Endurkrefja bæinn um 75 milljónir

Lækningaminjar eru til sýnis í Nesstofu á Seltjarnarnesi. Læknafélag Íslands …
Lækningaminjar eru til sýnis í Nesstofu á Seltjarnarnesi. Læknafélag Íslands telur sýninguna ekki fullnægjandi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur nú að endurheimt 75 milljóna króna stofnkostnaðar vegna brostins samnings við Seltjarnarnesbæ um húsnæði Læknaminjasafnsins. Stofnað hefur verið til innheimtumáls vegna þessa. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis.

Það var árið 2000 sem stjórnvöld tóku við erfðagjöf Jóns Steffensen frá Læknafélagi Íslands. Gjöfinni, Bygggarðar 7, ásamt lausafé,  fylgdi sú kvöð að hún yrði nýtt í þágu lækningaminjasafns. Árið 2007 undirrituðu menntamálaráðherra, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar og fulltrúar Læknafélags Íslands, Læknafélags Reykjavíkur og Þjóðminjasafns Íslands samning til fimm ára um stofnkostnað, byggingu og rekstur húsnæðis fyrir Lækningaminjasafn Íslands.

Seltjarnarnesbær kláraði aldrei húsið

Fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar að Seltjarnarnesbær hafi tekið ábyrgð á öllum kostnaðarþáttum vegna rekstur og byggingu safnsins en fékk 75 milljóna króna stofnframlag frá ráðuneytinu. Auk þess átti að nýta söluandvirði Bygggarða 7 til byggingarinnar.

Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi.

Byggingarkostnaður safnsins reyndist „verulega vanmetinn“ að því er fram kemur í skýrslunni. Seltjarnarnesbær fór fram á aukið fé frá ríkinu en því var hafnað. Bærinn sagði sig frá samningum árið 2012 og lagði safnið niður. Húsið var aldrei klárað.

Ríkisendurskoðun hvatti ráðuneytið árið 2014 til að krefja Seltjarnarnesbæ um endurgreiðslu stofnfjárins, næðust ekki samningar um annað. Ráðuneytið var jafnframt hvatt til að vanda til verka við samninga við einkaaðila. Tryggja þyrfti að kostnaðaráætlanir væru unnar á faglegan hátt og að gott eftirlit væri með gerðum samningum.

Ríkisendurskoðun fór fram á það fyrir ári  að forsætisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti upplýstu hvernig brugðist hefði verið við ábendingunum frá 2014. Forsætisráðuneytið benti þá á að málefni þjóðmenningar heyrðu nú undir mennta- og menningamálaráðuneytis. „Ráðuneytið vísaði að öðru leyti í viðbrögð Þjóðminjasafns Íslands sem taldi sig hafa brugðist við um leið og starfsemi Lækningaminjasafns Íslands var slitið. Bygggarðar 7 sem hýstu lækningaminjar hefðu verið tæmdir og væru nú allar lækningaminjar Þjóðminjasafns varðveittar í nýju varðveislu- og rannsóknasetri í Hafnarfirði,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Skilyrði gjafarinnar hafi ekki verið uppfyllt

Bygggarðar 7 voru seldir fyrir 97 milljónir í byrjun þessa árs. Ríkisendurskoðun vill að söluandvirðið verði nýtt í samræmi við skuldbindingar ríkisins vegna erfðagjafarinnar. Greint er frá því að Þjóðminjavörður telji að salan hafi verið ein af forsendum þess að Þjóðminjasafn hefur nú til umráða nýtt rannsókna- og varðveislusetur þar sem 12 þúsund læknaminjar séu varðveittar. Peningarnir hafi því nýst til úrbóta á varðveislu minjanna, í samræmi við kvaðir gjafarinnar.

Fram kemur að mennta- og menningarmálaráðuneyti telji hins vegar að eftir standi að ráðastafa söluandvirðinu til uppbyggingar lækningaminjasafns. Það verði gert síðar. Læknafélag Íslands segir að sýning og framsetning læknaminja sé ófullnægjandi og uppfylli ekki kvaðir gjafarinnar. „Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingu sína [frá 2014] en gagnrýnir óvissuna um hvort og hvernig erfðagjöf Jóns Steffensen hafi verið eða verði nýtt,“ segir í skýrslunni.

Innheimtumál gegn Seltjarnarnesbæ

Gagnrýnt er í skýrslunni að stjórnvöld hafi ekki haft samráð við Læknafélag Íslands um fyrirkomulag lækningaminja og -safns. Ráðuneytið er hvatt til að bæta úr því.

Loks kemur fram að ríkið hafi stofnað til innheimtumáls á hendur Seltjarnarnesbæ vegna fjárhagslegs uppgjörs. Viðræður hafi siglt í strand. Þá kemur fram að Læknafélag Íslands hafi einnig krafist endurgreiðslu síns framlags.

Horft yfir Vesturbæinn og út á Seltjarnarnes. Ráðuneytið hefur farið …
Horft yfir Vesturbæinn og út á Seltjarnarnes. Ráðuneytið hefur farið í hart við bæinn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert