Harpa böðuð finnsku fánalitunum

Aldarafmæli finnska lýðveldisins verður fagnað víða um heim.
Aldarafmæli finnska lýðveldisins verður fagnað víða um heim.

Finnar hafa frá því í byrjun árs fagnað því að nú er öld liðin frá því að þeir öðluðust sjálfstæði frá Rússum. Þjóðhátíðardagur landsins er á miðvikudag, 6. desember, og af því tilefni verður Harpa m.a. lýst upp í finnsku fánalitunum frá því seinni partinn á morgun og fram á fimmtudag. „Við erum mjög stolt og þakklát fyrir að Harpa ætli að gera þetta fyrir okkur,“ segir Valtteri Hirvonen, sendiherra Finnlands á Íslandi, í samtali við mbl.is. Um 140 Finnar búa á Íslandi. Valtteri hefur starfað í utanríkisþjónustu Finnlands í þrjá áratugi og segir Íslendinga sérstaklega vinveitta Finnum enda eigi þjóðirnar fjölmargt sameiginlegt.

Hátíðardagskráin hefur verið umfangsmikil í Finnlandi en einnig í öðrum löndum, m.a. á Íslandi, þar sem hún hófst með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu í janúar. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var heiðursgestur tónleikanna og forseti finnska þingsins var m.a. á meðal gesta.

Sendiherra Finnlands á Íslandi, Valtteri Hirvonen.
Sendiherra Finnlands á Íslandi, Valtteri Hirvonen.

Síðan þá hefur verið bryddað upp á ýmsum viðburðum, nú síðast í Hofi á Akureyri þar sem Menningarfélag Akureyrar stóð fyrir sannkallaðri finnskri tónlistarveislu.

Á þjóðhátíðardaginn mun sendiherrann bjóða til móttöku þangað sem von er á um 200 boðsgestum.

Valtteri segir að Finnar haldi þjóðhátíðardaginn alltaf hátíðlegan en í ár sé viðburðurinn vissulega stærri en venjulega. Þannig hafi sendiráð og skrifstofur skipulagt að lýsa upp byggingar í þrjátíu löndum í fánalitum Finnlands.

Hann segir að finnsk stjórnvöld, opinberar stofnanir og fleiri aðilar hafi verið að byggja upp hátíðarstemningu fyrir deginum í nokkur misseri. Í ár hafi ýmsir viðburðir tengdir tímamótunum verið nær vikulega.

Yfirskrift hátíðardagskrárinnar í ár er „Í sameiningu“ eða „Saman“. „Í fyrstu gæti það virst algjör andstaða við orðið „sjálfstæði“, því þýðir sjálfstæði ekki frelsi til að gera hlutina upp  á eigin spýtur án áhrifa frá öðrum?“ segir Valtteri. „En í mínum huga er þetta orð, „saman“, kjarni sjálfstæðisins. Við Finnar erum í raun fámenn þjóð, þótt við séum fjölmennari en Íslendingar. Við erum aðeins um 5,5 milljónir og við verðum að standa saman og hjálpast að. Það hefur gefist okkur vel í gegnum okkar sögu, í gegnum erfiða sem góða tíma.“

Jafnrétti leiðarljós framtíðar

Valtteri nefnir sem dæmi jafnrétti kynjanna sem og allra Finna, jafnan rétt allra til menntunar og fleira sem hann segir vera hryggjarstykkið í því sem sameinar þjóðina. En þetta á ekki aðeins við innanlands, samstarf utan landssteinanna er einnig mikilvægt, segir hann. Finnsk hagsæld byggist á frjálsum viðskiptum og opnu alþjóðlegu hagkerfi sem og þeim ramma sem alþjóðastofnanir setji. „Þetta er það sem „í sameiningu“ þýðir í mínum huga. En við getum ekki aðeins hugsað um árangur fortíðar heldur verðum við að líta til framtíðar. Við verðum að halda áfram á þessari leið jafnréttis og  opins samfélags. Það væri hættulegt að hverfa inn á við.“

Valtteri minnir á að sjálfstæðisyfirlýsing Finna frá 6. desember 1917 sé stutt en þar sé fjallað um nauðsyn þess að tengja sjálfstæði og frelsi við samfélag ríkja heimsins. „Þannig eigum við að vinna áfram til framtíðar.“

Nágrannar sem greinir oft á

Spurður um hvernig sambandið milli Finna og Rússa sé í dag byrjar Valtteri á að segja að þjóðirnar séu nágrannar sem hafi deilt í fortíðinni. Tvö stríð hafa verið háð milli ríkjanna frá því að Finnland fékk sjálfstæði. „Við héldum okkar sjálfstæði og okkar lýðræðisskipan og í því sambandi hefur samvinna við önnur Norðurlönd verið mikilvæg.“

Þúsundir Íslendinga sýndu samstöðu með Finnlandi er stríð braust út …
Þúsundir Íslendinga sýndu samstöðu með Finnlandi er stríð braust út í lok árs 1939.

Á stríðstímum hafi Norðurlandaþjóðirnar ávallt staðið saman. Íslendingar hafi m.a. gengið til liðs við finnska herinn er vetrarstríðið svokallaða braust út árið 1939 er Sovétríkin réðust á Finnland. Fyrir það eru Finnar þakklátir að sögn Valtteri. Einn atburður stendur þó upp úr í hans huga hvað varðar samstöðu landanna tveggja og það er þegar um 10 þúsund Íslendingar gengu til stuðnings finnsku þjóðinni frá Háskóla Íslands og að ræðisskrifstofu Finnlands í Hafnarhúsinu 1. desember 1939, skömmu eftir að stríðið braust út. Valtteri segir að gangan hafi verið sú fjölmennasta sem farin hafði verið á Íslandi á þeim tíma, líkt og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins. Hann bendir auk þess á að miðað við mannfjölda þess tíma séu þessi mótmæli enn þau fjölmennustu sem um getur á Íslandi.

Hvað samskiptin við Rússa snertir í dag segir Valtteri að vissulega séu þau oft með ágætum en að þjóðirnar greini á um margt. Þannig hafi Finnar fordæmt innlimun Krímskaga í Rússland sem og stríðsrekstur Rússa í austurhluta Úkraínu. „Við stöndum staðfastlega að viðskiptabanni Evrópusambandsins gegn Rússum og fögnum samstöðu Íslendinga í því. En við verðum að halda samtali við Rússa um þessi málefni áfram, við getum ekki slitið öll tengsl við þá. Að okkur greini á um mikilvæg málefni, sem meðal annars tengjast alþjóðalögum, gerir það enn mikilvægara að viðhalda samskiptum við rússnesk stjórnvöld.“

Frá Norður-Kóreu til Íslands  

Valtteri varð sendiherra á Íslandi í september árið 2014 eða fyrir rúmlega þremur árum. Þá flutti hann hingað til lands ásamt eiginkonu sinni, Katrinu Färm-Hirvonen, og yngstu dóttur þeirra hjóna. Dóttir þeirra fór í Menntaskólann við Hamrahlíð þaðan sem hún útskrifaðist síðasta vor. „Við höfum átt einstaklega góðan tíma hér á Íslandi,“ segir Valtteri sem hefur unnið í utanríkisþjónustu Finnlands í þrjá áratugi. Þetta er í sjötta sinn sem þau hjónin fara utan til starfa á hennar vegum. Síðast voru þau í Ástralíu en fyrsta staðan var hins vegar í Norður-Kóreu á níunda áratugnum. Í millitíðinni hafa þau t.d. verið í Japan, Póllandi og Mexíkó. Hann segir að svo margt eigi Finnar og Íslendingar sameiginlegt að þau hafi ekki þurft neina sérstaka aðlögun að íslensku samfélagi. „Íslendingar eru alveg eins og Finnar,“ segir Valtteri. „Við hugsum eins og höfum sömu sýn á lífið. Þetta er eitt Norðurlandanna; allt virkar eins og það á að virka, allt er hreint og siðmenntað,“ segir hann um dvölina á Íslandi.

Hann segir Íslendinga mjög jákvæða í garð Finna og því hafi lífið hér verið þægilegt og gott.

Sendiherrastaðan er veitt til fjögurra ára í senn svo næsta haust mun fjölskyldan hverfa til annarra starfa. Hvert það verður mun skýrast í byrjun nýs árs á sama tíma og upplýst verður hver taki við sendiherrastöðinni á Íslandi. Hann segir að líklega séu þjóðirnar tvær svona líkar því þær eigi svo margt sameiginlegt. Þær eru báðar á útjaðri Norðurlandanna, Ísland í vestri og Finnland í austri. Í báðum löndunum eru töluð allsérstök tungumál sem íbúar annarra Norðurlanda skilji ekki. Þá sé saga beggja landa svipuð, þau hafi fengið sitt sjálfstæði seint í sögulegu samhengi og séu bæði lýðveldi ólíkt hinum Norðurlöndunum sem séu konungsríki. „Þannig að við eigum margt sameiginlegt, Finnar og Íslendingar.“

Facebook-síða finnska sendiráðsins á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert