„Klofalækjarkjaftur“ – íslenska er erfið

Kortið skemmtilega.
Kortið skemmtilega. Ljósmynd/Facebook-síða Öldu

Rithöfundurinn Alda Sigmundsdóttir kveðst gáttuð á þeirri miklu athygli sem kort sem hún birti á síðu sinni á Facebook hefur vakið. Kortið er af Íslandi en staðirnir á kortinu eru ekki þeir algengustu. Nöfnin eru fengin úr örnefnagrunni Landmælinga Íslands, samkvæmt upplýsingum á meðfylgjandi korti. 

Myndina fann Alda á Reddit en hún segist eiga lítinn heiður að kortinu. „Nema að því leyti að ég nennti að lesa heitin inn,“ segir Alda.

Lesturinn hefur eflaust ekki reynst sá auðveldasti en við texta myndarinnar stendur, snarað yfir á íslensku: „35 staðir á Íslandi sem hjálpa þér að skilja hvernig það er að vera lesblindur.“

„Ég er satt að segja hálfgáttuð á allri athyglinni,“ segir Alda en meira en eitt þúsund líkar við myndina á Facebook. Auk þess hefur fjöldi fólks tjáð sig í athugasemdum, meirihluti þeirra virðast vera útlendingar sem eru hissa á íslenskunni.

Hallgrímur Jökull Ámundason, íslenskufræðingur og ör­nefna­fræðing­ur á nafn­fræðisviði Árna­stofn­un­ar, segir að hægt sé að finna örnefnin í örnefnasjá Landmælinga Íslands. 

Tvær smávægilegar villur er þó að finna í kortinu. „Aðra þeirra má rekja til villu í gagnagrunni Landmælinga. Örnefnið „Lyngtungufjalsshjalli“ á auðvitað að vera „Lyngtungnafjallshjalli,“ segir Hallgrímur.

Einnig finnst örnefnið „Litluspjótahólmaflögur“ hvergi en hins vegar finnst „Spjótahólmaflaga“ á nokkurn veginn sama stað.

Hér má heyra Öldu lesa staðina á kortinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina