Heiðin rudd til að flytja sjúkling

Gemlufallsheiði liggur milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar.
Gemlufallsheiði liggur milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. Skjáskot/Vegagerðin

Ryðja þurfti Gemlufallsheiði á milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar í gærkvöldi til að koma konu sem veiktist á Þingeyri á sjúkrahús á Ísafirði. Snjóruðningstæki og sjúkrabílar beggja vegna heiðar tóku þátt í að aðgerðum. Mjög snjóþungt hefur verið á Vestfjörðum síðustu daga.

Varðstjóri lögreglunnar á Ísafirði segir að heiðin hafi verið ófær í gærdag og er konan, sem er um áttrætt, veiktist og þurfti að komast á sjúkrahús, stóð í fyrstu til að snjóbíll frá björgunarsveit flytti hana á sjúkrahús. Þá var einnig sá möguleiki skoðaður að senda þyrlu eftir henni. 

En starfsmönnum Vegagerðarinnar frá Flateyri og Þingeyri tókst að ryðjast í gegnum snjóinn á heiðinni og mættust þar á miðri leið. Eftir að heiðin var opnuð flutti svo sjúkrabíll konuna frá Þingeyri til móts við sjúkrabíl frá Ísafirði. Hún var svo flutt á sjúkrahúsið á Ísafirði.

Björgunarsveitin Dýri skipulagði aðgerðir, að sögn lögreglunnar, sem gengu vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert