Er hurðin að klaustrinu fundin?

Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur hefur á síðustu árum unnið að miklum …
Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur hefur á síðustu árum unnið að miklum rannsóknum á hinum löngu horfnu klaustrum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hníga veigamikil rök að því að Valþjófsstaðarhurðin hafi í raun komið frá klaustri sem Jón Loftsson í Odda stofnaði að Keldum á Rangárvöllum árið 1193.“ Þannig kemst Steinunn Kristjánsdóttir að orði þegar hún réttir blaðamanni eintak af nýrri bók sem hún hefur ritað og Sögufélag og Þjóðminjasafnið gefið út. Bókin nefnist Leitin að klaustrunum, klausturhald á Íslandi í fimm aldir.

Bókin er í raun afrakstur áralangra rannsókna Steinunnar og samverkafólks hennar á öllum þeim klaustrum sem heimildir herma að starfrækt hafi verið á Íslandi á miðöldum. Áður hefur Steinunn sent frá sér verðlaunabókina Sagan af klaustrinu á Skriðu en þar rekur Steinunn fornleifarannsóknina sem hún stýrði á klaustrinu.

Ný kenning um upprunann

Valþjófsstaðarhurðin sem Steinunn vísar til er einn merkasti forngripur Íslendinga og lengi hafa vísindamenn velt vöngum yfir uppruna hennar. Í dag er talið víst að hurðin hafi verið skorin út í kringum árið 1200 en fyrr á tíð var talið að kona að nafni Randalín Filippusdóttir hefði skorið hana út. Miðað við fyrrnefnda aldursgreiningu er það hins vegar talið afar ósennilegt enda fæddist Randalín ekki fyrr en árið 1230.

Þrátt fyrir að heiðurinn af hinum tignarlega útskurði hafi því verið tekinn af Randalín, er hún þó í raun lykillinn að þeirri kenningu Steinunnar að hurðin hafi upphaflega komið frá klaustrinu á Keldum.

Sjálfstætt höfðingjaklaustur

Keldnaklaustur hefur ekki verið talið meðal helstu klaustra sem hér voru starfrækt enda var það starfrækt um skamman tíma, frá 1193 til 1222. Það var stofnsett af Jóni Loftssyni, einum mesta höfðingja Íslands um sína daga. Klaustrið stofnaði hann í trássi við vilja Rómarkirkjunnar. Þeirri stofnun bauð hann oftar en einu sinni byrginn en mestu átökin urðu í hinu mikla deilumáli sem nefnt hefur verið Staðamál hin fyrri.

„Jón Loftsson andmælti þeirri kröfu Þorláks Þórhallssonar að kirkjustaðirnir tilheyrðu kirkjunni en ekki höfðingjunum sem þá höfðu reist. Hindraði Jón með því framgang biskups í málinu,“ segir Steinunn og bendir á að fyrir vikið hafi Jón verið bannfærður af biskupi. Urðu þær deilur hatrammar og persónulegar enda var Ragnheiður Þórhallsdóttir, systir Þorláks, frilla Jóns og eignaðist með honum drenginn Pál. Hann varð síðar biskup í Skálholti að móðurbróður sínum látnum.

Klaustrið leggst af

Þegar Jón lést árið 1197 tók Sæmundur sonur hans við forræði mála á Keldum og Steinunn segir að heimildir bendi sterklega til að hann hafi aukið við staðinn um sinn dag.

„Þegar Sæmundur lést 1122 lagðist klaustrið af og segir í sögu Þorláks helga, sem er harla traust heimild um þessa atburði, að synir hans hafi þá rifið klaustrið og skipt með sér mjög verðmætum viði úr byggingum þess.“

Einn fjögurra skilgetinna sona Sæmundar var Filippus, faðir Randalínar. Vera kann að hurð klaustursins hafi fallið í hans hlut og síðar gengið til dóttur hans, annaðhvort sem heimanmundur þegar hún giftist Oddi Þórarinssyni, höfðingja á Valþjófsstað, árið 1249, eða þegar Filippus faðir hennar lést tveimur árum síðar.“

Hin konunglegu tengsl

Það lýsir eflaust sjálfsmynd Jóns Loftssonar hvað best að hann var einn fárra Íslendinga sem voguðu sér að hallmæla sjálfum páfanum í Róm. Bendir Steinunn á í bók sinni að eftir honum eru höfð orðin: „hvorki páfi né hans kardináli myndi vita betur né vilja en hinir fornu Íslendingar sem unnu þjóðfrelsi sínu og höfðu bæði vilja og góða greind á að gæta þess.“

Það kann að skýra hina sterku sjálfsmynd Jóns og sjálfstæði að um æðar hans rann blátt blóð. Hann var sonur Lofts Sæmundssonar í Odda og Þóru Magnúsdóttur, sem var laundóttir Magnúsar berfætts Ólafssonar, sem var konungur Noregs frá 1093-1103. Ólst Jón upp með foreldrum sínum í Konungahellu til 11 ára aldurs og var því vel sigldur í samanburði við flesta samlanda sína.

Tengslin við hurðina

Líkt og áður greinir telur Steinunn sterkar líkur á því að fyrir tilstuðlan Randalínar hafi hurðin úr Keldnaklaustri komið að Valþjófsstað og verið sett upp í kirkjunni á staðnum. En þá má spyrja hvort heimildir um dýrmætan við úr Keldnaklaustri og fjölskyldutengsl Randalínar við klaustrið séu nægilega traust undirstaða undir þá kenningu? Því svarar Steinunn neitandi en hún segir að mun fleiri þræðir tengi hurðina við klaustrið á Rangárvöllum.

„Eitt af því er án efa saga Jóns Loftssonar og sú ætt sem hann var kominn af. Myndmálið sem birtist á Valþjófsstaðarhurðinni er mögulega vísun til hans. Í grunninn er þar um að ræða þekkt minni úr evrópskum sögum um ljónariddara en myndin sýnir riddara bjarga ljóni úr klóm dreka. Að þessi skreyting hafi verið valin á hurðina er eflaust ekki tilviljun. Hún getur bæði vísað til Jóns sjálfs og Magnúsar afa hans, Noregskonungs.“

Þannig bendir Steinunn á að skjaldarmerki Magnúsar berfætts hafi verið skreytt ljóni. Segir Snorri Sturluson svo frá í Heimskringlu að skjöldur hans hafi verið rauður „ok lag á með gulli léó“.

„Það er ekki ólíklegt að þegar myndefni var valið á hurð þess einkaklausturs sem Jón stofnsetti í trássi við vilja kirkjunnar, hafi verið sótt í minni sem tengist skjaldarmerki hins mikla forföður hans. En meira kemur til. Frásögnin sem slík, þar sem riddarinn leggur dreka í gegn með sverði sínu, vísar til hetjulegrar baráttu. Vel má vera að Sæmundur sonur hans hafi í raun látið skera söguna út í hurðina að Keldnaklaustri og hafi þá haft í huga það ótrúlega afrek föður síns fyrir íslensk ættarveldi að hafa betur gegn valdsstefnu páfa.“

Í myndmálinu sést hvar ljónið liggur að lokum á gröf lífgjafa síns, riddarans. Þar stendur ritað rúnaletri: „Sjá inn ríka konung hér grafinn er vá dreka þenna.“

Steinunn segir að drekinn geti vel hafa staðið sem táknmynd fyrir páfavaldið í huga Sæmundar og þannig hafi hann séð föður sinn, konungborinn riddara, í föruneyti ljónsins, skjaldartákns konungsins langafa hans, leggja kirkjuvaldið og hafa á því fullan sigur.

Hún lætur þess einnig getið að í útskurðinum stendur kirkja við gröf riddarans og að hún kunni að vísa til frægrar kirkju sem Jón lét reisa á Keldum.

„Í heimildum segir að hann hafi látið bera sig út í bæjardyr þegar hann var dauðvona til þess að geta litið kirkju sína. Myndin gefur þá til kynna að Jón hvíli við kirkju sína en dauðvona mælti hann til hennar: „Þar stendur þú kirkja mín. Þú harmar mig en ég harma þig.““

Sögur oft ristar í við og stein

Steinunn bendir á að það hafi verið alþekkt á þessum tímum að merkustu menn fengju sögu sína rista í stein eða á tré. Jón hafi um sína daga verið meðal merkustu manna og ekki hafi það dregið úr þeirri vigt sem hann hafði í samfélaginu að hann var barnabarn sjálfs Noregskonungs.

„Mörg dæmi eru um þetta og má þar helstan nefna hinn svokallaða Jalangursstein á Jótlandi, þann sem Haraldur blátönn lét höggva afrek sín í. Á steininum er hann sagður leggja undir sig Noreg og Danmörku auk þess að kristna Dani.“

Segir Steinunn að myndmálið á hurðinni hafi gert klausturhurðina að Keldum að miklum verðmætum fyrir ættina alla enda hafi í hana verið greypt saga ættarhöfðingjans og afreka hans.

Sagan kemur í ljós

Steinunn segir að sig hafi ekki grunað að leitin að Keldnaklaustri myndi leiða hana alla leið á Valþjófsstað og að hurðinni frægu sem við staðinn er kennd.

„Það hafa ýmsar kenningar verið uppi um Keldnaklaustur og því jafnvel haldið fram að hús þess hafi aldrei verið reist. Heimildir vísa þó í aðra átt og frásögnin af hinum verðmæta viði, skrínunum tveimur, táknmálinu sem hurðin geymir, ásamt tengslum Randalínar við staðinn hafa sannfært mig um að þarna sé hurðin að Keldnaklaustri fundin.“

Myndmál hurðarinnar

Í bókinni Þjóðminjar lýsir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður myndmáli Valþjófsstaðarhurðarinnar svo:

„Á efri myndfletinum er þekkt miðaldasaga í þremur þáttum. Neðst sést riddari á hesti sínum og flýgur veiðihaukur með honum. Riddarinn leggur sverði gegnum dreka sem vafið hefur halanum um ljón. Í næsta þætti, efst til vinstri, sést þakklátt ljónið fylgja lífgjafa sínum en veiðihaukurinn situr á makka hestsins. Í síðasta þætti, efst til hægri, liggur ljónið á gröf riddarans og syrgir hann. Í baksýn er lítil stafkirkja og á gröfinni er rúnaletur þar sem segir: „Sjá inn ríkja konung hér grafinn er vá dreka þenna.“

Skrínin tvö

Aðeins hafa varðveist tvö helgiskrín frá kaþólskum tíma hérlendis. Þau eru eins, og er annað þeirra varðveitt á Þjóðminjasafninu og hitt á systursafni þess í Danmörku.

Annað skrínið, sem varðveitt er utanlands, kemur frá Keldum og er það heilt og ber vott um ríkidæmi staðarins, en hitt kemur frá Valþjófsstað. Er það mun verr farið.

Vera kann að það hafi verið heimanmundur Randalínar ásamt hurðinni merku sem hún fékk þegar hún gekk að eiga Odd Þórarinsson, höfðingja á Valþjófsstað. Það virðist sennileg tenging milli gripanna og staðanna tveggja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »