Þurfa að greiða Matthíasi 640 milljónir

Ró­bert Wessman, Árni Harðarson og Magnús Jaroslav Magnússon þurfa að …
Ró­bert Wessman, Árni Harðarson og Magnús Jaroslav Magnússon þurfa að greiða Matthíasi Johannessen 640 milljónir. mbl.is/Golli

Ró­bert Wessman hef­ur, ásamt Árna Harðar­syni og Magnúsi Jaroslav Magnús­syni voru í dag dæmdir til að greiða Matthíasi H. Johannessen 640 milljónir króna fyrir að hlunnfara hann í viðskiptum. Matth­ías taldi sig hafa verið hlunn­far­inn af viðskipt­um fé­lags í sam­eig­in­legri eigu þeirra sem keypti hlut í lyfja­fyr­ir­tæk­inu Al­vo­gen. Endanleg upphæð er þó mun hærri, enda reiknast hún með vöxtum frá júlí 2010 og dráttavöxtum frá árinu 2011.

Hafði Matthías farið fram á 3,1 milljarð vegna málsins, en varakrafa hljóðaði upp á 640 milljónir.

Í dómi Hæstaréttar er talað um saknæma háttsemi þeirra Róberts, Árna og Magnúsar, en þar kemur fram að þeir hafi með „ólögmætri og saknæmri háttsemi staðið því í vegi að aðaláfrýjandi fengi notið réttinda sinna sem hluthafi“ í Aztiq Pharma Partners.

Málið snýst kaup mannanna fjögurra á félagi sem síðar fékk nafnið Aztiq Pharma Partners ehf. Átti félagið, í gegnum dótturfélög sín 30% hlut í lyfjafyrirtækinu Alvogen. Átti Róbert 94% í félaginu en hinir 2% hver. Síðar eignaðist Árni hlut Róberts, en Matthías taldi sig eiga forkaupsrétt á þriðjungi hlutabréfa Róberts.

Í júlí 2010 voru allir hlutir Aztiq Pharma Partners í dótturfélaginu sem hélt utan um eignirnar í Alvogen framseldar á nafnverði til innlends félags sem var í eigu Árna og taldi Matthías að Árni, Róbert og Magnús hefðu með því á saknæman og ólögmætan hátt valdið honum sem hluthafa í Aztiq Pharma Partners tjóni með að selja helstu eign félagsins á undirverði frá félaginu.

Róbert Wessman þarf ásamt Árna Harðarsyni og Magnúsi Magnússyni að …
Róbert Wessman þarf ásamt Árna Harðarsyni og Magnúsi Magnússyni að greiða Matthíasi Johannessen 640 milljónir vegna Alvogen viðskipta. Ljósmynd Sigurjón Ragnar

Í dómi sínum segir Hæstiréttur að það sé staðfest að hlutirnir í dótturfélaginu hafi verið seldir á undirverði og „með þeirri ráðstöfun hefðu hagsmunir eins hluthafa í félaginu með ótilhlýðilegum hætti verið teknir fram yfir hagsmuni félagsins og þar með annarra hluthafa.“

Var þar með staðfest niðurstaða héraðsdóms um að Árni, Róbert og Magnús hefðu bakað sér skaðabótaskyldu gegn Matthíasi vegna þess tjóns sem hann varð fyrir. Hæstiréttur taldi rétt að miða tjón Matthíasar við verðmæti hlutarins í dótturfélaginu á þeim tímapunkti þegar það var selt, í júlí árið 2010, en ekki við það verðmæti sem þriðjungshlutur í dótturfélaginu væri í dag, en aðalkrafa hans um tæplega 3,1 milljarð byggði á því.

Taldi Hæstiréttur því rétt að Árni, Róbert og Magnús myndu greiða Matthíasi 640.089.000 krónur ásamt vöxtum. Þá var þeim gert að greiða honum 7 milljónir í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert