Bókaormar út um allt

Margt keppir um athygli barna á þessum síðustu tímum.
Margt keppir um athygli barna á þessum síðustu tímum. Haraldur Jónasson/Hari

„Ef marka má nýjustu kannanir og þau viðbrögð sem ég fæ þegar ég mæti í skólana og spjalla við börnin þá virðist stór hluti þeirra vera að lesa. Og það sem meira er, þau eru að lesa sér til ánægju en ekki bara vegna þess að þau eiga að gera það í skólanum. Þannig viljum við auðvitað hafa það – bókaorma út um allt.“

Þetta segir Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur og leikari, en auk þess að hafa sent frá sér vinsælar barnabækur hefur hann undanfarin misseri staðið fyrir lestrarátaki Ævars vísindamanns í grunnskólum.

Slagorðið í átaki Ævars er: Hvað langar þig að lesa? „Ef ein bók er skemmtileg, þá er önnur bók það líka. Börn þurfa bara að finna fyrstu skemmtilegu bókina og hún má vera um hvað sem er. Bara eitthvað sem viðkomandi barn langar að lesa. Þess vegna hef ég barist fyrir því að við fullorðna fólkið drögum úr snobbinu þegar við ákveðum hvað má og hvað má ekki lesa. Skemmtilegustu bækurnar eru ekkert endilega þær sem við mælum með, þvert á móti verðum við að treysta krökkunum. Þeir finna þetta sjálfir.“

„Ég hef góða tilfinningu fyrir ungu kynslóðinni í dag,“ segir Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri, sem leitt hefur starfsemi Barnabókaseturs. „Bóklestur var lengi vel á niðurleið, það sýndi til dæmis langtímarannsókn Þorbjörns Broddasonar, sem náði frá 1968 til 2009. Í síðustu mælingunni var hins vegar aðeins uppsveifla og sama mynstur kemur fram í ESPAD-rannsókninni, stórri evrópskri rannsókn sem við Íslendingar höfum tekið þátt í og snýr að nemendum í tíunda bekk grunnskóla. Á fyrstu árum þessarar aldar var niðursveifla en síðan er eins og botninum hafi verið náð og leiðin liggi upp á við á ný; að minnsta kosti ef marka má tvær síðustu mælingar 2011 og 2015. Aukningin er svo sem ekki gríðarleg en nóg til þess að við getum ályktað sem svo að börn og unglinga langi enn þá til að lesa.“ 

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, segir mikla samstöðu um það í samfélaginu að efla læsi og lestraráhuga barna en fyrir tveimur árum stóðu öll sveitarfélög landsins, mennta- og menningarmálaráðherra og Heimili og skóli að gerð þjóðarsáttmála um læsi. Markmið þjóðarsáttmálans er að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns og er verkefnið hluti af aðgerðaáætlun sem unnin var í kjölfar Hvítbókar mennta- og menningarmálaráðherra um umbætur í menntun.

„Þetta er mjög mikilvægt verkefni og skólarnir hafa í samstarfi við foreldra lagt aukið kapp á að halda lestri að börnum. Það er mikilvægt að þetta átak fari fram bæði í skólunum og inni á heimilunum en foreldrar eru oft vannýtt auðlind í lestrarnámi barna. Þá hefur Menntamálastofnun, sem hefur yfirumsjón með þjóðarsáttmálanum, sett á laggirnar sérstakt teymi sem aðstoðar sveitarfélögin í því að efla læsi. Það hefur með öðrum orðum verið sett mikið púður í að gera betur og maður bindur auðvitað vonir við að það skili árangri,“ segir Hrefna og nefnir einnig mikilvægi þess að gefnar séu út fjölbreyttar barnabækur á íslensku.

„Já og nei,“ svarar Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, þegar hann er spurður hvort hann skynji að lestraráhugi barna og ungmenna sé að aukast á Íslandi. „Mér þykja rannsóknirnar hafa verið heldur misvísandi, en það sem hefur verið í mínum huga sérlega jákvætt er að fylgjast með vitundarvakningunni um mikilvægi lestrar góðra bóka sem við sjáum orðið mjög víða. Þannig standa ýmsir aðilar, s.s. skólar, ýmis samtök og jafnvel einstaklingar eins og Ævar Þór Benediktsson fyrir vel kynntum lestrarátökum sem ég er sannfærður um að hafi allt saman jákvæð áhrif og ekki síst til þess fallið að auka meðvitund barna, unglinga og ekki síður forráðamanna um mikilvægi þess að halda góðu lesefni að unga fólkinu. Ég get þó ekki sagt að við höfum beinlínis séð þess veruleg merki í aukinni sölu, en það má samt ekki gleyma því að allt er þetta langtímaverkefni og ég hef tröllatrú á að þetta komi til með að hafa jákvæð áhrif.“

Nánar er fjallað um lestraráhuga barna og ungmenna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Lestrarátak Ævars vísindamanns í skólum þykir hafa skilað góðum árangri.
Lestrarátak Ævars vísindamanns í skólum þykir hafa skilað góðum árangri.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert