Verið að leita að afgerandi kosti

mbl.is/Hjörtur

„Ég hugsa að það sem liggi þarna að baki sé ekki síst það að verið sé að leita að einhverjum afgerandi valkosti til þess að reyna að ná eða allavega nálgast fyrri stöðu flokksins í borginni. Það er náttúrulega orðið töluvert langt síðan flokkurinn tapaði þeirri sterku stöðu sem hann naut áður í borginni og hefur ekki náð að endurheimta hana síðan þó hann hafi komist til valda á einu kjörtímabili fyrir um áratug sem gekk nú reyndar nokkuð skrykkjótt.“

Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, í samtali við mbl.is spurður út í leiðtogakjör Sjálfstæðisflokksins sem fram fer 27. janúar en framboðsfrestur rann út út í gær. Fimm frambjóðendur gáfu kost á sér, Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi, Eyþór Laxdal Arnalds framkvæmdastjóri, Kjartan Magnússon borgarfulltrúi, Viðar Guðjohnsen athafnamaður og Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður.

Erfið staða hugsanlega fælt frá frambjóðendur

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðiprófessor.
Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðiprófessor. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

„Þar kannski liggur rótin að þessu. Þessi ósk um að finna kannski mjög afgerandi valkost sem geti kannski bundið enda á þessa eyðimerkurgöngu flokksins ef svo má að orði komast. Hvort það tekst síðan á auðvitað eftir að koma í ljós. Þetta er rétt að fara af stað og nokkrir mánuðir í kosningar. Það getur margt vitanlega gerst á þeim tíma,“ segir Grétar. Ekki megi heldur gleyma að Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig glatað fyrri stöðu í landsmálunum.

„Það er alveg möguleiki að Sjálfstæðisflokkurinn eigi eftir að ná að mynda meirihluta í samstarfi við aðra flokka eftir kosningarnar í ár en hreinn meirihluti eins og flokkurinn naut gjarnan hér áður virðist einhvers staðar í órafjarlægð eins og staðan er allavega í dag. Kannski hefur þessi erfiða staða Sjálfstæðisflokksins í borginni fælt mögulega kandídata frá því að taka þátt í leiðtogakjörinu. Þessi mikla óvissa hvort flokkurinn kemst í meirihluta.“

Flóknara vegna fleiri flokka og fleiri borgarfulltrúa

Óvissan sé síðan enn meiri bæði í ljósi þess að borgarfulltrúum mun fjölga og vegna þess að búast má við að fleiri flokkar en áður verði í framboði. „Við gætum verið að sjá fjölda flokka sem fá borgarfulltrúa kjörna og það flækir málin og gæti boðið upp á ansi skrautlega möguleika. Við gætum þannig staðið frammi fyrir einhverju hliðstæðu ástandi og eftir síðustu tvennar þingkosningar þar sem erfitt hefur gengið að setja saman starfhæfan meirihluta.“

Grétar bendir á að enn sem komið sé virðist þannig ekki ætla að verða einhverjir turnar í kosningabaráttunni. Ekki einhverjir stórir flokkar sem geti síðan valið og hafnað. Fyrir vikið gæti auðveldlega þurft nokkra flokka til þess að mynda meirihluta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert