Höfum „efni á að laga gallana á kerfinu“

„Lengra líf og samfélagið“ nefnist fundur sem haldinn er í …
„Lengra líf og samfélagið“ nefnist fundur sem haldinn er í sal Félags eldri borgara í Stangarhyl 4 kl. 16-17 í dag. mbl.is/Eggert

„Ég ætla að ræða um vinnumarkaðinn, lífeyriskerfin og lífeyrisréttindin og stöðuna hér á landi til samanburðar við önnur lönd,“ segir Ari Skúlason, hagfræðingur Landsbankans, um erindi sitt á fundi um langlífi og samfélagsbreytingar sem Landsbankinn og Landssamband eldri borgara, í samvinnu við Félag eldri borgara í Reykjavík, heldur í sal Félags eldri borgara í Reykjavík í Stangarhyl 4 kl. 16-17 í dag.

Hugmyndin að fundinum er aðallega sú að efna til umræðu og skoða ýmsa fleti á málum eldri borgara. Erindi Ara nefnist: Eldra fólk er unglingar nútímans — samfélagsbreytingar vegna hækkandi meðalaldurs. Erindið byggir á fimm greinum sem hann hefur skrifað um þetta málefni og hafa birst á vefsíðu Landsbankans sem hafa mælst vel fyrir.  

Ari bendir á að þrátt fyrir að hér á landi sé sterkt lífeyriskerfi sé hópur eldri borgara sem stendur ekki sérstaklega vel. Sá hópur mælist undir meðaltalinu á greiðslum úr lífeyrissjóði. Hins vegar er hópurinn fjölbreyttur. Þeir sem standa vel yfir meðaltali eru einstaklingar sem hafa til dæmis starfað sem þingmenn, ráðherrar, hæstaréttardómarar eða í sambærilegum störfum.   

Sterkt lífeyriskerfi og ríkið sleppur nokkuð vel

„Af því að við erum með firnasterkt vinnumarkaðs lífeyriskerfi þá sleppur hið opinbera hér nokkuð vel við að borga lífeyri. Við borgum miklu lægra hlutfall af opinberum útgjöldum í lífeyri en flestar þjóðir í Evrópu. Það má segja sem svo að við hefðum alveg efni á að laga gallana á kerfinu eins og það er núna,“ segir Ari. 

Tvö önnur lönd, Danmörk og Holland, eru með sterkara lífeyriskerfi að sögn Ara. 

Á fundinum heldur Sigríður J. Guðmundsdóttir, formaður Félags eldri borgara Selfossi, einnig erindi sem nefnist: Af lágum launum á lítil eftirlaun — reynslusaga.

Allir eru velkomnir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert