Tilbúnir í uppbyggingu á flugvellinum

Bandarísk P-8 Poseidon.
Bandarísk P-8 Poseidon. Ljósmynd/Wikipedia

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna er í startholunum með að verja milljónum dollara á næsta ári til þess að bæta aðstöðuna fyrir kafbátaleitarflugvélar á gamla varnarsvæðinu á Miðnesheiði. Tilgangurinn er að auka getu Bandaríkjamanna til þess að fylgjast með ferðum nýrrar kynslóðar rússneskra kafbáta í Norður-Atlantshafinu.

Frétt mbl.is: Verja 2,7 milljörðum á Íslandi

Fjallað var um málið á síðasta ári á mbl.is en þá hafði ráðuneytið farið fram á umrædd fjárframlög svo breyta mætti flugskýlum á Keflavíkurflugvelli til þess að hýsa þar kafbátaleitarflugvélar af gerðinni P-8 Poseidon en flugskýlin, sem eru frá tímum kalda stríðsins, voru hönnuð fyrir flugvélar af gerðinni P-3 Orion.

Fram kemur á vef bandaríska tímaritisins Foreign Policy að íslensk og bandarísk stjórnvöld hafi þegar komist að samkomulagi um uppbygginguna á flugvellinum og að aðeins sé beðið eftir undirskrift Donalds Trump Bandaríkjaforseta til þess að hægt sé að hefja framkvæmdirnar. Fjárframlögin hljóða upp á 14,4 milljónir dollara.

Frétt mbl.is: Aðeins verið að uppfæra aðstöðuna

Bandarísk stjórnvöld hafa tekið fram að engin áform séu uppi um að hafa varanlegar flugsveitir á Íslandi heldur sé einungis um það að ræða að uppfæra aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli til þess að koma þar fyrir nýrri gerð eftirlitsflugvéla. Bandaríkjamenn séu þannig smám saman að skipta P-3-flugvélunum út fyrir P-8.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka