Beygði af í beinni útsendingu

Inga Sæland, eftir að þátturinn kláraðist.
Inga Sæland, eftir að þátturinn kláraðist. mbl.is/Eggert

Inga Sæland beygði af þegar hún talaði um framtíðarsýn Flokks fólksins í kappræðum á RÚV nú í kvöld, en allir leiðtogarnir fengu tækfæri til að tala til kjósenda.

„Framtíðarsýn okkar einfaldlega að sú að við getum öll gengið hér um fallega landið okkar og borið höfuðið hátt. Og verið stolt af því að vera Íslendingar,“ sagði Inga og gerði stutt hlé á máli sínu.

„Fyrirgefðu, ég verð bara klökk,“ sagði hún og hélt áfram, brostinni röddu: „Mín framtíðarsýn er sú að öryrkjum líði ekki eins og annars flokks þjóðfélagsþegnum í landinu okkar. Að gamla fólkið okkar geti lifað hér með reisn og eigi áhyggjulaust ævikvöld. Að 9,1% barnanna okkar líði ekki hér mismikinn skort. að 25% barna búi ekki við óviðunandi húsnæðiskost. Og að það skuli ekki vera forréttindi að leita læknis og að enginn Íslendingur þurfi nokkurn tímann að búa í tjaldi eða hjólhýsi í Laugardal eða nokkurs staðar annars staðar. Það er á morgun sem þessi rödd er tilbúin að tala okkar máli. Þetta er tækifæri sem við höfum til þess að fá uppreisn í þessu samfélagi,“ sagði Inga í tilfinningaþrunginni framsögu sinni.

mbl.is