Þurfa að ferja farþega af Mosfellsheiði

Allt er stopp á Hellisheiði.
Allt er stopp á Hellisheiði. mbl.is/Eggert

Björgunarsveitarmenn frá Reykjavík, Selfossi, Laugarvatni, Grímsnesi og Eyrarbakka vinna nú að því að ferja fólk niður af Mosfellsheiði, en þar eru margir bílar fastir og tvær rútur eru fastar þvert á veginn. Enginn er slasaður en ferja verður farþegana, sem eru um 50 talsins, til byggða.

Einnig er búið að loka bæði Hellisheiði og Þrengslum samkvæmt vef Vegagerðarinnar.

„Það eru þarna tvær rútur í vanda, þær eru fastar þvert á veginn og það eru hópar komnir upp á heiði beggja megin frá og eru byrjaðir að ferja fólkið úr rútunum og niður af heiðinni,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Ökumenn í vanda á Mosfellsheiði á sunnudag. Það sama er …
Ökumenn í vanda á Mosfellsheiði á sunnudag. Það sama er uppi á teningnum nú og flytja þarf fólk af heiðinni. Ljósmynd/Landsbjörg

Þónnokkrir hópar björgunarsveitafólks eru enn á leiðinni á Mosfellsheiði og hafa þeir að sögn Davíðs ekki enn náð til allra þeirra sem eru í vandræðum á heiðinni. 

70 björgunarsveitarmenn eru að sinna verkefnum tengdum veðrinu sem gengur nú yfir svæðið.

„Menn eru að vinna í því að koma fólkinu í burtu svo það sé hægt að eiga við þessar rútur, það þarf einhvern veginn að losa þær af veginum,“ segir Davíð.

Margir eru fastir á Mosfellsheiði og þar ríkir hálfgert umferðaröngþveiti.
Margir eru fastir á Mosfellsheiði og þar ríkir hálfgert umferðaröngþveiti. Mynd/Vefmyndavél Vegagerðinnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert