Einhyrningur heldur á nýjar slóðir

Einyrningur.
Einyrningur. Ljósmynd/Erla Þórey

Þau Erla og Bjarni veltu lengi fyrir sér hvað þau ættu að gera við hrútinn sinn og fyrirbærið Einhyrning sem vakti heimsathygli í vor. Fólk hafði ýmsar hugmyndir um það, en nú hafa þau ákveðið að gefa hrútinn á uppboð sem haldið verður á uppskeruhátíð í Skaftárhreppi í nóvember. Ágóðinn fer í gott málefni innan sveitar.

Einhyrningur hefur haft það harla gott síðan hann var síðast í fjölmiðlum, engin stórtíðindi í lífi hans og ég gleymi stundum alveg hvað hann er frægur. Hann kemur vel undan sumri og fór meira að segja á hrútasýningu um daginn, hann fékk að fara með hinum hrútunum til gamans, en hann var ekki dæmdur. Fólki leist bara ágætlega á hann, en flestir höfðu þó séð hann áður, enda innansveitarfólk á sýningunni,“ segir Erla Þórey Ólafsdóttir, bóndi í Hraunkoti í Landbroti og eigandi hins sérstaka hrúts, Einhyrnings.

Hann komst í heimsfréttirnar síðastliðið vor þegar sagt var frá honum hér á þessum síðum. Fyrir sitt einstaka útlit, með horn sín samvaxin sem eitt stórt upp úr höfði, rataði hann á ekki ómerkari miðla en BBC, Daily Mail, News Week og Machable, sem og í mexíkóska og þýska fjölmiðla.

Mun hornið vaxa inn í bakið?

Erla segir að fólk hafi stungið upp á því í framhaldi frægðarinnar að þau létu Einhyrning vinna fyrir sér með því að selja ferðamönnum aðgang að honum, til að fá að berja fyrirbærið augum.

„Nei, við gerðum það ekki. Við leyfðum honum að lifa sínu hversdagslega lífi, hann var hér í heimahögum í sumar með hinum fullorðnu hrútunum. En Einhyrningur samlagaðist hrútahópnum ekki mjög vel, hann var þó nokkuð einn. Ég veit ekki hvort hann hefur verið skilinn út undan, kannski af því hann er öðruvísi, eða hvort hann hefur hreinlega kosið einveruna sjálfur af einhverjum ástæðum. Hann er því þó nokkur eintrjáningur en hann náði að ergja okkur svolítið í sumar, hann reyndist vera girðingafantur og var að stelast þó nokkuð í túnin. Hann fór þar sem hann vildi fara, lét ekki girðingar stoppa sig til að komast úr úthaganum inn á ræktuð tún.“

Erla segir börnin sín þrjú ekki hafa lagt sig neitt sérstaklega eftir því að spekja Einhyrning, ekkert meira en aðrar kindur. Hann sé því ekki gæfur úti í haga, en rólyndisskepna þegar hann er inni í fjárhúsi.

Þegar Erla er spurð að því hvernig Einhyrningi hafi gengið að halda holdum, því hann var nokkuð rýr í vor, þá segir hún hann vera blómlegan og að honum virðist líða vel, hornið sé honum ekki til trafala á nokkurn hátt.

„Hornið hefur auðvitað vaxið heilmikið og börnin mín hafa þó nokkrar áhyggjur af því að það muni á endanum vaxa inn í bakið á honum, því það sveigist aftur og niður.“

Einhyrningur hefur verið listafólki innblástur

Erla segir að hinir og þessir hafi komið fram með ýmsar hugmyndir í vor um hvað ætti að gera við Einhyrning. Einhverjir stungu upp á að hann yrði fluttur í Húsdýragarðinn í Reykjavík, en það kom ekki til greina því það er stranglega bannað að flytja sauðfé frá heimahögum hrútsins til höfuðborgarinnar. Þar fyrir utan fellur það ekki að stefnu Húsdýragarðsins að hafa sérkennileg dýr eins og Einhyrning til sýnis.

„Fólk hafði líka samband við mig sem langaði að bjarga Einhyrningi frá dauða, þetta var vegan-fólk sem langaði að stofna garð eða einhverskonar friðarstað, en þau þekktu ekki vel til reglugerða og vissu ekki af sauðfjárveikivörnum sem banna að sauðfé sé flutt lifandi á milli varnarhólfa, svo það var kannski sjálfhætt með hugmyndina. Ég hef í það minnsta ekkert heyrt frá þeim aftur. Ég gerði þeim líka grein fyrir að þau þyrftu að sjá Einhyrningi fyrir fóðri, það þyrfti að heyja að sumri eða kaupa hey til að eiga yfir veturinn til að gefa skepnunni,“ segir Erla og bætir við að Einhyrningur hafi líka verið listafólki innblástur, listakona norður á Akureyri fékk leyfi til að nota hann sem fyrirmynd í skúlptúr.

Annar Einhyrningur kom í heiminn í sömu sveit

Þau hjónin í Hraunkoti, Erla og Bjarni, hafa velt heilmikið fyrir sér hvað þau ættu að gera við Einhyrning, og loksins komist að niðurstöðu.

„Við erum búin að ákveða framtíð hans. Við höfum ákveðið að gefa hann á uppboð sem er alltaf haldið hérna í Skaftárhreppi í tengslum við árlega uppskeruhátíð í byrjun nóvember. Í tengslum við uppskeruhátíðina eru margir viðburðir í sveitarfélaginu. Ágóðinn af uppboðinu fer svo í gott málefni hér innan sveitar.

Er þetta ekki bara góður endir á þessu Einhyrningsævintýri?“ spyr Erla og hlær. En ævintýrið heldur kannski áfram annars staðar, því Erla segir að síðastliðið vor hafi fæðst í sveitinni annar hrútur með samvaxin horn, rétt eins og Einhyrningur þeirra. „Það var á bænum Kirkjubæjarklaustri II, og vissulega ástæða til að velta fyrir sér hvernig á því standi að tveir svona hrútar fæðist með stuttu millibili í sömu sveit. Kannski er einhver skyldleiki með fénu, að það beri í sér gen sem valdi þessum samvexti hornanna? Hver veit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert