Stelpa oft eins og aukahlutur í kynlífi

Fullt var út úr dyrum í Iðnó en færri komust …
Fullt var út úr dyrum í Iðnó en færri komust að en vildu. mbl.is/Árni Sæberg

Kynfræðslu í skólum er ábótavant og margir krakkar, bæði strákar og stelpur, leita í klám af forvitni. Krakkar vilja betri fræðslu en klukkutíma þar sem krökkum er kennt að setja smokk á banana. Þetta er meðal þess sem kom fram á morgunverðarfundi í Iðnó; Klám eða kynlíf? Eru mörkin á milli kláms og kynlífs orðin óljós?

Fundurinn var haldinn á efri hæðinni í Iðnó og höfðu fundargestir á orði að auðvelt hefði verið að halda fundinn á neðri hæðinni en fullt var út úr dyrum og færri komust að en vildu. Mikill meirihluti fundargesta var á aldrinum 15-22 ára.

Fara krakkar í sturtu?

„Horfa krakkar á klám? Við hefðum getað spurt, fara krakkar í sturtu? Allir sögðu að strákar horfi á klám og geri það mikið,“ sagði Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir en hún og Þórður Kristinsson kynntu niðurstöðu rannsóknar sinnar þar sem þau ræddu við unglinga um klám. Kolbrún er verkefnastýra jafnréttismála í Reykjavík og Þórður er kennari í Kvennaskólanum.

Ein stelpan sagði klámhorf stráka mikið vandamál. „Strákar eru búnir að vera að horfa á klám í kannski nokkur ár áður en þeir fara að stunda kynlíf sjálfir og þá fara þeir inn í það með hugmyndirnar sem þeir fengu úr tölvunni og það er bara ekki rétt,“ sagði stelpan.

Krakkarnir í rannsókninni gerðu sér grein fyrir því að mun færri stelpur horfa á klám, enda eru konur langoftast hlutgerðar eða niðurlægðar þar. „Strákar kannski horfa aðeins meira á klám en stelpur og þú veist kannski sjá eitthvað svakalegt sem er gert í einhverri klámmynd sem þá langar kannski að prófa eða eitthvað, sem að stelpurnar eru kannski ekki alveg jafnmikið að fíla,“ sagði ein stelpan.

Kamagra.
Kamagra. Ljósmynd/Tollgæslan

Verður að fantasíu fyrir stráka

Áhrif klámvæðingar lýsa sér einnig í útliti og stelpurnar tala um að þær séu aldrei nógu góðar. Þær eru of feitar, of grannar eða með of stór brjóst eða of lítil.

Áhorfið hefur áhrif á hegðun stráka en þeir vilja gera nákvæmlega það sem þeir sjá þar. Kynlífið verður þá að fantasíu fyrir stráka og stelpurnar eru bara leikarar. Kolbrún og Þórður ræddu þetta í sambandi við endaþarmsmök en stelpur láta það oft eftir án þess að vilja það.

Niðurstöður þeirra eru að klám er kynfræðsla sem við bjóðum ungmennum okkar upp á í dag. „Strákar horfa á klám og þrýsta á stelpur að gera hluti sem þær vilja ekki gera en gera til að halda í við strákinn, kynlíf er á forsendum strákanna,“ sagði Kolbrún og bætti við að allir tapi á klámvæðingunni.

„Margir strákar kaupa sér kamagra, sem er svipað og viagra, því þeim finnst að þeir eigi að vera alltaf graðir og eigi að geta haldið reisn í marga klukkutíma.“

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar, setti fundinn.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar, setti fundinn. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Leita fræðslu í klámi

Elínborg Una Einarsdóttir, fulltrúi Breiðholts í Reykjavíkurráði ungmenna, sagðist ekki vita um neina vinkonu sína sem væri fullkomlega sátt í eigin líkama. „Ég veit ekki hvort það er afleiðing klámvæðingar, veit ekki hvað er því að kenna og hvað ekki. Ég er enginn sérfræðingur, bara ungmenni að tala um reynslu mína,“ sagði Elínborg.

Hún sagðist aldrei hafa fengið kynlífsfræðslu í grunnskóla en gæti hins vegar talið upp nokkra kynsjúkdóma. „Ég skil að ungmenni geti leitað í klám jafnvel sem fræðslu, sem er mjög brenglað. Maður veit ekki hvar annars staðar maður geti fengið upplýsingar og þetta er mjög aðgengilegt,“ sagði Elínborg og bætti við að flestir strákar í kringum hana horfi á klám, þó að þeir tali helst ekki um það í kringum stelpur.

Stelpan aukahlutur fyrir strákinn

„Stelpur hrífast af persónuleikum á meðan strákar hrífast af líkömum,“ sagði Elínborg að einn vinur hennar hefði sagt í framhaldi af því að hann hefði ekki áhuga á að tala við stelpu af því að hún væri með svo lafandi brjóst. Elínborg benti á að stelpur taki meðvitað lítið pláss vegna þess að þær fái annars neikvæða athygli frá strákum.

„Kynlíf ungmenna er svo mikið miðað að strákum. Stelpan virðist oft bara vera aukahlutur fyrir strákinn sem er mjög brenglað.“

Kennum jákvætt kynlíf

Dagbjört Ásbjörnsdóttir, kynja- og kynlífsfræðingur, sagði síðasta vígvöllinn í jafnrétti kynjanna vera kynlíf. „Kennum unglingum ánægju og jákvætt kynlíf. Þeir sem kunna það læra að segja já og vita jafnframt hvenær á að segja nei,“ sagði Dagbjört.

„Hugmynd um hið gagnkynhneigða kynlíf hefst með standpínu karlmanns og lýkur með fullnægingu hans. Grundvöllurinn um gott kynlíf snýst um góð samskipti og að kynlíf sé báðum aðilum ánægjulegt. Þessu þarf að koma upp úr klámumræðunni og á að vera útgangspunkturinn í samfélaginu. Ánægja, virðing og traust,“ sagði Dagbjört.

mbl.is