Fjöldi hjá starfsmannaleigum tvöfaldast

Samkvæmt yfirliti Vinnumálastofnunar tvöfaldast fjöldi starfsmanna hjá starfsmannaleigum.
Samkvæmt yfirliti Vinnumálastofnunar tvöfaldast fjöldi starfsmanna hjá starfsmannaleigum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Árið 2017 voru 3.899 einstaklingar atvinnulausir að meðaltali hér á landi. Það eru 2,2% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði og skráð atvinnuleysi minnkaði þannig um 0,1% frá árinu 2016. Þetta kemur fram í yfirliti frá Vinnumálastofnun um atvinnuástandið árið 2017.

Fjöldi starfsmanna sem skráðir voru hjá starfsmannaleigum rúmlega tvöfaldast á milli ára, samkvæmt yfirlitinu.

Alls voru 3.205 starfsmenn skráðir í 36 starfsmannaleigum í fyrra en 1.527 starfsmenn í 30 starfsmannaleigum árið 2016.

Atvinnuleysi á meðal kvenna minnkar um 0,2 prósentustig, en er þó enn meira en á meðal karla. Atvinnuleysi kvenna var 2,5% en karla 1,9% og standa karlarnir í stað á milli ára.

Atvinnuleysi minnkar lítillega á höfuðborgarsvæðinu, um 0,3% á milli ára og var atvinnuleysið 2,2% í fyrra. Atvinnuleysi eykst á landsbyggðinni, úr 2% árið 2016 og upp í 2,2%.

Þegar horft er til einstakra landshluta kemur í ljós að atvinnuleysið var minnst á Norðurlandi vestra, eða 1,1%. Einnig var atvinnuleysið undir 2% á Austurlandi, Vesturlandi og Suðurlandi. Mest var atvinnuleysið hins vegar á Suðurnesjum og Norðurlandi eystra, eða 2,7%.

21% atvinnulausra utan vinnumarkaðs í yfir 12 mánuði

Þeir sem voru atvinnulausir lengur en 6 mánuði á árinu 2017 voru að meðaltali 1.733 talsins, en 1.965 á árinu 2016. Alls voru 42% allra atvinnulausra lengur en 6 mánuði atvinnulausir í fyrra en þetta hlutfall var 45% árið 2016.

Fjöldi þeirra sem höfðu verið lengur en 12 mánuði á atvinnuleysisskrá á árinu 2017 var 850 eða 21% allra á atvinnuleysisskrá. Hlutfallið var 23% árið 2016.

Í fyrra bárust Vinnumálastofnun 17 tilkynningar um hópuppsagnir, þar sem alls 632 einstaklingum var sagt upp störfum. Flestir misstu vinnuna í fiskvinnslu, 241 eða um 38% allra hópuppsagna, í iðnaðarframleiðslu 125, eða um 20% og 86 í verslun eða um 14% allra hópuppsagna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert