Forvirkar lokanir fækka útköllum

Vegalokun á Öxnadalsheiði. Mynd úr safni. Vegagerðin tók að vinna …
Vegalokun á Öxnadalsheiði. Mynd úr safni. Vegagerðin tók að vinna með forvirkar lokanir árið 2014. mbl.is/Styrmir Kári

Óvenjulítið var um lokanir vega árin 2016 og 2017 og að sama skapi var óvenjumikið um lokanir í lok árs 2014 og byrjun árs 2015, að sögn Guðbrands Arnar Arnarsonar hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Þegar horft er á nokkra fjölfarna vegi sem Vegagerðin hefur  umsjón með — við Eyjafjöll, Hafnarfjall, Hellisheiði, Holtavörðuheiði, Kjalarnes, Mosfellsheiði, Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Þrengslaveg, Öræfasveit og Öxnadalsheiði (sjá kort) má sjá að árið 2014 var gripið til lokana í 123 skipti og 166 skipti árið á eftir. 2016 kom hins vegar ekki til lokana nema í 81 skipti á þessum leiðum og 58 sinnum í fyrra. Það sem af er þessu ári hefur 13 sinnum þurft að loka á þessum leiðum, samkvæmt tölum sem mbl.is fékk sendar frá  Vegagerðinni.

„Það var óeðlilega lítið að gera í lokunum á árunum 2016 og 2017. Þá var líka óeðlilega gott veður og góð færð víðast á landinu,“ segir Guðbrandur Örn. „Að sama skapi má líka segja að það hafi verið óvenjulega vond tíð um áramótin 2014-2015, þannig að einhvers staðar þarna á milli liggur hefðbundið íslenskt vetrarveður og vetrarfærð.“

Reyna að loka sjaldan og stutt í senn

Vegagerðin tók að vinna með forvirkar lokanir árið 2014 og telur að vegum sé ekki lokað hlutfallslega oftar vegna veðurs nú en þá, að því er fram kemur í skriflegum svörum frá stofnuninni við fyrirspurn mbl.is. Þá gangi betur nú að loka vegum á réttum tíma og afstýra þar með vandræðum, enda sé fyrir vikið hægt að opna þá fyrr aftur. 

„Vegagerðin leitast við að loka vegum eins sjaldan og mögulegt er og láta lokanir vara eins stutt og kostur er, enda meginmarkmið að tryggja greiðar og öruggar samgöngur. Lokanir eru hins vegar oft og tíðum nauðsynlegar til þess einmitt að tryggja öryggi og draga úr röskun á umferð vegna óveðurs, þar sem það tefur hreinsun og opnun vegar að loknu óveðri ef bílar eru fastir í snjó inni á leiðum eftir að fólki hefur verið bjargað til byggða,“ segir í svarinu. Einnig sé mikilvægt að tryggja að snjómoksturstæki geti unnið áfram óhindrað á veginum í slæmu skyggni „til þess koma í veg fyrir að vegur teppist og stórvirkar vélar þurfi til að opna hann með tilheyrandi töfum.“

Björgunarsveitir aðstoða bíla sem festu sig á Mosfellsheiði. Mynd úr …
Björgunarsveitir aðstoða bíla sem festu sig á Mosfellsheiði. Mynd úr safni.

Dregið úr gagnrýni á forvirkar lokanir

Samhliða forvirku lokununum var hafist handa við að setja upp lokunarhlið á helstu leiðum. Eins var gerður samningur við björgunarsveitir Landsbjargar um aðstoð við framkvæmd lokana og segir Guðbrandur Örn það samstarf hafa gefist vel.

„Okkar reynsla er sú að lokunarverkefnin hafa hjálpað mjög mikið sem forvarnarverkefni. Það er alveg klárt að hefðu þessar lokanir ekki komið til, að þá hefðum við verið meira í útköllum,“ segir hann. Hjá minni björgunarsveitum úti á landi hafi þetta t.d. þau áhrif tveir menn séu á vakt í stað þess að öll björgunarsveitin sé í útkalli. „Í heildina séð þá er þetta mjög jákvætt, vegna þess að menn hefðu annars þurft að vera hvort eð er í útkalli á sama tíma.“ 

Þessar forvirku lokanir hjálpi þannig til við að fækka útköllum, sem komi vegfarendum ekki síður vel. „Við finnum það alveg á þeim vegfarendum sem njóta þessarar ráðgjafar frá okkar fólki þegar við erum að stoppa af þá sem eru kannski ekki vanir vetrarakstri og jafnvel á vanbúnum bílum,“ segir Guðbrandur Örn og kveður þetta eiga jafnt við um erlenda ferðamenn sem innlenda.

Í svari Vegagerðarinnar segir líka að almennt ríki orðið góð sátt um forvirkar óveðurslokanir og að gagnrýnisröddum vegna þeirra hafi fækkað.

Holtavörðuheiði. Mynd úr safni. Komið hefur til lokana vegna óveðurs …
Holtavörðuheiði. Mynd úr safni. Komið hefur til lokana vegna óveðurs á Holtavörðuheiði í 21 skipti frá því 2013. mbl.is/Gúna

Fleiri á ferð á illa búnum bílum í slæmu veðri

„Hins vegar er það áhyggjuefni að fjölgun ökumanna sem eru illa undirbúnir til þess að aka við slæm veðurskilyrði setur miklar kröfur um að viðbragð við lokanir sé gott,“ segir í svarinu. 

Guðbrandur Örn tekur undir að vissulega sé fjölgun illa búinna ökumanna áhyggjuefni. „Það sem við erum þó kannski að sjá er að fólk er bara meira að ferðast nú en áður,“ segir hann. Það séu ekki bara erlendir ferðamenn sem séu á ferðinni, því Íslendingar séu líka á förum milli byggðarlaga.

„Heiðarnar hafa verið erfiðastar,“ segir Guðbrandur Örn og nefnir Hellisheiðina sem dæmi um einn þeirra fjölförnu vega þar sem töluvert sé um lokanir vegna almennrar ófærðar.

„Síðan eru það þessir staðir þar sem slysahætta er, eins og t.d. undir Hafnarfjalli, Eyjafjöllum, á Kjalarnesi og í Öræfum. Þar erum við með fólk í lífshættu í ákveðnu veðri og þar höfum við náð mestum árangri í slysavörnunum.“ 

Bílar í vonskuveðri á Holtavörðuheiði 2015. Mynd úr safni. Forvirkar …
Bílar í vonskuveðri á Holtavörðuheiði 2015. Mynd úr safni. Forvirkar lokanir Vegagerðarinnar hafa dregið úr útköllum björgunarsveita. mbl.is/Golli

Vandræði heyra til undantekninga

Vegagerðin telur líka að með því að manna lokunarpósta á óvissustigi þegar vel búnir bílar geti enn verið á ferðinni megi upplýsa vanbúna vegfarendur um versnandi skilyrði og hvetja þá þannig til að fresta för. Fyrir vikið sé hægt að fresta lokunartíma eða jafnvel í einhverjum tilfellum að koma í veg fyrir lokun.

Guðbrandur Örn segir þetta dæmi um svonefndar mjúkar lokanir. „Þá eru þeir sem eru á stórum og öflugum bílum látnir vita að óveður sé á leiðinni og þeir hafa þá möguleika á að fara áður en það verður lokað. Ferðamaðurinn á smábílnum er á sama tíma látinn vita að hann lendi nokkuð örugglega í vandræðum,“ útskýrir hann. „Það er þetta samtal við fólk sem gengur vel og hefur reynst okkur mjög vel.“ 

Vandræði heyra enda til undantekninga að sögn Guðbrandar Arnar og koma helst upp er vanir menn á öflugum bílum eru ósáttir við að lokað sé á sig.

„Það er Vegagerðin sem tekur ákvörðun um lokanirnar. Við bara mönnum þessa pósta, en það er mikil skynsemi í þessum lokunum hjá þeim.“

Vegagerðin telur mikilvægan þátt í frekari þróun forvirkra lokana að bæta áætlanir um lokanir á grundvelli veðurspár svo hægt sé að birta þær fyrir fram, enda hafi slíkt mælst vel fyrir hjá vegfarendum, ekki hvað síst ferðaþjónustufyrirtækjum og flutningsaðilum.

„Þá finnum við fyrir því að þegar slæm veðurspá og viðvaranir fara í loftið þá dregur úr umferð samkvæmt teljurum okkar þó að ekki komi til lokana,“ segir í svari Vegagerðarinnar.

mbl.is