Af götu Kampala til Mosfellsbæjar

David Kajjoba nýtur þess að búa á Íslandi. Hann hefur …
David Kajjoba nýtur þess að búa á Íslandi. Hann hefur góða aðlögunarhæfni og segir myrkrið og kuldann aldrei hafa truflað sig. Hann hafi hins vegar þurft að læra að ganga upp á nýtt. Fyrst í stað flaug hann stöðugt á hausinn í hálkunni! mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Góð spurning,“ segir David Kajjoba þegar hann er spurður hvenær hann sé fæddur. „Ég hreinlega veit það ekki. Ekki daginn. Ekki árið. Ég fæddist í miðju stríði. Móðir mín fæddi mig úti á götu. Hún var veik svo ég ólst upp á barnaheimili.“

Þetta átti sér stað á níunda áratugnum, líklega í Kampala, höfuðborg Úganda. David býr nú á Íslandi í allt öðrum veruleika en hann þekkti áður. Hann situr heima hjá vini sínum í Mosfellsbæ og rifjar upp æsku sína fyrir blaðamanni við fallegt borðstofuborð undir björtu rafmagnsljósi. Á meðan malar uppþvottavél, sem honum finnst merkilegt að finnist á nær hverju íslensku heimili, í bakgrunninum.

Hann er ötull baráttumaður fyrir mannréttindum og hefur lagt réttindabaráttu samkynhneigðra í Úganda lið, í landi þar sem slík kynhneigð er ekki aðeins fordæmd af flestum heldur bókstaflega bönnuð með lögum. Vegna baráttu sinnar bárust honum alvarlegar hótanir er hann tók þátt í Gay Pride á Íslandi fyrir þremur árum. Síðan þá hefur hann ekki treyst sér aftur til Úganda.

„Ég er bara ég“

Það vantar mörg púsl í ævisöguna hans Davids. Eitt sinn þráði hann fátt meira en að vita hvar og hvenær hann væri fæddur. Hann hefur alla tíð haft áhuga á tækjum og vélum, gangverki þeirra og viðgerðum. Hann lærði svo kerfisfræði í háskóla. En helst vildi hann vita og skilja hvernig hann passaði sjálfur inn í „kerfið“. Nú skiptir það ekki lengur öllu máli. „Ég er bara ég,“ segir hann brosandi.

David freistaði þess að ganga í herinn árið 2008 og þá fékk hann sitt fyrsta vegabréf. Í því er fæðingarárið sagt vera 1983. „Það var sá aldur sem þurfti til að mega berjast í Írak,“ segir hann um ártalið. Sé það rétt er hann 34 ára. „Kannski er ég eldri, kannski er ég yngri,“ segir hann og yppir öxlum. „Ég hef lent í rifrildi við mömmu mína út af þessu. Ég hef spurt hana hvernig standi á því að hún muni ekki hvenær ég sé fæddur. En hún glímir við veikindi. Minni hennar er slæmt. Svo það þýðir ekki að fást um það.“

Þekkt mynd af barnahermönnum í borgarastríðinu í Úganda á árunum …
Þekkt mynd af barnahermönnum í borgarastríðinu í Úganda á árunum 1982-1986. Á þeim árum er talið að faðir Davids hafi fallið í átökum.

David lýsir barnaheimilinu sem hann ólst upp á sem nokkurs konar búðum. Þar voru mörg börn í umsjá nokkurra fullorðinna starfsmanna. Á einhverju tímabili bjó hann hjá ömmusystur sinni. Annars eyddi hann æskuárunum á þessu heimili. Þó að hann hafi alltaf haft samband við fjölskyldu sína segist hann í raun hafa verið einn á báti. „Ég var eitt af götubörnunum,“ segir hann um bernsku sína.

Faðir hans talinn hafa fallið í stríði

David veit ekki nákvæmlega hver örlög föður hans voru en talið er að hann hafi fallið í stríðsátökum. Móðir hans veiktist alvarlega í kjölfar þess áfalls og gat ekki sinnt honum. Æskuminningar Davids eru því brotakenndar. Hann veit í raun ekki hvenær hann kom á barnaheimilið. „Ég man eftir að við vorum að syngja um árið 1992,“ segir hann um eina af minningum sínum frá dvölinni þar.

Föðurfjölskylda Davids var millistéttarfjölskylda og vel menntuð. Móðir hans er fædd í Úganda en foreldrar hennar flúðu undan hinum grimmilegu þjóðernishreinsunum í nágrannaríkinu Rúanda á sínum tíma.

Örlagaríkur fundur við íslensk hjón

Þrátt fyrir þær aðstæður sem David ólst upp í hlaut hann ágæta menntun og lauk grunnskóla árið 1999. „Ég fékk í raun betri menntun en flest börn í Úganda. Ég var heppinn að því leyti.“ Hann gekk í einkarekinn menntaskóla þar sem hann spilaði körfubolta og þurfti ekki að greiða skólagjöldin. Á þeim tíma hitti hann íslensk hjón sem áttu eftir að hafa mikil áhrif á hans líf.

Árið 2007 vann hann með skólanum sem bílstjóri hjá ferðaþjónustufyrirtæki. Eitt sinn var hann beðinn um að hlaupa í skarðið fyrir annan bílstjóra á síðustu stundu og aka fólki sem reyndist vera íslensk hjón, Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir og Pálmi Steingrímsson. Vinskapur tókst fljótt með þeim og snemma árs 2011 kom David í fyrsta skipti í heimsókn til Íslands í boði þeirra hjóna. „Þetta er íslenska fjölskyldan mín,“ segir hann og á þar einnig við börn og foreldra Sylgju og Pálma. Hann segist vart eiga orð til að þakka þeim öllum fyrir það sem þau hafa frá fyrstu kynnum gert fyrir hann. „Þau hjálpuðu mér að greiða skólagjöldin í háskólanum í Kampala og margt fleira. Þau gjörbreyttu lífi mínu.“

Frá árinu 2011 kom hann svo árlega til Íslands og kynntist sífellt betur landi og þjóð.

David ásamt Pálma, Sylgju og börnum þeirra í fyrstu heimsókn …
David ásamt Pálma, Sylgju og börnum þeirra í fyrstu heimsókn Davids til Íslands.

David á nokkur systkini í Úganda og í fyrra hitti hann svo tvo föðurbræður sína í fyrsta skipti. Annar þeirra er læknir og býr í Hollandi og hinn verkfræðingur búsettur í Bretlandi. Þeir flúðu báðir undan borgarastríðinu í Úganda sem faðir hans féll í. „Þeir sögðu: Þú er líkur pabba þínum!“ Þeir sögðu honum einnig sögur af föður hans sem hafði verið í verkfræðinámi áður en hann lést.

Þrjár kynslóðir baráttumanna

Allt frá því að Úganda fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1962 hafa borgarastríð ítrekað blossað upp, það seinasta fyrir um áratug. Afi Davids barðist við einræðisherrann hrikalega Idi Amin og féll í þeim átökum. Faðir hans barðist svo á níunda áratugnum gegn ríkjandi stjórnvöldum. David hefur einnig barist þó að hann hafi aldrei gripið til vopna. „Ég held ég hafi fengið þennan baráttuvilja í vöggugjöf frá föður mínum. Þó að hann hafi alist upp í nokkuð efnaðri fjölskyldu þá sat hann ekki aðgerðarlaus hjá. Honum fannst hann aldrei frjáls. Og hann barðist til að frelsa fólkið.“

Í Úganda eru fordómar gegn samkynhneigð mjög útbreiddir og hún af mörgum talin syndsamleg. Börn landsins alast upp við þessa fordóma sem eru predikaðir í kirkjum landsins, m.a. að undirlagi bandarískra trúboða í gegnum áratugina. „Það fer heilaþvottur fram í kirkjunum,“ lýsir David. Sögunni um Gómorru og Sódómu er haldið á lofti eins og heilögum sannleik og notuð í áróðursskyni. Ef eitthvað bjátar á má skýra það með syndsamlegri hegðun. „Ég var í þessum hópi,“ viðurkennir David og segist enn fullur blygðunar yfir þessari fáfræði sinni. „Þegar ég var í menntaskóla þá var þar einn skólabróðir minn sem okkur fannst skrítinn. Ég var í þeim hópi sem sagði við hann að samkynhneigð væri ekki rétt. Hann yrði að fara í kirkju og leiðrétta þetta. Það endaði með því að hann flúði land og til Belgíu árið 2003.“

Á þessum tíma var ýmislegt að breytast í Evrópu varðandi réttindi samkynhneigðra. Það hafði áhrif í Úganda en ekki til hins betra.

David tók þátt í mótmælum í Úganda er frumvarp um …
David tók þátt í mótmælum í Úganda er frumvarp um hertar refsingar fyrir samkynhneigð var til umræðu á þinginu. Fyrir vikið endaði hann í fangelsi. AFP

David hafði lengi látið sig mannréttindi varða en viðhorf hans sjálfs til samkynhneigðar fóru ekki að breytast fyrr en hann kynntist Sylgju Dögg og Pálma. Þau töluðu um samkynhneigð eins og ekkert væri sjálfsagðara. Í fyrstu þótti David það óþægilegt en smám saman fór hann að hugsa: „Getur verið að allt sem mér hafi verið kennt um þetta sé rangt?“

Hann segist alltaf taka fólki með opnum hug og gæti þess að dæma það ekki fyrir fram. Hann vilji kynnast fólki og málefnum betur áður en hann taki afstöðu. Það var það sem gerðist varðandi mannréttindi samkynhneigðra. Hann þurfti að fræðast. Eftir það galopnaðist hugur hans. Þegar hann heimsótti svo Ísland í fyrsta skipti gjörbreyttust viðhorf hans. „Fyrir slysni rambaði ég inn á skemmtistað fyrir samkynhneigða í Reykjavík. Mér fannst það furðulegur staður í fyrstu! En svo kom maður til mín og ég sagði honum að ég væri frá Úganda. Hann sagði þá: Já, þið eruð ekki hrifnir af okkur! Þegar hann sagði þetta þá fangaði hann athygli mína. Og við fórum að tala saman og hann sagði mér að fræðast meira um málið og reyna að skilja betur.“

Það var einmitt það sem David gerði. Allar götur síðan hefur hann verið ötull baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks í Úganda.

Þegar hugarfar hans breyttist og hann hafði eytt tíma á Íslandi fór hann að taka meira eftir hinsegin fólki í felum í heimalandinu. Hann kynntist samkynhneigðum í háskólanum og fór að tala við þá. Hann sagði þeim að eina leiðin til að breyta viðhorfum væri að tala um hlutina og það strax. Sumum fannst erfitt að heyra þetta og treystu honum ekki. „Ég sagði þeim að ég hefði verið á Íslandi, í Noregi og Hollandi og hefði séð hvernig samkynhneigðir geta verið þeir sjálfir og ekki í felum.“

Stungið í steininn fyrir samstöðu sem samkynhneigðum

Samkynhneigð hefur lengi verið bönnuð í Úganda líkt og í mörgum Afríkuríkjum. Er David var í háskóla var verið að ræða á úgandska þinginu lagafrumvarp um hertar refsingar við slíkum „brotum“. Mikil ólga var í landinu og alþjóðasamfélagið reyndi að þrýsta á stjórnvöld að hætta við lagasetninguna. Frumvarpið var fyrst lagt fram af þingmanni árið 2009 og næstu ár voru samkynhneigðir ofsóttir með hjálp nokkurra fjölmiðla sem birtu m.a. lista yfir nöfn samkynhneigðs fólks og heimilisföng þess.  

David var himinlifandi með jólagjöf sem hann fékk frá foreldrum …
David var himinlifandi með jólagjöf sem hann fékk frá foreldrum Sylgju Daggar um jólin 2010: Skólastyrk til háskólanáms í Úganda.

David tók virkan þátt í réttindabaráttunni og þegar frumvarpið var til umfjöllunar í úgandska þinginu snemma árs 2014, þar sem m.a. var kveðið á um lífstíðarfangelsisdóm yfir þeim sem yrðu „uppvísir“ að því að eiga í samkynhneigðum kynferðislegum samböndum, mætti hann ásamt hópi fólks til að mótmæla. Hann var handtekinn. Eina leiðin til að sleppa úr fangaklefa var að segjast saklaus og aðeins hafa verið á leið í skólann. „Það var allt á suðupunkti og mikil múgæsing í gangi. Ef ég vildi halda baráttunni áfram varð ég að fara þessa leið.“

Örlagarík þátttaka í Gay Pride

Í kjölfarið fór David til Íslands og tók þá um sumarið þátt í Gleðigöngunni í Reykjavík undir merkjum Amnesty International. „Yfirvöld í háskólanum mínum fréttu af þátttöku minni og neituðu í kjölfarið að gefa út námsskírteini mitt. Ég lauk náminu en hef ekki enn fengið skírteinið til að sanna það.“

Samstaða Davids með samkynhneigðum og þátttaka hans í Gleðigöngunni á Íslandi átti eftir að hafa aðrar og enn afdrifaríkari afleiðingar.  Fréttir af því bárust andstæðingum samkynhneigðra í Úganda til eyrna og það varð til þess að hópur fólks réðst inn á heimili móður hans og gekk í skrokk á henni. Hlaut hún m.a. alvarlega áverka á höfði. „Ég varð miður mín en líka reiður þegar ég frétti af þessu. Hún átti engan hlut að máli. Þetta var hræðilegt.“

Mikill vindur fór úr réttindabaráttu samkynhneigðra í landinu um þetta leyti að mati Davids. Lagafrumvarpið hafði verið samþykkt og undirritað af forsetanum en var síðar ógilt af dómstólum. Múgæsingur var mikill og baráttufólkið í lífshættu. Hefði David snúið aftur til Úganda eftir dvölina á Íslandi sumarið 2014 hefði hann að öllum líkindum verið handtekinn eða hlotið enn verri örlög.

David segir margt þurfa að breytast í Úganda. Hann vill …
David segir margt þurfa að breytast í Úganda. Hann vill gera sitt til að svo megi verða. AFP

Honum bárust ítrekaðar hótanir í gegnum síma og á Facebook. Hann fór með málið til lögreglunnar hér á landi og var ráðlagt að snúa ekki aftur til Úganda eins og hann hafði ætlað sér að gera. Hann sótti því um dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi sem hann fékk. 

Þrátt fyrir þessa lífsreynslu segist David ekki hafa hugsað alvarlega um að láta af baráttu sinni. „Við verðum að halda áfram að berjast til að breyta samfélaginu.“

Eitt af því góða sem baráttan hefur skilað er að skólabróðir hans sem flúði til Belgíu undan ofsóknum vegna samkynhneigðar sinnar hafði samband við hann. Því fylgdi mikill léttir og þeir eru vinir í dag.

Stefnir á flugvirkjanám

Fyrstu árin eftir að David settist að á Íslandi var hann enn og aftur ákveðinn í því að ganga í her og ætlaði því ekki að dvelja hér lengi. Hann fékk sér strax vinnu, fyrst á frístundaheimili en nú starfar hann hjá fyrirtækinu Glertækni í Mosfellsbæ. Hann var því ekkert að flýta sér að læra íslensku. En nú eru áformin breytt. Hann er hættur við hermennskuna en vill þess í stað læra flugvirkjun. Þess vegna hóf hann íslenskunám hjá Mími í vetur. Og honum gengur vel. Hann skilur orðið talsvert í íslensku og getur svarað með einföldum setningum. Framfarirnar eru miklar enda David að upplagi góður námsmaður og fróðleiksfús með eindæmum. Nýverið tók hann svo bílpróf. Þá hefur hann eignast kærustu. Lífið brosir því við honum í augnablikinu.

David segir að margt þurfi að breytast í Úganda. Forsetinn, Yoweri Museveni, sem komst til valda í borgarastríðinu á níunda áratugnum, hefur nú haldið um stjórnartaumana í áratugi. Stjórnarskránni var breytt svo hann gæti setið lengur á valdastóli. Það fór illa í marga.

Hann segir að umbylta þurfi stjórnmálakerfinu og hugsunarhætti fólksins og leysa úr deilum og aðskilnaði milli þjóðarbrota sem hugsi helst um það að styrkja stöðu sína og sinna. „Samfélagið er staðnað. Margir ganga ekki í skóla, heilbrigðiskerfið er veikt og atvinnuleysi útbreitt.“

Rétt fyrir jól slóst David í för með tveimur jólasveinum …
Rétt fyrir jól slóst David í för með tveimur jólasveinum í Mosfellsbæ, þeim Ólafi Má Gunnlaugssyni og Hilmari Gunnarssyni, og gladdi fólk með gríni og glensi.

Úgandamönnum farnist vel fái þeir góða menntun. Sumir starfi sem læknar og verkfræðingar, svo dæmi séu tekin, utan landsteinanna. Þetta vel menntaða fólk snúi margt hvert ekki aftur til heimalandsins með alla sína þekkingu. „Þetta finnst mér erfitt að horfa upp á. Það er svo mikil uppbygging fyrir höndum í Úganda. Stundum þarf byltingu til að breyta hlutunum.“

Vill hefja „stríð skynseminnar“

Undir yfirborðinu kraumar reiði meðal þjóðarinnar. Fólk er orðið óþreyjufullt og vill umbætur. David segist ekki geta spáð fyrir um hvað muni gerast en hugsanlega brjótist út átök. Slíkt hafi gerst oftsinnis frá því landið fékk sjálfstæði. „Fólk getur upplifað að það sé aðþrengt, kúgað og að kafna. Þannig var það með pabba minn. Hann vildi ná andanum. Og eina leiðin sem hann sá var að berjast.“

Nú er David á þeirri skoðun að stríð leysi engan vanda. Það geti jafnvel gert illt verra. „Það eru aðrar leiðir færar til að breyta heiminum.“

Hann hefur fundið ákveðna leið að því takmarki. Hann styrkir í dag tug barna til náms í Úganda. „Menntunarbyltingar er þörf,“ segir hann. Fræða þurfi börn með öðrum hætti en hingað til hefur verið gert. Hefja þurfi „stríð skynseminnar“, eins og hann orðar það. „Menntun gefur börnum gildi. Þau geta þá hugsað lengra fram í tímann, ekki aðeins um hvernig þau geti komist af í dag. Að hlutir séu til langframa, ekki alltaf aðeins tímabundnir. Þannig kemst á stöðugleiki. Ég segi alltaf við þessi börn: Komdu vel fram við alla og af virðingu. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið verði fram við þig.“ Að mati Davids á fólk sem getur rökrætt bjartari framtíð. „Þannig getur það rætt við alla, ekki aðeins verið inni í sínum kassa.“

Lært mikið af Íslendingum

Nú eru liðin rúmlega þrjú ár síðan David var síðast í Úganda. Hann segir að það yrði erfitt fyrir sig að flytja þangað aftur eins og staðan er í dag. Hann fengi ekki vinnu vegna skoðana sinna og líf hans gæti mögulega verið í hættu. Hann langar helst að mennta sig vel og snúa kannski aftur síðar meir. Stjórnmál eru eitt af því sem hann gæti vel hugsað sé að taka þátt í. „Ég vil breyta Úganda,“ segir hann ákveðinn. Breytingarnar byrji á því að tala um hlutina. Það hafi hann lært af Íslendingum.

Baráttufólk fyrir réttindum samkynhneigðra í Úganda árið 2012. Um tveimur …
Baráttufólk fyrir réttindum samkynhneigðra í Úganda árið 2012. Um tveimur árum síðar voru samþykkt lög á þinginu um hertar refsingar. AFP

Á næsta ári rennur dvalarleyfi hans út. Hann mun sækjast eftir endurnýjun. Hér á Íslandi vill hann vera. „Mér finnst eins og dvöl mín á Íslandi síðustu ár hafi verið skólaganga. Ég hef lært svo mikið. Ekki aðeins um mannréttindi heldur einnig um hvernig samfélagskerfi geta virkað. Hvernig megi nota upplýsingar til að bæta samfélög og gera þau öruggari. Hvernig skipulag getur breytt miklu í atvinnulífinu til dæmis.“

Allsnægtirnar á Íslandi hafa komið honum á óvart. Hann segir hlæjandi að líkega megi kalla suma Íslendinga eyðsluglaða og segir þá marga hverja kaupa nýtt frekar en að gera við það sem þeir eigi fyrir. „Ég hendi ekki hlutum heldur reyni alltaf að gera við þá.“

Hér hefur hann eignast marga og góða vini sem honum þykir mjög vænt um. Þeir hafi staðið þétt við bakið á honum og aðstoðað hann eftir fremsta megni. „Ísland er svo fámennt land og það kom mér svo á óvart hvernig samfélagið er hér. Það sem kom mest á óvart var að hér virðast allir jafnir. Þetta er réttlátt samfélag.“

David í hópi jólasveina heima hjá Sylgju Dögg vinkonu sinni …
David í hópi jólasveina heima hjá Sylgju Dögg vinkonu sinni skömmu fyrir jól.

Þurfti að læra að ganga upp á nýtt

David hefur góða aðlögunarhæfni og segir myrkrið og kuldann á Íslandi aldrei hafa truflað sig. Hann hafi hins vegar þurft að læra að ganga upp á nýtt. „Ég var að vinna í skóla fyrsta veturinn minn hérna og gekk þangað á morgnana. Það var alltaf snjór og hálka og um leið og ég fór út um dyrnar þá flaug ég beint á hausinn. Ég þurfti að fara á YouTube og taka námskeið í því að ganga í hálku! Maður verður að ganga eins og mörgæs,“ segir hann og hlær að minningunni. „Þegar ég stóð loks í fæturna var sagt við mig: Þú ert orðinn sannur Íslendingur. Vertu velkominn!“

Hann lítur á Sylgju og Pálma og börnin þeirra sem fjölskylduna sína. Einnig hefur hann fengið mikinn stuðning frá foreldrum þeirra, öðrum ættingjum og vinum. „Þau eru dásamlegt fólk.“

Bærinn hans Davids

Til að endurgjalda vinsemdina sem hann segir svo marga hafa sýnt sér í Mosfellsbæ vinnur hann til að mynda stundum sem sjálfboðaliði fyrir skógræktarfélag bæjarins. „Ég lít nú á Ísland sem heimilið mitt og vil gjarnan verða íslenskur ríkisborgari einn daginn.“

Honum líður mjög vel í Mosfellsbæ þar sem hann segir alla þekkja sig. „Þetta er bærinn minn,“ segir hann með stolti. Hann segist nú upplifa öryggi í fyrsta sinn á ævinni. „Ég varð fyrir svo miklu áfalli sem barn að ég sef með augun opin,“ útskýrir hann alvarlegur. Áður hafi hann líka sofið fullklæddur, tilbúinn að flýja ef hætta steðjaði að. Það gerir hann ekki lengur þótt hann glími enn við ákveðinn svefnvanda. „Ég er afslappaðri núna. Kannski er ég að verða ofdekraður,“ segir hann svo hlæjandi.

David býr í Mosfellsbæ þar sem honum líður mjög vel. …
David býr í Mosfellsbæ þar sem honum líður mjög vel. „Þetta er bærinn minn,“ segir hann með stolti. Hann segist nú upplifa öryggi í fyrsta sinn á ævinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kann öllum bestu þakkir

Sylgja segir David eignast vini hvert sem hann fari. Það fer heldur ekkert á milli mála því David biður blaðamann vinsamlega að koma þakklæti til vina sinna á Íslandi vel á framfæri í viðtalinu. Þannig segist hann Sylgju, Pálma og þeirra börnum eilíflega þakklátur. „Þau eru hetjurnar mínar,“ segir hann. Einnig vill hann þakka „íslensku móður sinni“, Hörpu Gissurardóttur, sem er móðir Pálma og Sigurjóni Benediktssyni, föður Sylgju, sem hann kallar pabba sinn. „Hann er með hjarta úr gulli, mér þykir mjög vænt um hann.“

Þá vill hann færa Tindi Hafsteinssyni og fjölskyldu hans, sem aðstoðuðu hann mikið við að fá hér dvalarleyfi, sértakar þakkir. „Ég á ekki nógu mörg orð til að þakka honum svo ég segi bara takk kærlega!“

Og það eru fleiri sem David er þakklátur. Jóhann Halldór Albertsson og Margrét Stefánsdóttir eru í þeim hópi auk Bjarna Páls Pálssonar og Einars Þorra. Þá vill hann færa vini sínum Hilmari Gunnarssyni og hans fjölskyldu bestu þakkir fyrir allan stuðninginn sem og Mosfellsbæ. „Að lokum vil ég þakka Íslandi og ykkur Íslendingum öllum. Þið hafið breytt lífi mínu. Gleðileg jól og farsælt nýtt ár!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert