„Erfiðir tímar fram undan hjá fjölskyldunni“

Litla Agnarögn rúmast í lófum foreldra sinna.
Litla Agnarögn rúmast í lófum foreldra sinna. Ljósmynd/Aðsend

Söfnun er hafin fyrir fjölskyldu tvíburastúlkna sem fæddust 23. október á 25. viku meðgöngu. Önnur stúlkan fæddist andvana og verður jarðsett í næstu viku. Nú berst litla Agnarögn, eins og hún er kölluð, fyrir lífi sínu á vökudeild Landspítalans en ástand hennar hefur verið stöðugt og hún heldur áfram að þyngjast.    

„Það eru erfiðir tímar fram undan hjá ungu fjölskyldunni,“ segir Harpa Kristinsdóttir, amma stúlknanna. Foreldrarnir eru ungir en fyrir eiga þau 18 mánaða stúlku. Næstu mánuði munu þau þurfa að dvelja í Reykjavík og verða því fjarri fjölskyldu, heimili og vinum. Þau voru svo lánsöm að fá úthlutaða íbúð frá Landspítalanum. 

Við finnum mikinn samhug hjá fólki og því vilja margir gera eitthvað fyrir þau,“ segir Harpa, sem býr í Skagafirði þar sem sonur hennar ólst upp. Eftir tvær vikur, 24. nóvember, verður haldin styrktarsamkoma fyrir fjölskylduna í félagsheimilinu Höfðaborg á Hofsósi. „Nokkrir íbúar staðarins tóku höndum saman og skipulögðu samkomuna,“ segir Harpa þakklát.

Þess má geta að ábyrgðarmaður reikningsins sem hægt er að leggja inn á til að styrkja fjölskylduna er Guðrún Helga Magnúsdóttir en hún er í raun „skáamma“ í fjölskyldunni. „Sonur minn dvaldi mikið hjá henni og eiginmanni hennar og þau eru í raun eins og önnur fjölskylda hans á Dalvík,“ segir Harpa.

Hér er styrktarsíða fyrir Agnarögn og foreldra hennar.

Stofnaður hefur verið styrktarreikningur fyrir fjölskylduna. Reikningsnúmerið er: 0177-05-260070, kt: 010856-3889

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert