Ekki ærumeiðandi umfjöllun

Blaðamaður Stundarinnar var í Héraðsdómi Reykjavíkur sýknaður af kröfu fyrrverandi ritstjóra Reykjavík Grapevine um að hafa vegið að æru hans í umfjöllun sinni. Telur dómari að eðlilegu verklagi í fréttamennsku hafi verið fylgt við vinnslu fréttarinnar.

Málið var höfðað af Hauki S. Magnússyni, fyrrverandi ritstjóra Reykjavík Grapevine gegn Áslaugu Karen Jóhannsdóttur, blaðamanni Stundarinnar.

Haukur krafðist þess að fá greiddar tvær milljónir króna í miskabætur og ómerkingar á ærumeiðandi ummælum, sem hafi birst í Stundinni 18. febrúar til 2. mars 2016 og Áslaug bar ábyrgð á. 

 Þess var krafist að eftirfarandi ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk:

  1. Í öðru þeirra lýsir fyrrverandi samstarfskona Hauks ... alvarlegu atviki. Hún tekur einnig fram að hún hafi verið ofurölvi þegar atvikið átti sér stað. ,,Í grundvallaratriðum hélt hann áfram að snerta mig og hunsaði mig þegar ég sagði honum að þetta ætti ekki að gerast og að mér liði illa. Hann hlustaði ekki á mig.“
  2. Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með dráttarvöxtum frá 22. mars 2016 til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.
  3. Þess er krafist að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birt í Stundinni eigi síðar en 15 dögum eftir dómsuppsögu.
  4. Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti. Krafist er 24% virðisaukaskatts ofan á dæmdan málskostnað.

Taldi Haukur að um ærumeiðandi aðdróttanir væri að ræða sem bæri að ómerkja. Í dómi héraðsdóms kemur fram að þegar orð eru látin falla á opinberum vettvangi þar sem vegið er að æru manns felur það í sér skerðingu á friðhelgi einkalífs hans sem varin er af  bæði stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Á sama tíma er tekist á um ákvæðið um tjáningarfrelsið. 

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga

Segir í dómi héraðsdóms að við þetta mat þurfi að hafa í huga að ummælin birtust í frétt í fjölmiðli og að Áslaug er blaðamaður.

„Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélagi við miðlun upplýsinga og skoðana um þjóðfélagsleg málefni. Almenningur á rétt á því að fá slíkar upplýsingar, jafnvel þótt þær kunni að stuða eða móðga þá sem þær fjalla um. Því verða sérstaklega ríkar ástæður að vera fyrir hendi til þess að skerðing á frelsi fjölmiðla í því efni geti talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Umræða sem átti erindi við almenning

Ummælin komu fram í umfjöllun þar sem því var haldið fram að yfirmaður hafi þurft að víkja úr starfi eftir að þrír undirmenn hans höfðu sakað hann um kynferðislega áreitni. Sú umfjöllun tengist almennri þjóðfélagsumræðu, sem hefur verið áberandi síðustu ár, um þá erfiðleika sem þolendur kynferðisofbeldis geta af ýmsum ástæðum átt með að stíga fram og tilkynna um brotið. Umfjöllunin, þar á meðal lýsing á efni þeirra ásakana sem undirmennirnir báru á Hauk, var því liður í þjóðfélagslegri umræðu og átti erindi til almennings.

Byggir á skrifum Hauks í leiðara

Sú ásökun sem birtist í ummælunum beinist að Hauki en hann er ekki opinber persóna. Hann gegndi eftir sem áður áberandi starfi við stjórn fjölmiðils og var yfirmaður á vinnustaðnum. Hann hafði sjálfur vakið athygli á starfslokum sínum í leiðara í Reykjavík Grapevine í byrjun febrúar 2016, þar sem hann lét í það skína að starfslok hans ættu alfarið rætur að rekja til vilja hans til að hætta. Samkvæmt því sem segir í fréttinni í Stundinni virðast þessi opinberu ummæli hans að nokkru leyti vera kveikjan að því að konurnar stigu fram og sögðu sína hlið á því máli.

Ummælin sem ómerkingarkrafan beinist að fela í sér lýsingu á háttsemi sem einn af fyrrgreindum undirmönnum Hauks hafði borið á hann og konurnar töldu hafa leitt til starfsloka hans. Samkvæmt því sem fram fyrir dómi var starfslokum Hauks flýtt vegna þessara ásakana. Að því leyti er umfjöllunin, sem ummælin eru í, rétt. Hins vegar liggur ekki fyrir að Haukur hafi verið kærður fyrir hið ætlaða brot, hvað þá að ákæra hafi verið gefin út og dómur fallið.

Áslaug lagði ekki fram neinar upplýsingar við málaferlin sem geta skotið stoðum undir þær ásakanir sem fram koma í ummælunum. Í því efni bendir dómari á að heimildarmenn blaðamanns óskuðu eftir því að njóta nafnleyndar.

Lýsingin var innan gæsalappa

„Í þessu sambandi er þó rétt að hafa í huga að í fréttinni er hvergi staðhæft að stefnandi hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ummælunum sem málið lýtur að. Þau eru eins og áður segir frásögn sem kemur fram í bréfi heimildarmanns stefndu sem leitt hafði til þess að hann varð að hætta störfum fyrr en ella. Lýsingin á háttseminni var höfð innan gæsalappa án þess að mat væri lagt á sannleiksgildi ásakananna. Í fréttinni er einnig tekið fram að leitað hafi verið afstöðu stefnanda til þeirra og haft eftir honum að hann vísi þeim alfarið á bug og að þær eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.

Ekki liggur annað fyrir en að stefnda hafi fylgt eðlilegu verklagi í fréttamennsku við vinnslu fréttarinnar. Hún ræddi við tvo heimildarmenn og hafði undir höndum tvö af þeim þremur bréfum sem bárust útgáfu Reykjavík Grapevine. Þá segir í fréttinni að stefnda hafi séð önnur samskipti konunnar við stefnanda og að hún hafi fengið staðfestingu frá Stígamótum um að hún hafi leitað þangað. Að lokum leitaði hún upplýsinga frá útgáfufyrirtæki Reykjavík Grapevine um hvort bréfin hefðu borist og valdið því að stefnandi hafi látið af starfi ritstjóra,“ segir ennfremur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

 Niðurstaða dómara er því að fréttin hafi átt erindi við almenning og vinnubrögð Áslaugar við vinnslu fréttarinnar hafi ekki farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar í fjölmiðlum samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar. Því beri að hafna öllum kröfum Hauks.

Haukur er jafnframt dæmdur til þess að greiða 800 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert