Álbikararnir duga í ófáar pönnukökupönnur

Álbikurum sprittkerta safnað saman í endurvinnslustöð Sorpu við Sævarhöfða í …
Álbikurum sprittkerta safnað saman í endurvinnslustöð Sorpu við Sævarhöfða í vikunni. Ljósmynd/Birgir Ísleifur

Góðar undirtektir voru við tilraunaátaki um söfnun áls í sprittkertum, sem stóð yfir í desember og janúarmánuði  undir yfirskriftinni „Gefum jólaljósum lengra líf“.

Undirtektirnar voru raunar svo góðar að fyrirtækin og samtökin sem stóðu að endurvinnsluátakinu hafa ákveðið að gera þetta að varanlegum kosti í flokkun og endurvinnslu hér á landi. Almenningur getur því áfram skilað álinu í sprittkertum á einhverri þeirra 90 endurvinnslu- og móttökustöðva Endurvinnslunnar, Gámaþjónustunnar, Íslenska gámafélagsins og Sorpu.

Einnig má skila því álbikurunum um 120 dósagáma Grænna skáta á höfuðborgarsvæðinu. Þá má setja þá, eins og aðra málma sem til falla á heimilum, í grænar tunnur Íslenska gámafélagsins og endurvinnslutunnur Gámaþjónustunnar. Plastiðjan Bjarg – iðjuþjálfun og Aldan í Borgarnesi taka hins vegar á móti kertavaxinu og vinna úr því ný kerti.

Tilgangurinn með átakinu var að efla vitund landsmanna á mikilvægi þess að flokka og endurvinna það ál sem fellur til hjá heimilum og fyrirtækjum. Að átakinu stóðu Endurvinnslan, Fura, Gámaþjónustan, Grænir skátar, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samtök iðnaðarins, Samál og Sorpa.

Í fréttatilkynningu frá Samtökum álframleiðenda segir að það skýrist innan fárra vika hversu mikið af áli safnaðist í átakinu. Ljóst sé hins vegar að afraksturinn dugar í ófáar íslenskar pönnukökupönnur, en í eina slíka þarf um 700 sprittkerti.

Allt ál sem safnast hérlendis fer til endurvinnslu, en á næstu vikum ræðst hvað verður um álið sem safnaðist í átakinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert