Tveir skjálftar við Bárðarbungu í dag

Skjálftarnir urðu við Bárðarbungu.
Skjálftarnir urðu við Bárðarbungu. Mynd/Veðurstofa Íslands

Tveir skjálftar að stærð 3,5 og 3,3 urðu rétt við Bárðarbungu í Vatnajökli núna í morgun. Voru þeir á 5,3 til 6,8 kílómetra dýpi. Jarðskjálftafræðingur segir þetta dæmi um kvikusöfnun og örlitla lyftingu á öskjugólfi öskjunnar.

Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að með þeim jarðskjálftum sem hafi orðið í Bárðarbungu undanfarið sé í raun gríðarlegir kraftar að tjakka aftur upp öskjugólfið sem seig niður um 65 metra í Holuhraunsgosinu á árunum 2014-2015. 

Hún segir að eftir því sem meiri kvikusöfnun verði aukist líkur á að eitthvað meira gerist, en að eldstöðin sé þekkt fyrir að safna lengi fyrir næsta gos og slíkt geti tekið ár eða áratugi.

Kristín nefnir að meðan kvikan sé að tjakka upp öskjugólfið leiti kvikan ekki út fyrir öskjuna til suðvesturs eða norðausturs, en í Holuhraunsgosinu leitaði kvikan einmitt til norðausturs. Þá séu hreyfingarnar núna litlar miðað við sigið í gosinu, eða aðeins á bilinu 2-3 sentímetrar í stærstu skjálftunum sem fara upp í um 4 stig.

Stærri skjálftinn í dag, sem reið yfir klukkan 09.47 varð 5,1 kílómetra suðaustur af Bárðarbungu. Minni skjálftinn varð 2,7 kílómetra suðaustur af bungunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert