Góður grunnur er lykill að læsi

Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur með íslenska málhljóðamælinn.
Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur með íslenska málhljóðamælinn. mbl.is/Hilmar Bragi Bárðarson

Íslenski málhljóðamælirinn er smáforrit sem frú Vigdís Finnbogadóttir opnar formlega í dag, á Degi íslenskrar tungu, í Vigdísarstofu, í Veröld, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Íslenski málhljóðamælirinn er nýstárleg lausn í skimunartækni sem metur framburð íslensku málhljóðanna. Málhljóðamælirinn er ætlaður fagaðilum  leik-, grunnskóla og  stofnana til að skima frávik í framburði og koma með ábendingar um næstu skref.

„Það er mikilvægt að fylgjast vel með og greina þau börn strax sem þurfa á aðstoð að halda á öllum sviðum máls og tals. Ef við ætlum að ná betri árangri í læsi í alþjóðlegum samanburði þá verðum við að byrja á grunninum, grasrótinni, svo hægt sé að halda áfram að byggja ofan á þekkingu þeirra,“ segir Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur og höfundur forritsins.

Hún vill jafnframt að það verði fest í sessi að markvisst verði skimað fyrir málhljóðunum hjá leikskólabörnum. Barn sem skilst illa strax á aldrinum tveggja og hálfs árs til þriggja og hálfs árs er líklegra til að hafa slakari getu í hljóðkerfisvitund við 5 ára aldur sem gefur vísbendingar um að það gæti átt í erfiðleikum með læsi. Því fyrr sem fylgst er með hvernig börnum gengur að mynda málhljóðin því betra, að sögn Bryndísar.  

30 ára starfsafmæli Bryndísar

Bryndís á 30 ára starfsafmæli sem talmeinafræðingur á Íslandi á þessu ári og hefur auk þess þróað og gefið út heildstætt námsefni og íslensk smáforrit fyrir barnafjölskyldur sem byggir á fagþekkingu og reynslu í starfi. Margir foreldrar þekkja efni Bryndísar, Lærum og leikum með hljóðin.

„Börnin eru alltaf eins. Þau eru yndisleg og alltaf tilbúin að vinna með manni það breytist ekkert. Í dag er oft minni tími fyrir þau en tæknin hefur breyst mikið,“ segir Bryndís spurð hvað hafi breyst á þessum 30 árum þegar hún hóf störf hér á landi.

Forritið nokkur ár í smíðum

Í gegnum tíðina hefur Bryndís þurft að búa til mikið af efni sjálf enda var hún með fyrstu talmeinafræðingum á Íslandi. Fyrir nokkrum árum fór hún að huga að næstu skrefum sem var að búa til málhljóðaskimun fyrir fagfólk sem var vígt með formlegum hætti í dag. Undanfarin þrjú ár hefur hún unnið með sérfræðingum frá Bretlandi við að búa til Málhljóðamælinn.

Hann er einfaldur í notkun og gefur strax niðurstöður um getu einstaklings og leggur fram tillögur um næstu skref. Hægt er að skima allt að 6 börn á klukkustund og skýrsla er sjálfkrafa tilbúin í framhaldi af prófuninni. Forritið auðveldar starf kennara og fagaðila umtalsvert einnig er hægt að fylgjast með framförum og breytingum á framburði barna og einstaklinga.

Mikilvægt að vinna með börnum með slakan orðaforða

Bryndís bendir á að það vanti talsvert af talmeinafræðingum til starfa. „Okkar tími í grunnskólum fer mikið í að laga framburðarvanda hjá börnum en 99% barna sem byrja í grunnskóla ættu að hafa náð öllum hljóðum í framburði áður. En svo er ekki raunin og það hefði átt að vera búið að vísa mörgum áður til talmeinafræðinga,“ segir Bryndís og bendir á að fyrir vikið fari of mikil vinna sérfræðinga í að vinna með grunnskólabörnum sem hefði átt að hefjast mun fyrr. Mikilvægt sé að talmeinafræðingar vinni með börnum með slakan orðaforða og málþroska. „Þau börn fá fyrir vikið minni tíma og sá hópur er gjarna falinn. Þau hafa jafnvel ekki getu til að vinna með stærðfræði því skilninginn á hugtökunum vantar,“ segir Bryndís og bendir á að rannsóknir sýni að snemmtæk íhlutun til að bæta málþroska barna og hljóðkerfisvitund áður en grunnskólanám hefst er grundvallaratriði fyrir líðan barna og seinni tíma námsárangur. 

Hjálpar fólki af erlendum uppruna sem lærir íslensku 

Hún mælir með að forritið verði notað í öllum leik- og grunnskólum landsins en fjölmargir skólar eru þegar farnir að notast við frumgerð forritsins og láta vel af því. Forritið auðveldar og einfaldar vinnu sérfræðinga til muna svo þeir geti einbeitt sér í ríkari mæli að því að aðstoða barnið sjálft í stað skýrslugerðar. Þá stuðlar það að snemmtækri íhlutun í hljóðavinnu og hljóðkerfisvitund sem mikilvæg er fyrir læsi. Grunninn leggjum við strax frá unga aldri.

„Þetta forrit hjálpar líka þeim sem vinna með fólki af erlendum uppruna sem læra íslensku,“ segir Bryndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert