Fjárfestingar skýringin á vaxandi skuldum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum auðvitað að greiða niður skuldir á ákveðnum sviðum eins og hjá Orkuveitunni en við núverandi aðstæður erum við að fjölga félagslegum íbúðum og styðja við húsnæðisuppbyggingu um alla borg með miklum fjárfestingum í innviðum þannig að þetta endurspeglast einfaldlega að við erum stödd í miðju stærsta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar.“

Frétt mbl.is: Tekjur aukast en skuldir hækka

Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgastjóri Reykjavíkur, spurður hvers vegna skuldir borgarinnar aukast samkvæmt fjárhagsáætlun samhliða vaxandi tekjum hennar. Þannig er gert ráð fyrir að tekjur Reykjavíkurborgar aukist um 5,7% miðað við útkomuspá 2017 og verði samtals 116,9 milljarðar miðað við 109,8 milljarða í ár. Mesta hækkunin er í formi hærri skatttekna sem gert er ráð fyrir að verði 90,8 milljarðar í stað 83 milljarða á þessu ári.

Skuldir A-hluta borgarinnar eru samkvæmt útkomuspá um 100 milljarðar króna en gert er ráð fyrir að þær verði um 107,6 milljarðar á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætluninni. Skuldir borgarinnar nema rúmlega 2 milljónum króna á hvern íbúa hennar.

„Það varð viðsnúningur í rekstri borgarinnar í gegnum aðhald en einnig auknar tekjur á síðustu misserum og það hefur skilað sér í sterkari og sterkari rekstri sem allir eru reyndar sammála um. Það hefur oft verið tekist meira á um fjárhagsáætlun en núna. Ég held að það sé sátt um meginlínurnar í þessu satt best að segja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert