Gengur samkvæmt áætlun

Innritunarborð Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Búið er að vinda ofan af …
Innritunarborð Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Búið er að vinda ofan af þeim vandkvæðum sem sköpuðust með verkfalli flugvirkja. mbl.is/Hari

Vel gengur að vinda ofan af þeim töfum og vandkvæðum sem urðu á áætlunarflugi Icelandair á meðan tveggja daga verkfall flugvirkja flugfélagsins stóð yfir. „Þennan morguninn hef ég ekki aðrar fréttir en að þetta gangi allt samkvæmt áætlun,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Búið er að koma því fólki í flug sem missti af sinni ferð og engir strandaglópar sem þurftu að komast leiðar sinnar eru enn fastir. „Auðvitað fer þetta þó líka eftir einstaklingsþörfum. Það er kannski fólk sem ákvað bara að bíða í tvo daga, eða ákvað bara að sleppa því bara að fara og sem hentaði betur að gera slíkar breytingar úr því sem komið var,“ segir Guðjón.

Enn er unnið að því að taka saman kostnað vegna verkfallsins og segir Guðjón þær tölur ekki enn liggja fyrir. „Þegar búið er að vinda ofan af krísuástandinu sem skapast, þá fer í gang vinna að fara yfir hlutina og sjá hvernig þessu vatt fram og reyna að læra af reynslunni.“

Spurður hvort verkfallið hafi áhrif á starfsemi Icelandair, segir Guðjón áhrifin utan landsteinanna ekki mikil. „Þetta truflar auðvitað þessa daga sem þetta á sér stað, sérstaklega hér á heimamarkaði þar sem þetta vakti mikla athygli. Þegar til lengdar lætur mun þetta hins vegar vonandi jafna sig fljótt og ekki hafa nein áhrif,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert