Mál Hanyie tekið til efnismeðferðar

Abrahim og Hanyie Maleki í afmælisveislunni sem haldin var fyrir …
Abrahim og Hanyie Maleki í afmælisveislunni sem haldin var fyrir hana á Klambratúni. Kærunefnd hefur nú úrskurðað að mál þeirra skuli tekið til efnismeðferðar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Mál afgönsku feðginanna Abrahim og Hanyie Maleki verður tekið til efnismeðferðar. Þetta staðfestir Guðmundur Karl Karlsson, vinur feðginanna.

„Þau fengu boð í síðustu viku um að það yrði fundur í dag þar sem þeim yrði birtur úrskurður kærunefndarinnar,“ segir Guðmundur Karl. „Þau fóru þangað í morgun ásamt lögfræðingi sínum og fengu þá þann úrskurð að málið verði sent aftur til Útlendingastofnunnar til efnislegrar meðferðar.“

Nú þegar úrskurðað hefur verið að málið skuli tekið til efnismeðferðar þá eykur það, að sögn Guðmundar Karls, líkur á því að þau fái hæli hér á landi.

„Málið hefur aldrei verið tekið fyrir þrátt fyrir fullyrðingu Sigríðar Á Andersen dómsmálaráðherra um annað,“ segir hann. Ráðherra hafi sagt mál þeirra Abrahims og Hanyie hafa fengið þrjár efnismeðferðir, en hið rétta sé að málinu hafi í þrígang verið synjað um efnismeðferð.

Líkurnar nú séu því nokkuð góðar. „Hér er augljóslega um að ræða fólk í sérlega viðkvæmri stöðu sem kemur frá stríðshrjáðu og hættulegu landi og nú verður ekki lengur hægt að vísa á Þýskaland sem ábyrgðarland,“ segir Guðmundur Karl. Af þeim málum sem hann þekki til, þá hafa þeir sem voru í sambærilegri stöðu og fengu mál sitt tekið til efnislegrar meðferðar fengið stöðu flóttamanns að efnismeðferð lokinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina