Augljós vafi um ráðningu Stefáns

STEF eru félagasamtök og er stýrt af fulltrúum þeirra sem …
STEF eru félagasamtök og er stýrt af fulltrúum þeirra sem aðild eiga að samtökunum. Það eru fyrst og fremst félög tónskálda og textahöfunda, sem fara með stjórn STEFs, en þessi félög eru Tónskáldafélag Íslands og Félag tónskálda og textahöfunda. mbl.is/Eggert

Stjórn STEFs á að vera óhrædd við að horfa gagnrýnið á sjálfa sig og viðhafa vinnubrögð sem eru hafin yfir vafa. Þetta segir Þórunn Gréta Sigurðardóttir, formaður Tónskáldafélagsins og stjórnarmaður í STEFi í samtali við mbl.is. Hún segir mikilvægt að muna að ágreiningur um hæfi Stefáns Hilmarssonar í starf forstöðumanns rekstrarsviðs samtakanna snúist að engu leyti um persónur.

Styrr hefur staðið um ráðningu Stefáns. Eins og mbl.is greindi frá í fyrradag kærði tónskáldið Hjálmar H. Ragnarsson ráðninguna  til fulltrúaráðs samtakanna grundvelli vanhæfis og þess að samþykktir félagsins hefðu verið brotnar við ráðninguna. Kærunni var vísað frá án efnislegrar umræðu. 

Í kjölfar umfjöllunar mbl.is sendi Þórunn félagsmönnum Tónskáldafélagsins tölvupóst þar sem hún skýrir afstöðu sína og aðkomu að málinu. Í tölvupóstinum, sem mbl.is hefur undir höndum, tekur hún fram að hún hafi ekki stutt ráðningu Stefáns og hafi í ferlinu gert athugasemdir við vinnubrögð stjórnar. Þar nefnir hún þrjú megin atriði sem hún hafi haldið til haga:

  • Stefán Hilmarsson var aðalmaður í Fulltrúaráði STEFs. Hann var því sjálfur hluti af æðsta valdi STEFs þegar hann sótti um stjórnunarstarf hjá samtökunum. Þegar þessi frétt var skrifuð var hann enn skráður sem aðalmaður í Fulltrúaráði STEFs.
  • Í starfslýsingu voru eftirfarandi hæfnikröfur gerðar til umsækjenda:
    „Háskólamenntun sem nýtist í starfi og marktæk reynsla af sambærilegum
    störfum. Áhersla er lögð á styrk í meðferð talna og framúrskarandi góða
    tölvukunnáttu [...]“ Þórunn segir a.m.k. þrjá aðra umsækjendur hafa uppfyllt allar þessar kröfur með beinum hætti. Hinsvegar hafi innsýn og reynsla Stefáns af tónlistarlífinu og farsælum hljómsveitarrekstri helst talist honum til tekna, án þess að krafa um slíkt hafi komið fram í auglýsingunni.

„Mín afstaða til þessa var og er að ég tel menntun á sviði viðskiptafræði eiga að vega þyngra en þekking á tónlistarmálum í starfi sem þessu, auk þess sem mér finnst ekki tryggt að hagsmunir rétthafa séu best varðir með því að hafa aðila sem sjálfur á hagsmuna að gæta sem aðalábyrgðaraðila úthlutana,“ segir Þórunn í tölvupóstinum.  

  • Í þriðja lagi telur Þórunn stjórn ekki hafa átt að hafa bein afskipti af ráðningunni heldur láta framkvæmdastjóra um hana eins og kveðið er á um í samþykktum STEFs. Segir hún ekki hafa komið fram haldbær rök fyrir þessu og að auki feli aðgerðin í sér mikið vantraust á hendur framkvæmdastjóra.

Í tölvupóstinum kveðst Þórunn hafa haldið öllum þessum atriðum á lofti í aðdraganda málsins og hlotið stuðning ákveðinna aðila innan stjórnar STEF. Niðurstaðan varð þó sú meirihluti stjórnarmeðlima var fylgjandi ráðningunni og var Stefán ráðinn í lok september.  

Þórunn Gréta Sigurðardóttir.
Þórunn Gréta Sigurðardóttir.

Eftir afgreiðslu málsins innan stjórnarinnar ætlaði Þórunn sér ekki að gera neina eftirmála af því. Hún hugðist sætta sig við að hennar viðhorf hefðu lent í minnihluta. Þar sem málið sé nú orðið opinbert, og í ljósi ummæla formannsins, hafi hún hinsvegar viljað greina sínum félagsmönnum frá sinni hlið.

Eins og áður sagði var kæra Hjálmars ekki tekin efnislega fyrir á fundi fulltrúaráðs. Samkvæmt heimildum mbl.is kusu 12 af 21 með því að vísa henni frá. Þórunn segir hluta stjórnarinnar hafa neitað að víkja af fundi fulltrúaráðs og því hafi verið lokað á hlutlausa umræðu. Þá segir hún engan innan né utan félagsins hafa verið kallaðan til svo yfirfara mætti verklag stjórnarinnar. Eftir standi augljós vafi á því hvort hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn.

„Bransinn þarf að velta fyrir sér hvort þetta séu stjórnarhættir sem hann sættir sig við eða ekki,“ segir Þórunn. Hún bendir á að meirihluti hafi verið hlynntur þessari meðhöndlun ráðningarinnar og eftirmála hennar. „Segir það okkur að bransinn bara viðurkenni þetta?“

Sé það raunin, að félagsmenn STEFs séu sáttir við að ekki sé farið eftir samþykktum og láti sig stjórnsýsluhætti lítið varða, sé fátt hægt að gera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert