Ætlaði ekki að særa neinn

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var ekki ætlun mín að særa neinn með með þessari vinnu heldur þvert á móti að gera hinu upprunalega höfundarverki hátt undir höfði,“ segir Dagur D. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, á Facebook-síðu sinni í dag. Tilefnið er gagnrýni arkitektsins Örnólfs Hall í Morgunblaðinu í dag í garð Dags fyrir að hafa ekki haft samráð við hann og Ormar Þór Guðmundsson sem hönnuðu breytingar sem gerðar voru á Íslandsbankahúsinu á Kirkjusandi fyrir Samband íslenskra samvinnufélaga árið 1988 áður en hann fékk tvo arkitekta til þess að teikna hugmyndir að endurgerð hússins í upprunalegri mynd. Þá segir Örnólfur að Dagur hafi engan rétt til þess að ráðskast með húsið án samráðs við bankann.

„Tilefni þess að ég lét kanna þetta eru viðræður borgarinnar við núverandi eiganda hússins, Íslandsbanka, en húsið mun vera skemmt af raka og myglu. Spurningin er því hver næstu skref verði. Í mínum huga er húsið og upprunalegt útlit þess ótvírætt mikilvægur hluti af atvinnusögu borgarinnar, auk þess að vera gullfallegt og gæti það haft mikið gildi fyrir umhverfi sitt til framtíðar. Þetta mikilvægi er að aukast frekar en hitt því að á nálægum reitum á Kirkjusandi er gert ráð fyrir að fjöldi nýrra bygginga rísi. Mér finnst líka frábær hugmynd að húsið fengi nafn fyrirtækjanna sem reistu það á sínum tíma, Júpiter og Marz,“ segir Dagur. Arkitektarnir hafi áður endurhannað Marshall-húsið á Granda.

„Umbreytingin á Marshall-húsinu finnst mér sérstaklega vel heppnaðar og að mörgu leyti hliðstætt verkefni: gamalt atvinnuhúsnæði sem var í niðurníðslu og hætt að gegna upprunalegu hlutverki. Breytingarnar á Marshall-húsinu fengu hin eftirsóttu Hönnunarverðlaun 2017 og var það verðskuldað að mínu mati,“ segir Dagur ennfremur. Eftir að hafa séð mögulega útfærslu breytinga á Íslandsbankahúsinu, sem þýddi að síðari tíma viðbygging og klæðning yrði fjarlægð, sé hann sannfærðari en áður um að mjög spennandi verkefni gæti verið um að ræða sem yrði sannkölluð borgarprýði.

„Framundan eru frekari viðræður borgarinnar við eiganda hússins, Íslandsbanka, um næstu skref og skipulag svæðisins. Þar þarf að taka mið af mati á núverandi ásandi hússins og ákvarða hvort það sé raunhægt að endurgera það eða endurbyggia. Í því efni er ég eindregið þeirrar skoðunar að horfa til upprunalegs útlits hússins frekar en síðari tíma viðbygginga og núverandi klæðningar,“ segir Dagur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert