„Versti sársauki sem ég hef upplifað“

Þessi mynd var tekin af Birgi þar sem hann lá …
Þessi mynd var tekin af Birgi þar sem hann lá á spítala eftir slysið. Hann gat ekki opnað augun í átta daga. Aðsend mynd

„Við vorum tveir vinir að taka vítistertu í sundur og ætluðum að nota duftið úr henni til að búa til sprengjur, en tertan sprakk í höndunum á mér og í andlitið á mér.“

Þetta segir Birgir Ómar Jónsson sem lenti í alvarlegu flugeldaslysi þegar hann var 14 ára. Hann var ásamt vini sínum að fikta við að taka í sundur flugelda og notuðu þeir púðrið úr þeim til að gera heimatilbúnar sprengjur. Birgir hlaut annars stigs bruna á andliti og höndum þegar terta sprakk í höndunum á honum og hann má teljast heppinn að hafa haldið sjóninni.

Fyrstu átta dagana eftir slysið gat Birgir ekki opnað augun og læknar sögðu að ef hann hefði ekki fengið strax rétta aðhlynningu hjúkrunarfræðings á myndbandaleigu í nágrenni slysstaðarins hefði líklega farið verr.

„Ef það hefði ekki verið hjúkrunarfræðingur inni á þessari vídeóleigu sem setti ískalt vatn í augun á mér allan tímann á meðan við biðum eftir sjúkrabílnum væri ég líklega blindur í dag, sögðu læknarnir. Það munaði mjög litlu.“

Ótrúlegt en satt ber Birgir engin ör eftir slysið. Hér …
Ótrúlegt en satt ber Birgir engin ör eftir slysið. Hér er hann ásamt dóttur sinni. Aðsend mynd

Birgir gerði sér enga grein fyrir því hve alvarlegir áverkar hans voru og gekk hann sjálfur inn á myndbandaleiguna, sem var töluvert frá slysstaðnum. „Ég hélt að þetta væri bara smá og sagði við vin minn að hann mætti ekki segja neinum frá þessu. Ég ætlaði að fara inn á vídeóleiguna og skola á mér andlitið, en þar inni var hjúkrunarfræðingur sem fór með mig inn á bað og skolaði mig.“

Hann segist þó strax hafa fundið fyrir miklum sársauka. „Þetta var rosalega sárt og ég gat ekki opnað augun. Ég stóð fyrir utan vídeóleiguna og var að reyna að rífa augun á mér upp með puttunum. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að þetta væri opið sár.“

Birgir lá inni á sjúkrahúsi í tíu daga og var í fimm mánuði að jafna sig að fullu. Hann man líka hvað það var sársaukafullt þegar sótthreinsa þurfti brunasárin. „Það er versti sársauki sem ég hef upplifað. Sótthreinsun á opnu sári.“

Ótrúlegt en satt þá ber Birgir ekki nein ör eftir slysið og sjónin skaddaðist ekkert. „Það sést ekkert á mér í dag. Ég var mjög heppinn. Það eru alls ekki allir sem eru svona heppnir. Það voru svo margir í þessu fikti þegar ég var unglingur og ég held það hafi ekkert minnkað,“ segir Birgir, en hann minnir að áramótin sem hann slasaðist hafi fjórir eða fimm legið inni á spítala með alvarlega áverka eftir flugeldaslys.

Birgir birti mynd af sér á facebooksíðu sinni í gær sem var tekin þegar hann lá inni á spítala eftir slysið. Hann vonast til að myndin og saga hans fái börn og unglinga til að hugsa sig tvisvar um áður en farið er að fikta með flugelda.

Birgir vonast til að saga hans verði til þess að …
Birgir vonast til að saga hans verði til þess að börn og unglingar láti flugeldana vera. Aðsend mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert