Lögregla varar við ástarsvindli á netinu

Lögregla segir þessa tegund glæpa vera sérstaklega ljóta, af því …
Lögregla segir þessa tegund glæpa vera sérstaklega ljóta, af því að þar er unnið markvist að því að misnota traust og vonir brotaþola. AFP

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svonefndu ástarsvindli [e. Romance scam]. Segir á facebooksíðu lögreglu að þessi tegund glæpa sé sérstaklega ljót af því að þar er unnið markvist að því að misnota traust og vonir brotaþola. „Því miður vitum við til þess að fólk á Íslandi hefur orðið fyrir því að missa fé til slíkra svikahrappa,“ segir í færslunni.

Er ástarsvindlið sagt eldra en netið, en aðgengi svindlaranna að fórnarlömbum hafi hins vegar stóraukist með tilkomu samfélagsmiðla. „Það er líka mjög auðvelt að villa á sér heimildir, virðulegi bandaríski hermaðurinn eða myndarlega konan sem þú heldur að þú sért að tala við er mögulega hópur af svindlurum sem eru tilbúnir að ljúga hverju sem er til að fá fólk til að trúa að það eigi í samskiptum við raunverulegt fólk.“

Fólk sem lendi í slíku svindli skammast sín oft fyrir að hafa látið plata sig og það gætir ákveðinna fordóma í samfélaginu gagnvart brotum af þessu tagi. Lögregla leggur þó áherslu á að brotin séu alls ekki brotaþola að kenna. „Svindlararnir beita oft þróuðum aðferðum til að brjóta niður varnir þeirra sem þeir herja á. Þeir nota aðferðir til að skapa traust og vekja langanir hjá brotaþolum. Þeir gera sér upp falskan áhuga á þeim sem þeir ætla að svindla á og gefa sér oft ágætan tíma til að ávinna sér „traust“ viðkomandi áður en þeir láta til skarar skríða. Fólk á öllum þjóðfélagsstigum og með margvíslega menntun getur orðið þolendur slíkra hrappa. Einstaklingar sem eru tilfinningalega viðkvæmir eru í meiri hættu. Þeir sem hafa skilið, þyrstir í gott samband eða langar til að elska einhvern eru í áhættuhópi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert