Konur 47% viðmælenda í Magasíninu

Mary Hockaday, sem hefur lengi leitt þróun og uppbyggingu BBC …
Mary Hockaday, sem hefur lengi leitt þróun og uppbyggingu BBC World Service, var meðal frummælenda á viðburði sem haldinn var í höfuðstöðvum Árvakurs í dag í tilefni fjölmiðladags FKA. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í tilefni fjölmiðladags Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) í dag birti síðdegisþátturinn Magasínið á K100 tölur um kynjahlutfall í þættinum fyrstu fjóra mánuði hans. Kynjahlutfall viðmælenda er nær jafnt, rætt hefur verið við karla í 53% viðtala og viðmælendur hafa í 47% tilfella verið konur.

Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri FKA, var gestur Magasínsins í tilefni fjölmiðladags samtakanna. Hún var hæstánægð með nær jafnt kynjahlutfall viðmælenda þáttarins sem fór fyrst í loftið 31. maí síðastliðinn á K100 undir stjórn Huldu Bjarnadóttur og Sighvats „Hvata“ Jónssonar. Í 86 þáttum Magasínsins undanfarna fjóra mánuði hefur verið rætt við 492 viðmælendur, 261 karl og 231 konu.

Hulda Bjarnadóttir, umsjónarmaður Magasínsins á K100, hélt erindi á fjölmiðladegi …
Hulda Bjarnadóttir, umsjónarmaður Magasínsins á K100, hélt erindi á fjölmiðladegi FKA í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

FKA stendur fyrir fjölmiðladeginum í samstarfi við Creditinfo. Samkvæmt samantektinni stendur þátturinn Samfélagið á Rás 1 sig best hvað varðar jafnan hlut kynjanna en 51% viðmælenda þáttarins eru konur og 49% karlar.

Um 200 manns mættu á fund um konur og fjölmiðla …
Um 200 manns mættu á fund um konur og fjölmiðla í Hádegismóum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrafnhildur Hafsteinsdóttir sagði markmið fjölmiðladags FKA vera að vekja athygli á hlutdeild kvenna í fjölmiðlum. „Hlutföllin voru 70/30 2012-2014,“ sagði Hrafnhildur og bætti við að hlutur kvenna hafi aukist um þrjú prósentustig í fyrra og tvö til viðbótar nú. Þegar litið er til allra fjölmiðla í dag er niðurstaðan sú að rætt er við konur í 35% tilfella. Hrafnhildur segir þróunina vera jákvæða og segir mikilvægt að fjölmiðlar haldi utan um tölfræði um kynjahlutfall. Að neðan er viðtalið við Hrafnhildi úr Magasíninu í dag.

mbl.is