Ætla ekki að greiða skólagjöldin

Nemendurnir afhentu rektor Listaháskólans og deildarstjóra sviðslistadeildar bréfið í hádeginu …
Nemendurnir afhentu rektor Listaháskólans og deildarstjóra sviðslistadeildar bréfið í hádeginu í dag. Þar er þess krafist að skólagjöld vorannar verði felld niður. Ljósmynd/Birnir Jón Sigurðsson

Nemendur á sviðslistabraut við Listaháskóla Íslands krefjast þess að skólagjöld þeirra verði felld niður á vorönn vegna óviðunandi aðstæðna í núverandi húsnæði skólans við Sölvhólsgötu 13. Allir nemendur deildarinnar skrifuðu undir bréf þess efnis sem afhent var rektor Listaháskólans og deildarstjóra sviðslistadeildar fyrr í dag. Undir sviðslistabraut heyrir BA og meistaranám á dansbraut, leiklistarbraut og sviðshöfundarbraut.

Telja nemendur sig hafa verið svikna um aðstöðu og þjónustu við skólann en í bréfinu er margt talið til, svo sem mygla í skólastofum skólans, ekkert aðgengi fyrir fatlaða, engin les- og vinnuaðstaða nemenda, mötuneyti eða bókasafn. Þá segja nemendur manneklu vera við skólann og kennurum hafa fækkað á einhverjum sviðum, t.a.m. erlendum kennurum við dansbraut skólans. Skólastjórnendum er gefinn frestur til að svara bréfinu til næsta mánudags.

Þolinmæði nemenda við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands er á þrotum.
Þolinmæði nemenda við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands er á þrotum. Ljósmynd/Birnir Jón Sigurðsson

Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, fulltrúi nemenda við sviðslistadeild í nemendaráði skólans, segir í samtali við mbl.is að stjórnendur skólans hafi veitt bréfinu móttöku í hádeginu í dag og ætla að taka málið upp á fundi með stjórn skólans á fundi stjórnarinnar næsta fimmtudag. 

„Við viljum að aðstæður okkar séu teknar alvarlega strax, það er oft talað um framtíðina eins og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem er talað um að leysa húsnæðisvanda Listaháskóla Íslands,“ segir Salvör. Hún segir að húsnæðið hafi alltaf átt að vera bráðabirgðahúsnæði en ekkert gerist síðan á meðan nemendur halda áfram að greiða há skólagjöld önn eftir önn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert