Tilkynnti færslu Gillz til lögreglu

Gillzenegger lagði til að tveir menn myndu „tittlinga“ Drífu Snædal, …
Gillzenegger lagði til að tveir menn myndu „tittlinga“ Drífu Snædal, í færslu sem hann birti á heimasíðu sinni árið 2007. Drífa tilkynnti færsluna til lögreglu en fékk sent bréf þar sem sagði að ekki þætti ástæða til að fylgja málinu eftir frekar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég tilkynnti þetta til lögreglu á sínum tíma. Ég held að ég hafi verið sú eina sem gerði það. Lögreglan sá hins vegar ekki ástæðu til að fylgja því eftir,“ segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, í samtali við mbl.is, um færslu sem Egill Einarsson, Gillzenegger, birti á heimasíðu sinni árið 2007.

Færslan, sem Stundin birtir í heild sinni, kom aftur til umræðu í kjölfar viðtals Stein­unnar Val­dísar Óskars­dóttur, fyrr­ver­andi þing­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og borg­ar­stjóra, í Silfr­inu á RÚV í gær. Í viðtal­inu lýsti Stein­unn hót­un­um og of­beldi sem hún þurfti að þola er hún var í stjórn­mál­um.

Frétt mbl.is: „Byrjunin á einhverju stórkostlegu“

Stein­unn er á meðal tæplega 500 stjórn­mála­kvenna sem greindu frá 136 sögum af kynferðislegri áreitni ásamt því að gefa út yf­ir­lýs­ingu í síðustu viku þar sem þær krefjast þess að karl­ar taki ábyrgð og að stjórn­mála­flokk­ar taki af festu á stöðu mála varðandi kyn­ferðisof­beldi og áreitni í ís­lensk­um stjórn­mál­um.

Lögreglan taldi ekki ástæðu til að fylgja málinu eftir

Saga Steinunnar er þar á meðal þar sem hún vísar í færslu á heimasíðu Egils þar sem Gillzenegger, eða fréttastofa í nafni hans, fjallaði um femínsta. Í færslunni segir meðal annars að gefa þurfi „þessum leiðinda rauðsokkum einn granítharðan“ og að „þessar dömur eru flestallar ógeðslegar auk þess að vera geðsjúklingar.“

Færslunni er svo skipt í umsagnir um fimm konur, þar á meðal Steinunni og Drífu Snædal. Drífa segir að sér hafi misboðið færslan og tilkynnti efni hennar því til lögreglunnar á sínum tíma. „Ég sendi þeim bréf og segi að ég telji að þetta eigi að skoða. Ég fékk svo seinna bréf frá þeim þar sem var sagt að það þætti ekki ástæða til að fylgja þessu eftir frekar,“ segir hún.

„Þessar dömur eru flestallar ógeðslegar“

Um Drífu, sem gegndi starfi framkvæmdastýru þingflokks Vinstri grænna á þessum tíma, skrifaði Gillzenegger:

Drífa Snædal fór mikinn í Kastljósinu á dögunum þar sem hún sat á móti Agli Helgasyni og reyndi að rífa kjaft. Aldrei hefur kvenmaður misst jafn mikið magn af saur í Kastljósinu áður. Drífa talaði í hringi og vissi ekki hvort það voru páskar eða jól. Fréttastofan hafði samband við Þórhall Gunnarsson ritstjóra Kastljóss og hafði hann þetta um málið að segja: „Ég vil helst ekki tjá mig um málið en ég get sagt að það er ennþá verið að reyna að þrífa stúdíóið og á mínum 35 ára ferli hef ég aldrei séð annað eins“. Fréttastofan hefur tilnefnt Ásgeir Kolbeinsson og Jamal Johnson í að tittlinga Drífu ASAP.“

Egill Einarsson, Gillzenegger, hélt úti heimasíðu um árabil þar sem …
Egill Einarsson, Gillzenegger, hélt úti heimasíðu um árabil þar sem hann birti m.a. færslu um Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og Drífu Snædal.

Það var ekki einungis færslan sjálf, heldur viðbrögðin við henni, sem urðu til þess að Drífa taldi að bregðast þyrfti við henni. „Ummælin við færsluna voru svo svakaleg líka, viðhlæjendur hans og allt það. Þetta sýndi ákveðna menningu sem var í gangi þá og hvað var leyft að segja um konur sem komu fram á opinberum vettvangi,“ segir Drífa.

Ákveðið uppgjör að eiga sér stað

Aðspurð hvort færslan og efni hennar horfi öðruvísi við henni í dag í kjölfar #metoo-byltingarinnar segir Drífa svo ekki vera. „Nei eiginlega ekki, af því að mér var mjög misboðið þá og ég brást við.“

Drífa fagnar hins vegar umræðunni sem er að eiga sér stað núna. „Ég fagna því að það er að fara í gang ákveðið uppgjör og ég vonast til þess að þetta verði til þess að konur sem koma fram opinberlega þurfi ekki að verða fyrir svona.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert