerðu fjölmargir í salnum.

Kísilver ekki góð fyrir heilsu

„Það er nauðsynlegt að við fáum að vita nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur á heilsuna,“ sagði María Magnúsdóttir, íbúi. „Að við fáum á hreint hvað er þetta að gera okkur. Íbúar eru að finna fyrir alls konar einkennum.“

Tómas Guðbjartsson hjartalæknir sagði í erindi sem hann hélt m.a. frá norskri rannsókn á áhrifum kísilvera í Noregi. „Sem læknir segi ég: Kísilver eru allt annað en góð fyrir heilsu ykkar.“ Sagði hann vísbendingar um að íbúar í Reykjanesbæ væru ekki að anda að sér súrefni sem uppfyllti lágmarksstaðla um heilnæmi. „Og þið eigið ekki að sætta ykkur við það.“

„Það eina sem er hægt að gera er að loka þessum ófögnuði,“ sagði ungur karlmaður. Annar sagði að íbúar hefðu verið blekktir. Það hefði verið talað um umhverfisvæna framleiðslu en annað hefði komið á daginn. „Þeir sækja um eitt en reisa annað.“

Annar sagðist hafa stutt uppbyggingu í Helguvík eftir að herinn fór. Hann væri nú nýfluttur í vesturhluta Reykjanesbæjar þar sem lyktin fyndist oft mikið. Hann fyndi því fyrir áhrifunum á eigin skinni og einnig hjá börnum sínum. „Það er sorglegt að þurfa að vera að snýta börnunum, það tekur virkilega á mann. Að þurfa að loka gluggum og kalla börnin inn. Við þurfum að líða fyrir þetta. Ég vildi óska að þessi verksmiðja hefði gengið og allir getað verið sáttir við það. En svo er ekki. Ég bið guð að hjálpa okkur ef áttfalda á framleiðsluna.“

Margar spurningar brenna á íbúum Reykjanesbæjar og var þröng á …
Margar spurningar brenna á íbúum Reykjanesbæjar og var þröng á þingi á íbúafundi í kvöld. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Einn íbúi spurði hvort bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ gætu ekki komið á loftvarnareftirliti, þannig að flautur yrðu þeyttar, ef mengun væri mikil? Uppskar hann mikinn hlátur en sagði hann þó undirtón spurningarinnar alvarlegan.

United Silicon hóf starfsemi í Helguvík í nóvember á síðasta ári og var þá einn ofn tekinn í gagnið en þeim á að fjölga í fjóra. „Miðað við fjóra ofna verður þetta stærsta kísilverksmiðja í heimi,“ sagði Andri Snær í erindi sínu. „Og hver setur slíka verksmiðju skammt frá leikskólum og íbúabyggð?“ Þá stendur til að opna annað kísilver í næsta nágrenni. Það verður enn stærra, gangi áætlanir eftir.

Benti hann á að lyktin væri ekki það versta. „Hún er þó það sem líkami okkar getur skynjað.“ Sagði hann að það væru ósýnilegu efnin sem væru kannski raunverulegi skaðvaldurinn til lengri tíma. „Eina leiðin er að snúa algjörlega baki við þessu,“ sagði hann um þá stóriðjustefnu sem verið væri að framfylgja í Helguvík.

Bæjarfulltrúar, alþingismaður og fulltrúar Umhverfisstofnunar voru meðal þeirra sem sátu í pallorði og svöruðu spurningum viðstaddra. „Verður kísilverinu lokað, já eða nei?“ spurði María Olson. Svarendum vafðist nokkuð tunga um tönn. Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, sagði að það myndi skýrast í næstu viku, þegar andsvör við bréfi stofnunarinnar yrði svarað. Bæjarfulltrúar tóku í sama streng. Fylgja yrði leiðbeiningum Umhverfisstofnunar. Fundarmenn voru ekki allir sáttir við þessi svör.

Tjald rifnaði af geymsluhúsi kísilversins á dögunum. Í húsinu er …
Tjald rifnaði af geymsluhúsi kísilversins á dögunum. Í húsinu er geymt hráefni til vinnslunnar. Ekki hefur verið gert við tjaldið. mbl.is/Rax

 „Mengunaráhrif meiri en búist var við,“ sagði Sigrún Ágústsdóttir, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun sem svaraði spurningum viðstaddra á fundinum. „Og það á ýmislegt eftir að koma í ljós.“ Hún sagði að greining stæði enn yfir og gengi hægar en vonast hefði verið til.

Önnur tækni hjá Thorsil

Spurð hvort fleiri ofnar yrðu ræstir í kísilverinu sagði hún að starfsemin væri nú takmörkuð við einn ofn. Varðandi fyrirhugað kísilver Thorsil sagði hún að þar væri gert ráð fyrir annarri tækni, annarri útfærslu. Það fyrirtæki væri því ekki í neinni sérstakri meðhöndlun hjá stofnuninni. Fundargestir voru ekki sáttir við þessi svör og efuðumst um að slíkt myndi duga. Sigrún sagði mál United Silicon einstakt. „Við teljum ekki ástæðu til að ætla að svona geti farið í næsta fyrirtæki við hliðina.“ Sagði hún ekki lagalegar forsendur, út frá þessu máli, til að afturkalla starfsleyfið sem þegar hefði verið veitt.

Guðmundur spurði hvernig stæði á því að verksmiðjuhúsin væru þrettán metrum hærri en teikningar hefðu gert ráð fyrir.  Friðjón Einarsson bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs sagði að mistök hefðu orðið til þess. „Þetta voru grafalvarleg mannleg mistök.“

Einar Már sagði að málið varðaði ekki aðeins þá sem nú búa í bænum heldur heilsu komandi kynslóða. „Málið er ósköp einfalt: Annaðhvort virkar þessi verksmiðja eða ekki. Hún var ekki að virka og gerir það ekki enn í dag.“

Einn fundargesta sagði stórundarlegt að vakna á morgnana og byrja strax að hugsa um einhvern ofn. Hvort hann væri á lágmarkskeyrslu eða ekki. „Þetta er súrrealískt,“ sagði hann. „Af hverju er þetta ekki bara í lagi?“

Bærinn myndi tapa ef verksmiðju lokað

Kristinn Þór Jakobsson, oddviti Framsóknar í bæjarstjórn, sagði að kæmi til lokunar verksmiðjunnar hefði það „mjög slæm áhrif“ á fjármál bæjarsjóðs. United Silicon skuldaði Reykjanesbæ nú 162 milljónir. Lokunin myndi einnig hafa veruleg áhrif á fjárhagslega stöðu Reykjaneshafna. 

„Þegar við ræðum heilsu íbúa skipta fjármálin ekki máli,“ sagði Friðjón bæjarfulltrúi. „Þess vegna hefur meirihluti bæjarstjórnar samþykkt að það komi ekki meiri stóriðja í Helguvík.“ Spurður hvort ekki væri hægt að taka verksmiðjuhús kísilversins upp í skuld og selja þótti Friðjóni það ekki koma til greina.

Sama um milljónir

 „Mér gæti ekki verið meira sama um milljarða og miljónir,“ sagði Eygló Anna Tómasdóttir, sem alin er upp í Reykjanesbæ. „Ég á fjóra drengi og þeir eru gimsteinarnir í lífi mínu. Mælirinn er fullur. Við ætlum að stoppa þetta, hvað sem er í húfi. Við erum í húfi.“

Faðir Eyglóar bað næst um orðið og spurði: „Hvort viljið að blómgist United Silicon eða íbúar Reykjanesbæjar?“

mbl.is