Fleiri karlar á flugfælninámskeið

Boeing 757-þota Icelandair.
Boeing 757-þota Icelandair. mbl.is/Sigurður Bogi

Karlar eru í auknum mæli farnir að skrá sig á flugfælninámskeið. Aukin krafa er einnig frá foreldrum um að börn sæki slík námskeið. Þetta segir Elín Erlingsdóttir sem skipuleggur námskeið gegn flugfælni á vegum Icelandair sem hefst á næstunni.

Fjögur námskeið eru haldin í Sálfræðistöðinni á ári hverju og yfirleitt mæta þrettán manns á hvert námskeið. Að sögn Elínar er oftast fullbókað í námskeiðin og reynt er að hafa hópana litla í hvert sinn svo að þjónustan verði persónubundnari og allir fái fræðslu og aðstoð við sitt hæfi.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Ómar

Einn og einn slæddist inn 

Hún telur aðsókn í námskeiðin vera frekar að aukast með árunum og að áberandi sé hversu karlmönnum sé að fjölga. „Það var einn og einn sem slæddist á námskeið þegar við vorum að byrja með þetta fyrir tuttugu árum. Þeir eru ekki margir núna en þeir eru að verða stærri hópur,“ greinir Elín frá. Þar hjálpi eflaust til að upplýsingar um námskeiðin breiðist hraðar út en áður á samfélagsmiðlunum.

„Það er eflaust markaður til að hafa þetta oftar en við höfum ekki haft tök á því. Það eru fáir sálfræðingar sem hafa gefið sig út fyrir þetta og verið með sérþekkingu á þessu sviði,“ segir Elín og bætir við að meiri krafa sé um það núna að börn sæki námskeiðið.

„Þetta eru erfið námskeið og við höfum ekki haft tækifæri til þess að taka börn inn á þau. Oft erfist flughræðsla, má segja, frá foreldrum yfir í börn,“ segir hún og nefnir að mikið sé fjallað um eðlisfræði á námskeiðinu og að mjög erfitt sé fyrir börn að vinna með andlegt ástand hvað þessa hluti varðar. Þau hafi ekki þroskann sem til þarf.

Boeing 767-þota Icelandair.
Boeing 767-þota Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Verða að viðhalda þekkingunni

Aðspurð segir Elín að í 99% tilfella komi fólk ekki aftur á námskeiðið eftir að hafa farið á það einu sinni. Það sé útskrifað. Einn og einn hefur samband eftir einhver ár, oftast eftir að hafa lítið sem ekkert flogið í millitíðinni.

„Eina leiðin til þess að viðhalda þessu er að fljúga. Heilinn er svo fljótur að taka yfir og fara með þig aftur í sama ástand ef þú viðheldur ekki aðstæðunum og þekkingunni.“

Hún segir það koma fyrir að fólk sem fór á námskeiðið fyrir tíu árum komi aftur en oftast dugar að setja niður með kennurunum í einn tíma, fara yfir hlutina og rifja þá aftur upp. „Í svipan man ég ekki eftir neinum sem hefur farið á tvö námskeið.“

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Árni Sæberg

Konur duglegri í að takast á við vandann

Hvert námskeið samanstendur af 12 til 14 klukkustundum í skólastofu, sem er dreift á tvær vikur. Einnig er heimalærdómur bæði hvað varðar lestur og slökun. Í lok námskeiðsins er farið með fólkið í flugferð til Evrópu þar sem fræðsla fer fram allan tímann.

Spurð hvers vegna konur séu í meirihluta þeirra sem sækja námskeiðin segir Elín þær vera öruggari í því að fara og takast á við vandann. Karlmenn séu lengur að koma sér af stað og hafa kannski samband í tvö til þrjú ár áður en þeir ákveða að skrá sig á námskeið. „Það er einhvern veginn erfiðara fyrir þá að stíga inn í þetta.“

Innritunarborð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Innritunarborð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Hari

Halda fjölskyldunni í gíslingu 

Elín segir það hefta fjölskyldur mikið þegar fólk neitar að fljúga. Margir sem hafa sótt námskeiðið hafa ekki flogið í áratugi. Nefnir hún í því samhengi eina manneskju sem kom á námskeiðið fyrir tveimur árum. Hún hafði flogið með sjóflugvélinni Katalínu á Ísafjörð fyrir löngu síðan og verið það hrædd að hún hafi ekki getað flogið eftir það. Þannig hélt hún fjölskyldu sinni hálfpartinn í gíslingu því hún neitaði að fara til útlanda nema á skipi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert