Missti stóran bita af tungunni

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur staðfest áframhaldandi farbann yfir konu sem er grunuð um líkamsárás gagnvart tveimur einstaklingum, þar á meðal eiginmanni sínum. Hún er m.a. sökuð um að hafa bitið framan af tungu eiginmannsins. Þykir brotið sérstaklega alvarlegt gagnvart honum enda missti hann talsvert stóran hluta af tungunni.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði þann 27. desember konuna, sem er ástralskur ríkisborgari, í áframhaldandi farbann til 24. janúar. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn á föstudag. 

Fram kemur í úrskurðinum, að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar og meðferðar meintar líkamsárásir konunnar  gagnvart eiginmanni sínum og annarri konu aðfaranótt 1. nóvember. Konan hefur sætt farbanni vegna málsins samfleytt frá 1. nóvember.

Fram kemur í greinargerð lögreglu, að lögregla hafi verið kölluð á vettvang að húsi í Reykjavík og strax heyrt mikil læti eins og átök væru í gangi. Lögregla hafi rætt við eiginmann konunnar sem hafi verið blóðugur í kringum munn og hafi hann sagt eiginkonu sína hafa bitið framan af tungu sinni og var hann fluttur á sjúkrahús. Þá hafi lögregla einnig rætt við konu sem sagði að konan hefði ráðist á sig, rifið í hár sitt og bitið í fingur. Hún kvað eiginmann konunnar hafa reynt að slíta konuna af sér en vissi ekki hvernig það hefði gerst að hún hefði bitið framan af tungu mannsins. Bæði hafi lýst því að þau hafi verið fjögur í íbúðinni ásamt bandarískum manni sem hafi verið vísað út áður en árásin hafi átt sér stað. Lögregla hafi tekið myndir af vettvangi og þar megi meðal annars sjá ummerki um átök í íbúðinni, blóð í vaski og hárflyksur. Einnig hafi verið teknar myndir af áverkum beggja brotaþola.

Tunguhlutinn endanlega farinn af tungunni

Eiginmaðurinn sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að þau hefðu öll fjögur verið heima hjá honum eftir skemmtun í miðbæ Reykjavíkur. Þá hafi eiginkona hans gert sér dælt við bandaríska gestinn og viljað að hann gerði sér dælt við hina konuna en síðan hafi eiginkona slegið til hans en því næst hafi hún og hin konan byrjað að slást. Eiginmaðurinn hafi þá vísað Bandaríkjamanninum út en síðan hafi eiginkonan slegið til eiginmannsins og bitið í tungu hans. Við síðari skýrslutöku af manninum hafi hann lýst því að hafa kysst eiginkonu sína og hún þá sogið tungu hans og bitið í hana. Teknar hafi verið ljósmyndir af áverka á tungu mannsins þar sem skýrlega sjáist að talsvert stóran bita vanti framan á tungu hans og hafi hann leitað sér aðstoðar á Landspítalanum. Fyrst hafi náðst að sauma tunguhlutann aftur á en sú aðgerð hafi ekki haldið og tunguhlutinn sé því endanlega farinn af tungunni.

Eiginkonan sagði við lögreglu á vettvangi, að hún hefði reiðst vegna þess að eiginmaður hennar hefði gert sér dælt við hina konuna en hefði ekki tjáð sig um atburðarrásina. Hún var síðan yfirheyrð aftur og þá borið við að þetta væri nokkuð í móðu hjá sér en hún segðist hafa séð eiginmanninn gera sér dælt við hina konuna og þau rifist í kjölfarið. Eiginmaðurinn hafi verið mikið í andliti hennar og hún óvart bitið hann en segðist svo ekki hafa skilið þann styrk sem hún hefði í tönnunum þegar hún hafi bitið í tunguna á honum. Hún segðist ekki geta svarað miklu varðandi átökin við hina konuna annað en að hún hafi líka rifið í hár hennar.

Við síðari skýrslutöku sagði eiginkonan að maður hennar hefði ráðist að sér eftir að hún hafði stöðvað árás hans á Bandaríkjamanninn. Hún hafi reynt að fara en hann bannað henni það. Þá hafi hann kysst sig án hennar vilja þegar hún hafi lokað munninum á tungu hans.

Brotið sérstaklega alvarlegt gagnvart eiginmanninum

Lögreglan telur að eiginkonan liggi undir rökstuddum og eftir atvikum sterkum grun um að hafa framið brot sem talið sé varða við 218. gr. b og 217. gr. almennra hegningarlaga og geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Brotið sé sérstaklega alvarlegt gagnvart eiginmanni hennar þar sem bitinn hafi verið stór hluti framan af tungu hans og hann misst þann hluta tungunnar með varanlegum afleiðingum fyrir hann. Þá hafi konan einnig ráðist að hinum brotaþola málsins, bitið í fingur hennar og rifið harkalega í hár hennar. Það sé því mat mat lögreglustjóra að brot það sem hér um ræði sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærðu á landinu vegna meðferðar þess og málsókn fyrir dómi. Lítið sé eftir af rannsókn málsins en beðið sé læknisfræðilegra gagna. Stefnt sé að því að gefa út ákæru á næstu dögum þegar þau gögn liggi fyrir.

Fram kemur að konan er erlendur ríkisborgari sem hafi engin bein tengsl við landið, hvorki atvinnu- né önnur fjölskyldutengsl. Samkvæmt framburði hennar hafði hún komið til landsins af og til í heimsókn til eiginmanns síns sem sé einnig erlendur ríkisborgari og búsettur hér á landi, en þau muni ekki vera samvistum lengur. Lögreglan telur því hætta á að konan muni fara af landi brott og koma sér undan málsókn og fullnustu refsingar verði hún ekki úrskurðuð í farbann. 

mbl.is