Eldur í kísilveri United Silicon

Ker sem verið var að fylla á í kísilveri United …
Ker sem verið var að fylla á í kísilveri United Silicon yfirfylltist og heitur málmurinn rann út á gólfið.

Eldur kom upp í kísilveri United Silcon um eittleytið í dag. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum lak heitur kísilmálmur niður á gólf þegar ker sem verið var að fylla á yfirfylltist.

Er þetta sambærilegt atvik og kom upp þegar júlí, þegar slökkva þurfti á ljósbogaofninum og hann var ekki ræstur aftur eftir viðgerðir fyrr en rúmum mánuði síðar.

Að sögn Brunavarna Suðurnesja þá var búið að keyra ofninn upp hægt og rólega undanfarna daga. Í dag opnuðust hins vegar lokar í kerinu með þeim afleiðingum að heitur málmur rann úr kerinu og út á gólf.

Enginn slys urðu á fólki og hættan var liðin hjá er Brunavarnir Suðurnesja komu á staðinn.

Verður þrýstingur nú lækkaður á ofninum að nýju og efnið sem fór út á gólfið kælt niður.

Nú fyrr í vikunni var greint frá því að Umhverfisstofnun hafi tilkynnt United Silcon að hún muni stöðva rekstur kísilverksmiðjunnar, komi til þess að slökkt verði á ofni verksmiðjunnar lengur en í klukkustund eða ef afl hans fer undir tíu megavött.

mbl.is