„Gráa gullið frá Íslandi“

Senjórítukórinn. Frá kóramóti kvennakóra á Ísafirði í vor.
Senjórítukórinn. Frá kóramóti kvennakóra á Ísafirði í vor. Ljósmynd/Senjóríturnar

„Við tökum við konum frá 67 ára í Senjóríturnar,“ segir Silja Aðalsteinsdóttir, meðlimur í kvennakórnum Senjórítunum sem er um 70 manna kór fullorðinna kvenna. Silja lýsti nýlega eftir fleiri senjórítum í kórinn, öllum raddgerðum, á facebooksíðu sinni, en eitthvað hafði grisjast í kórnum í sumar. „Ég fékk reyndar ekki leyfi hjá kórnum til að gera þetta, en mér fannst raðirnar eitthvað hafa þynnst,“ segir Silja og hlær.

Eru með góðan kórstjórnanda

„Við erum með mjög góðan stjórnanda, hana Ágotu Joó, sem er einnig stjórnandi Kvennakórs Reykjavíkur og hefur unnið til þrennra fyrstu verðlauna á alþjóðlegu kóramóti með hann, þannig að það er betra að hafa einhverja reynslu af söng, nótum eða hljóðfæraleik,“ heldur Silja áfram.

„Senjórítukórinn varð til upp úr Kvennakór Reykjavíkur. Þegar konur eldast þá breytist röddin, þegar þær urðu of fullorðnar til að vera í honum voru þær látnar hætta. Sumar kvennanna vildu samt halda áfram, þannig varð Senjórítukórinn til sem deild út úr Kvennakór Reykjavíkur. Senjóríturnar voru svo stofnaðar formlega fyrir um tveimur árum, þegar við vorum orðnar svo margar að við vildum vera sjálfstæðar,“ segir Silja. „Við tókum þátt í kvennakóramóti á Ísafirði í vor, tókum sérstakt ísfirskt þema. Við munum halda tónleika í Seltjarnarneskirkju 28. október nk., við verðum einar, ekki með einsöngvara með okkur, og við ætlum að syngja hress lög eins og Án þín, Vorkvöld í Reykjavík, Kenndu mér að kyssa rétt, Bíllinn minn og ég, og svo munum við taka syrpu úr Mamma Mia.“

Eiga trygga aðdáendur

Senjóríturnar hafa enn ekki gefið neitt út af tónlist en eiga orðið trygga aðdáendur. Kórinn æfir vikulega á mánudögum kl. 16 í matsal þjónustukjarna aldraðra við Vitatorg. Aðspurð hvort kórstarfið feli í sér fleira en æfingar, tónleika og kórferðir segir Silja að þær hafi t.d. farið um 40 saman á „singalong“-sýningu á Mamma Mia í Borgarleikhúsinu og þær sungu þar við raust við þýðingu Þórarins Eldjárns.

Senjóríturnar fóru í söngferðalag til Færeyja og hyggjast fara til Danmerkur í kórferð næsta vor. „Færeyska Kringvarpið hrósaði okkur í hástert og kallaði okkur „gráa gullið frá Íslandi“,“ segir Silja og hlær við.

Söngvaþjóðin Íslendingar

„Starfandi kórar á landinu eru örugglega um 250,“ segir Margrét Bóasdóttir, formaður Landssambands blandaðra kóra, en hún segir 35 kóra vera í sambandinu, sem heldur kóramót og heldur utan um upplýsingar handa aðildarkórum.

Með haustinu fer af stað kórstarf úti um land allt. Hægt er að vera í ýmsum gerðum kóra en það eru t.d. karlakórar, kvennakórar, blandaðir kórar, kórar aldraðra, barnakórar og kirkjukórar.

„Markmiðið er að stuðla að samvinnu og efla kvennakórastarf á landinu. Á þriggja ára fresti erum við með kvennakóramót þar sem við syngjum saman eða erum með söngsmiðjur,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir, varaformaður Gígjunnar, sambands íslenskra kvennakóra. Í Gígjunni eru 28 kórar, sem er þó ekki tæmandi listi yfir alla kvennakóra landsins.

Karlakórar í Sambandi íslenskra karlakóra eru 32 og svo eru tveir til viðbótar að sækja um, að sögn Geirs A. Guðsteinssonar formanns. „Við gerum ráð fyrir að kór þurfi að hafa a.m.k. sextán meðlimi til að teljast kór,“ segir Geir. Sambandið er regnhlífarsamtök fyrir karlakóra og sér um söngmót karlakóra, sem skiptast í Heklukóra og Kötlukóra sem halda mót innbyrðis eftir því hvar þeir eru á landinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert