15 milljóna áramótaglaðningur

Þriggja barna móðir úr Grafarvogi datt í lukkupottinn þegar aðalvinningurinn var dreginn út í Happdrætti DAS í dag. Hún vann samtals 15 milljónir króna.

Fram kemur í tilkynningu, að aðalvinningurinn hafi samtals verið 30 milljónir króna. Vinningshafinn átti einfaldan miða í viningsnúmerinu og vann því 15 milljónir skattfrjálsar.

„Varð hún að vonum orðlaus og átti erfitt með að trúa þessu. Var hún fullvissuð um að þetta væri ekki áramótahrekkur,“ að því er segir í tilkynningunni. 

Í janúar verður næsti 30 milljóna króna vinningurinn dreginn út en í allt verða 113 milljónir dregnar út þann mánuðinn en útdrættir verða fimm talsins.

mbl.is