B.O.B.A. sprakk á Íslandi

JóiPé og Króli.
JóiPé og Króli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

JóiPé og Króli slógu í gegn með laginu „B.O.B.A.“ sem er vinsælasta lag landsins um þessar mundir. Þeir hafa aðeins gert tónlist saman í nokkra mánuði en samstarfið hófst eftir að Kristinn sendi Jóhannesi ítrekað skilaboð á Facebook. Núna eru þeir bestu vinir og hafa sent frá sér tvær plötur. Þeir hafa báðir önnur áhugamál en Jóhannes er á kafi í handboltanum á meðan Kristinn er smitaður af leiklistarbakteríunni.

Þeir eru komnir með yfir milljón hlustanir á Spotify og lagið „B.O.B.A.“ var komið með 430 þúsund spilanir á YouTube á föstudag. JóiPé og Króli bjuggu til algjöra bombu. „Þetta sprakk svolítið um leið og við settum þetta á netið. Fólk fór mikið að hlusta og deila. Þetta kom okkur svolítið að óvörum en þetta var mjög gaman,“ segir Kristinn Óli Haraldsson, eða Króli.

Platan GerviGlingur kom út fyrr í mánuðinum og þegar viðtalið var tekið um miðja vikuna sátu öll átta lög plötunnar á topp 20 yfir vinsælustu lögin á Spotify á Íslandi. „B.O.B.A.“ er á toppnum rétt eins og á Vinsældalista Rásar 2 og Vinsældalista Íslands á K100.

Tvær plötur á hálfu ári

Þrátt fyrir að hafa aðeins starfað saman frá ársbyrjun er GerviGlingur önnur plata þeirra félaga. „Við kynntumst í lok desember þegar Kiddi sendir á mig skilaboð á Facebook, segir að ég sé að gera góða hluti í tónlist. Ég var að gera tónlist með félaga mínum Daníeli í grúppunni Ríkisstjórnin. Hann hrósar mér bara og vill gera tónlist með mér. Mánuði eftir að við hittumst fyrst vorum við komnir með plötuna Ananas, sem er fyrsta platan okkar,“ segir JóiPé, Jóhannes Damian Patreksson, en þeir náðu vel saman frá upphafi.

Hvernig fannst þér að hann hefði samband við þig á Facebook? Ákvaðstu strax að hitta hann?

„Nei, alls ekki,“ segir Jóhannes en honum fannst gaman að fá hrós. Hann vissi hver Kristinn væri en þeir höfðu ekki hist. „En svo sendi hann mörg skilaboð á mig eftir þetta. Næstum á hverjum degi, alltaf að biðja mig að hitta mig og taka stúdíósessjón. Í lokin leyfi ég honum að koma í hitting og það endaði bara mjög vel,“ segir hann.

En hvernig vissir þú, Kristinn, að þið mynduð passa svona vel saman?

„Ég var frekar hungraður í að gera tónlist, sá tækifæri þarna og greip það bara, tók af skarið og það borgaði sig,“ segir Kristinn.

Þeir smullu saman og hafa gert tvær plötur á um hálfu ári sem eru mikil afköst. „Þetta er mikil vinna, mikið hark sem fer í þetta,“ segir Kristinn. „En við höfum bara gaman af þessu,“ skýtur Jóhannes inn í.

„Það var tímabil sem maður var að reyta af sér hárið af pirringi,“ segir Kristinn en þó að samstarfið hafi verið áreynslulaust segja þeir síðari plötuna hafa verið meiri vinnu, hún sé fagmannlegri í alla staði.

„Það bara kostar sitt, sinn tíma og sína vinnu en það borgaði sig,“ segir Kristinn.
Hver er ykkar leið inn í tónlist? „Við vorum báðir að bítboxa á sínum tíma, ég tók þátt í Hæfileikakeppni Íslands og hann í Ísland Got Talent. Það gekk misvel hjá okkur,“ segir Jóhannes. „Ég komst ekki áfram,“ segir Kristinn og heldur áfram: „Ég var að bítboxa og svo var ég í Sönglist. Annars hefur hipp hopp og rapp ekki verið lengi partur af lífi mínu, ég fór ekki að gera hipp hopp fyrr en í desember eða janúar. Annars hef ég alltaf eitthvað verið að söngla eða leika mér á sviði,“ segir Kristinn.

„Ég byrjaði í rappi eða hipp hoppi í tíunda bekk, eftir að ég sá myndina Straight Outta Compton í bíó. Eftir það langaði mig að byrja að rappa og byrjaði með vini mínum Danna, við vorum eitthvað að leika okkur,“ segir Jóhannes en hann og Kristinn kynntust síðan eftir að þeir byrjuðu í menntaskóla en Jóhannes er í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og Kristinn í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði þar sem hann er mikið í félagslífinu.

Myndbandið endurspeglar persónuleikana

Í myndbandinu við „B.O.B.A.“ er Kristinn á sífelldri hreyfingu, kvikur og léttur á meðan Jóhannes kemur inn með krafti með djúpri rödd sinni, haggast ekki eins og klettur. Skyldi myndbandið endurspegla persónuleika þeirra, er Jóhannes rólegri? „Klárlega, ég er mjög rólegur. Hann er mikill flippkisi. Orkubolti. Við erum gjörólíkir,“ segir Jóhannes.
„Já, ég er orkubolti og hef vanalega meiri orku í mér heldur en Jóhannes. Við erum andstæður í öllu, hegðun og talsmáta, segir Kristinn. „Þetta eru svona jin og jang-áhrif, svart og hvítt,“ segir hann og vísar til þess að þeir passi mjög vel saman þrátt fyrir að vera ólíkir.

Hvernig er lífið í Flensborg?

„Bara æðislegt. Þetta er þriðja árið mitt. Allir góðir vinir. Ég elska þennan skóla og er að gera mjög skemmtilega hluti þarna. Ég er í Morfís. Hef verið varamaður í Gettu betur. Ég hef verið formaður í vídeóráði. Ég er varaforseti núna. Þetta er allt mjög gaman.“

Báðir hefja þeir nám eftir að framhaldsskólanám var stytt um eitt ár. „Ég var fyrsta árið sem lenti í þessu en Flensborg er náttúrlega fjölbraut og var ekki að búast við að allir kláruðu á þremur árum,“ segir Kristinn sem ætlar sér ekki að klára á þremur árum.

Hvað finnst ykkur um þessa styttingu? „Ég var í ungmennaráði Samfés þegar þetta átti sér stað og mótmælti þessu mikið því þetta er brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þú breytir ekki vinnustað barna eða unglinga á þess að þau komi að því. Það var ekkert hlerað hvað krökkunum þætti um þetta,“ segir Kristinn.

„Þetta meikar ekki sens, menntaskólinn er þetta breik frá grunnskóla yfir í háskóla, þú átt að vera að skemmta þér þarna og aðeins að finna þig. Ég gæti verið að klára eftir eitt ár en ætla ekki að gera það. Ég er persónulega ekki tilbúinn til að fara út í atvinnulífið, ég er ekki tilbúinn að læra eitthvað sem ég ætla að gera restina af lífinu, ég verð þá enn þá bara átján ára.“

Gengur ykkur best þegar þið hafið nóg að gera? Lætur eitthvað undan?

„Það er alltaf eitthvað sem situr á hakanum. En mér líður best ef það er eitthvert plan í gangi. Þó að maður taki frí stundum er best að geta verið með puttana í öllu,“ segir Kristinn.
„Það er gaman að hafa nóg að gera,“ segir Jóhannes sem fyrir utan skólann og tónlistina æfir handbolta með 3. flokki Hauka.

Hann svarar því játandi að það sé mikið að gera en hann er að fara á æfingu eftir viðtalið, þá fyrstu í nokkra daga.

„Ég þurfti að taka mér tveggja vikna pásu frá handboltanum af því að það er búið að vera svo mikið að gera út af plötunni og ég er að byrja aftur á eftir,“ sagði hann.

Þekkja ekki hann og pabba hans í sundur

Eitt í textanum í laginu „B.O.B.A.“ vekur athygli en það er þegar Kristinn syngur „og þekkir mig og pabba minn ekki alltaf í sundur“, lína sem blaðamaður hefur mjög gaman af. Hefur þetta gerst?

„Það á ekki að gerast, það væri fáránlegt ef það myndi gerast. Það er kómíkin í þessu. Þetta er bara algjört bull og lélegur brandari,“ segir Kristinn.

Kannski er líklegra að einhver myndi ruglast á Jóhannesi og pabba hans, Patreki Jóhannessyni handboltakappa. Þeir eru líkir í útliti. „Núna alla vega með skallann, ég var að raka mig bara í gær. Ég er oft kallaður Patti, sérstaklega af þjálfaranum mínum, hann kallar mig það bara óvart.“

Hvernig er að hafa hann sem fyrirmynd í handboltanum? „Bara frábært. Hann sýnir mér stuðning í öllu sem ég geri, hvort sem það er handbolti eða tónlist.

Er einhver pressa frá honum að einbeita þér að handboltanum umfram tónlist?
„Nei alls ekki. Það er hann sem stakk upp á pásunni núna, sem er bara frábært,“ segir hann um hléið sem hann tók í kringum plötuútgáfuna.

Stutt í húmorinn

Í textanum í „B.O.B.A.“ er önnur setning sem vekur athygli blaðamanns, „ég fíla stelpur sem að strauja kortið mitt“ en í menntaskóla eiga flestir frekar lítinn pening. „Ég átti eiginlega ekkert kort í allt sumar. Þetta er bara djók lína, að eiga kærustu sem er alltaf að eyða peningum manns,“ segir Kristinn en það er nóg af húmor í laginu og ákveðinn léttleiki.

„Þetta lag er aðallega eitthvert djók, brandarakonsept, þó að lagið sé alvöru og við gerum tónlist af alvöru, þá er skemmtilegra að vera nett léttur á því,“ segir Kristinn.

Annað sem er hægt að hafa gaman af í texta lagsins er línan „fyrsta deiti, púlla upp í i30 Hyundai“ en þetta er ekki beint algengasta bílategundin í rapplögum. Reyndar er það svo samkvæmt fréttaveitunni Bloomberg að í vinsælustu rapplögum síðustu þriggja ára í Bandaríkjunum er oftast minnst á Rolls-Roys þegar rappað er um vörumerki. Ferrari er í öðru sæti; Porsche, Chevrolet, Lamborghini, Bentley, Cadillac og Mercedes Benz eru líka á topp tólf. Hyundai er ekki á listanum. Sú bílategund samt er líklega mun nær veruleika íslenskra ungmenna heldur en hinar.

Tónleikar á laugardagskvöld

Næst á dagskrá eru tónleikar, í dag laugardag. „Við erum að fara að halda tónleika í samstarfi við Coca Cola og Mid Atlantic Entertainment í Gamla bíói. Þar verða góðir gestir sem ætla að hjálpa okkur. Við héldum útgáfutónleika á Prikinu en okkur fannst svo leiðinlegt að það voru eiginlega fleiri fyrir utan staðinn sem komust ekki inn heldur en inni á staðnum. Við vildum halda eitthvað á stórum stað þar sem margir komast að og geta dansað og sungið,“ segir Kristinn en þeir vonast til þess að sem flestir komi og skemmti sér með þeim í kvöld. Platan GerviGlingur verður tekin í heild sinni ásamt eldra efni. Enn fremur koma fram Herra Hnetusmjör, Landaboi$ og DJ Snorri Ástráðs.

Þetta er hluti af ítarlegu forsíðuviðtali við JóaPé og Króla sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

mbl.is/Eggert
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert