GN Studios kaupir byggingarrétt í Gufunesi

Baltasar Kormákur og Dagur B. Eggertsson handsala samninginn.
Baltasar Kormákur og Dagur B. Eggertsson handsala samninginn. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Borgarráð samþykkti á aukafundi í morgun að heimila sölu á lóðum og byggingarrétti í Gufunesi til GN Studios, fyrirtækis Baltasars Kormáks. Kaupverð byggingarréttarins hljóðar upp á 1.290 milljónir króna, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Baltasar Kormákur undirrituðu samninginn í gær með fyrirvara um samþykki borgarráðs, sem fékkst síðan í dag. Þó greiddu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði atkvæði á móti samningnum í morgun og því bíður staðfesting hans samþykktar borgarstjórnar á fyrsta fundi eftir áramót. Það þýðir að kaupverðið gjaldfærist ekki fyrr en á næsta ári.

Alls nærri 30.000 fermetrar

Salan er liður í því að koma upp kvikmyndaþorpi og eins konar miðstöð skapandi greina í Gufunesinu í bland við íbúðabyggð og þjónustu.

Um er að ræða byggingarrétt á rúmlega 4.000 fermetra atvinnustarfsemi og 25.000 fermetra af íbúðarhúsnæði eða nærri 30.000 fermetra samanlagt. Fyrirvari er gerður um samþykkt deiliskipulags fyrir svæðið.

Þá mun kaupverðið breytast hlutfallslega til hækkunar eða lækkunar miðað við endanlegt byggingarmagn í samþykktu deiliskipulagi, að því er fram kemur í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Gatnagerðargjald bætist við verðið

Gatnagerðargjald greiðist við samþykkt byggingarnefndarteikninga samkvæmt gildandi gjaldskrá hverju sinni. Áætlað er að gatnagerðargjald verði um 350 milljónir króna miðað við núgildandi gjaldskrá og hljóðar því samningurinn í heild upp á 1.640 milljónir króna.

Í tilkynningu borgarinnar segir að aðdragandinn að kaupsamningnum nú sé sá að GN Studios keypti skemmur og fasteignir gömlu Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi auk lóðarréttinda í lok maí 2016 með það fyrir augum að þar myndi þróast kvikmyndagerð og skyld starfsemi auk verslunar, þjónustu og íbúða. Þá hófst undirbúningur að deiliskipulagi sem byggir á arkitektasamkeppni sem haldin var um svæðið. Síðan hafa fyrirtæki í skyldri starfsemi ýmist fest kaup á eignum í Gufunesi eða fengið vilyrði um lóðir.

Veitir 10% afslátt frá verðmati

Reykjavíkurborg veitir GN Studios tíu prósent afslátt af verði byggingarréttar frá verðmati sem tveir fasteignasalar gerði. Afslátturinn er veittur vegna frumkvæðis- og frumkvöðlastarfs stúdíósins og með tilliti til viðamikillar fjárfestingar þess á svæðinu.

Í tilkynningu borgarinnar segir að talið sé hagstætt fyrir Reykjavíkurborg og skapandi greinar í borginni að festa uppbyggingu svæðisins enn frekar í sessi, samkvæmt greinargerð skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar, sem annaðist samningsgerðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert