Tekið mjög hart á brotunum

Bæði langtíma- og skammtímavistunarheimili eru rekin á vegum Reykjavíkurborgar og …
Bæði langtíma- og skammtímavistunarheimili eru rekin á vegum Reykjavíkurborgar og árið 2016 var 151 barn í skammtímavistun á vegum borgarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum með 211 börn í varanlegu og tímabundnu fóstri,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Hart sé tekið á brotum gegn skjólstæðingum sviðsins og dæmi um fyrirvaralausar brottvikningar og leyfi.

Um 2.500 manns starfa á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Félagsráðgjafar, sálfræðingar og aðrir ráðgjafar á þjónustumiðstöðvum og í barnavernd eru um 200 og tæplega 800 manns vinna á búsetuúrræðum fyrir fullorðna fatlaða. Um 150 manns vinna á skammtímavistheimilum sem eru bæði fyrir fötluð börn og börn og ungmenni sem eru vistuð á grundvelli barnaverndarlaga. Einnig eru 240 manns sem vinna við liðveislu fyrir fatlaða einstaklinga, 23 vinna sem tilsjónarmenn inni á heimilum vegna barna og 43 við persónulega ráðgjöf, þar af 7 á grundvelli barnaverndarlaga.

Einnig eru fjölmennar starfsstéttir sem vinna við heimaþjónustu og heimahjúkrun, á félagsmiðstöðvum eldri borgara og á þeim tveimur hjúkrunarheimilum sem velferðarsvið rekur.

Mikið hefur verið fjallað í vikunni um mál karlmanns sem var starfsmaður á vistheimilum Reykjavíkurborgar um áratugaskeið og situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa misnotað dreng hvers fjölskylda hafði ráðið hann sem stuðningsfulltrúa fyrir. Lögreglan rannsakar nú brot mannsins gegn sjö þolendum, en greint hefur verið frá því að tilkynnt hafi verið um manninn í þrígang frá 2002.

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að átta kærur hefðu nú borist lögreglu vegna meintra brota mannsins.

Regína segir velferðarsvið nú komið með upplýsingar um innhringingu sem barst árið 2008 og að búið sé að ræða við þann aðila sem þá hringdi inn. „Við erum að rekja feril þess símtals, af hverju það barst ekki rétta leið,“ segir hún. Engar upplýsingar eru hins vegar um símtal árið 2002 og ekki hefur tekist að hafa uppi á þeim innhringjanda.

Þurfa að geta treyst á Barnavernd og velferðarsvið

Regína segir mikið og þarft starf unnið á vegum velferðarsviðs. „Það er áhyggjuefni ef að traustið brestur. Foreldrar og börn sem eiga í vanda þurfa að geta treyst á bæði Barnavernd og velferðarsvið í þessum málum. Þess vegna tökum þetta líka mjög alvarlega, þar sem við vitum að þessir einstaklingar eru mjög lagnir við að koma sér í störf af þessum toga og eru oft aðilar sem engan grunar.“ Nefnir hún mál Larry Nassars, læknis bandaríska fimleikaliðsins, sem dæmi.

Skammtímavistheimili eru rekin á vegum borgarinnar og árið 2016 var 151 barn í skammtímavistun á vegum borgarinnar. Eins er starfrækt stuðningsheimili fyrir ungmenni á aldrinum 17-23 ára sem ekki hafa möguleika á að búa heima hjá forsjáraðilum eða hefja eigin búsetu. Á stuðningsheimilinu býr umsjónarmaður ásamt ungmennunum sem stunda ýmist vinnu eða nám.

„Foreldrar og börn sem eiga í vanda þurfa að geta …
„Foreldrar og börn sem eiga í vanda þurfa að geta treyst á bæði Barnavernd og velferðarsvið í þessum málum. Þess vegna tökum þetta líka mjög alvarlega, þó að við vitum að þessir einstaklingar eru mjög lagnir við að koma sér í störf af þessum toga og eru oft aðilar sem engan grunar,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, nýr sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

99 börn með stuðningsfjölskyldu 2016

Ýmiss konar önnur aðstoð er þó líka í boði á vegum velferðarsviðs og Barnaverndar. Þannig er foreldrum veittur stuðningur og ráðgjöf við uppeldi og umönnun. Tilsjónarmenn aðstoða foreldra við að sinna forsjár- og uppeldisskyldu og persónulegir ráðgjafar hafa það að markmiði að styrkja börn félagslega og tilfinningalega t.d. með því að fara með þeim í bíó og taka þátt í íþróttaiðkun. Árið 2016 fengu 237 börn tilsjón eða persónulega ráðgjöf.

Einnig má svo nefna stuðningsfjölskyldur, sem bæði eru úrræði í barnaverndinni fyrir börn sem búa við erfiðar aðstæður og svo líka fyrir fötluð börn. Árið 2016 voru stuðningsfjölskyldur Barnaverndar 99, en 296 fötluð börn voru með stuðningsfjölskyldu. Loks má svo nefna fósturfjölskyldur sem taka börn í fóstur í að minnsta kosti þrjá mánuði.

Misjafnt er eftir úrræðunum hvort börnin eru mikið ein með starfsmanninum.

Mbl.is hafði eftir Regínu á föstudag að vandað sé við val þeirra sem vinna með börnum og fólk þurfi m.a. að heimila að upplýsinga um það sé leitað úr sakaskrá. Fram hefur komið að maðurinn sem nú er í gæsluvarðhaldi átti stutta atvinnusögu að baki er hann hóf störf hjá Reykjavíkurborg undir lok síðustu aldar. Líkt og aðrir starfsmenn velferðarsviðs sem unnu með börnum þurfti hann hins vegar að endurnýja árið 2012 heimild um að skoða mætti upplýsingar um hann í sakaskrá. Sagði Regína til standa að setja inn í reglur að það verði gert oftar og með reglubundnari hætti.

Ekki margir á fleiri en einu sviði

„Að mínu mati er ekki nægjanlegt að fólk sem kannski vinnur með börnum um margra ára skeið sé bara skoðað þegar það er ráðið til starfa. Það þarf að gera þetta með reglubundnum hætti. Við erum að skoða lagaheimildina fyrir því núna því það er vilji okkar að bæta þessa ferla,“ sagði Regína.

Fram hefur komið að maðurinn starfaði sem stuðningsfulltrúi fyrir dreng samhliða starfi sínu á vistheimili, en það starf hans var þó ekki á vegum borgarinnar. Regína segir velferðarsviði ekki kunnugt um hvort að algengt sé að fólk ráði sér stuðningsfulltrúa með þessum hætti.

Spurð hvort margir starfi á fleiri en einum vettvangi á vegum velferðarsviðs segir Regína svo ekki vera, en að kennarar og einstaklingar með uppeldismenntun séu þó alltaf eftirsóttir í þessi störf.

Dæmi um fyrirvaralausar brottvikningar

Regína segir mikil tengsl vera á milli deilda sviðsins og því eigi starfsmaður sem t.d. brjóti af sér hjá Barnavernd ekki að geta gengið athugasemdalaust í starf sem tengist málefnum fatlaðra.

„Mannauðsskrifstofa velferðarsviðs sinnir öllum málaflokkum, til dæmis bæði barnavernd og málefnum fatlaðra og við höfum verið að taka mjög hart á brotum,“ segir hún. Dæmi séu um fyrirvaralausar brottvikningar og að fólk sé sett í leyfi á meðan mál eru rannsökuð.

„Við verðum náttúrulega að fylgja lögum og reglum, en við höfum takmarkað umburðarlyndi gagnvart til dæmis nauðung og þvingun í búsetukjörnum fatlaðra. Mjög ákveðið er tekið á þeim brotum sem koma upp í því starfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert