„Við töfðumst vegna fegurðar“

Náttúrufegurðin var slík að Áskell átti erfitt með að halda …
Náttúrufegurðin var slík að Áskell átti erfitt með að halda ferðaáætlun sinni. Mynd/Áskell Heiðar Ásgeirsson

„Við töfðumst vegna fegurðar,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson sem náði magnaðri mynd af svokölluðum hjásólum, úlfi og gíl, þegar hann stoppaði við brúna á Jökulsá á Fjöllum á Mývatnsöræfum í gær. Hann var á leið frá Sauðárkróki, þar sem hann býr, heim á æskuslóðirnar í Borgarfirði eystri til fagna áramótum, en sóttist ferðin seint vegna náttúrufegurðar. Myndin var tekin í froststillu við hádegisbil.

„Þetta leit í fyrstu út eins og byrjun á regnboga, nema lóðrétt ljósbrot, en þegar við keyrðum lengra sáum við annan hinum megin við sólina. Þá var þetta orðið efni í mynd.“

Þegar Áskell kom á áfangastað ákvað hann að lesa sér til um fyrirbærið, en þá hafði hann líka fengið ábendingar í gegnum Facebook eftir að hafa birt myndina á þeim vettvangi.

Frostþokan og sólin léku sér saman

„Þá er þetta að sjálfsögðu eitthvað sem er vel þekkt en ég hafði ekki séð áður. Það voru auðvitað sérstakar aðstæður þarna. Það var 24 gráðu frost og örlítil snjómugga. Það var alveg dásamlega fallegt á Fjöllum í gær og það var eiginlega ekki hægt að keyra mjög lengi án þess að stoppa. Mývatn þar sem frostþokan og sólin léku sér saman var til dæmis mjög erfitt,“ segir hann kíminn.

Áskell mætti fjölda ferðamanna á leiðinni sem allir voru hugfangnir af náttúrufegurðinni í vetrarkuldanum. „Það var alls staðar fólk úti í kanti að mynda. Alls staðar þar sem það var hægt. Þetta er upplifun fyrir okkur sem búum hérna en maður getur ímyndað sér hvernig þetta er fyrir þá sem koma lengra að. Þetta var algjört „winterwonderland“ þarna í gær,“ segir Áskell en rétt áður en hann tók myndina keyrði hann fram á asíska ferðamenn sem voru dáleiddir af því sem fyrir augu bar.

„Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni“ 

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands þurfa að vera ákveðin skilyrði fyrir hendi til að hjásólir myndist, kalt í veðri og sól lágt á lofti.

„Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni“ er gamall málsháttur sem er að finna í Málsháttasafni Guðmundar Jónssonar og í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, að því er segir á Vísindavef Háskóla Íslands þar sem fjallað er um þessar hjásólir. Í síðari heimildinni er skýringin á þessu fyrirbrigði mjög greinargóð:

„Hjásólir eða aukasólir, það eru ljósdílar í kringum sólina, eru ekki sjaldséðar á Suðurlandi. Ef tvær hjásólir sjást í einu sín hvorum megin sólarinnar, önnur á undan sól, en hin á eftir, er það kallað að „sólin sé í úlfakreppu“ eða að „það fari bæði á undan og eftir sól“ og er hvort tveggja orðatiltækið dregið af úlfunum Sköll sem átti að gleypa sólina og Hata sem átti að taka tunglið. Stundum er þetta kallað gílaferð og hjásólin sem fer á undan sól gíll. Hann þykir ills viti með veður ef ekki fer einnig á eftir sólu, en sú hjásól er enn kölluð úlfur og er þaðan dreginn talshátturinn: „Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni.““

Hér má nálgast upplýsingar um fyrirbrigðið á vef Veðurstofu Íslands

Áskell Heiðar Ásgeirsson gat ekki staðist náttúrufegurðina í gær og …
Áskell Heiðar Ásgeirsson gat ekki staðist náttúrufegurðina í gær og fór út að mynda. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert