Yfir 1.000 skjálftar á tveimur sólarhringum

Líkt og þetta kort sýnir hafa orðið fjölmargir skjálftar við …
Líkt og þetta kort sýnir hafa orðið fjölmargir skjálftar við Grímsey síðustu klukkustundirnar. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Þrír jarðskjálftar sem mældust um eða yfir 3 stig urðu við Grímsey í nótt. Í gærkvöldi varð stærsti skjálftinn í yfirstandandi hrinu og mældist hann 4,1 stig. Tugir skjálfta urðu í nótt, flestir austnorðaustur af eyjunni. Á síðustu tveimur sólarhringum hafa rúmlega 1.000 skjálftar orðið og er hrinan enn í gangi.

Á þessu sama tímabili hafa sjö skjálftar mælst yfir 3 stig og 143 skjálftar verið 2-3 stig samkvæmt óyfirförnum frumniðurstöðum Veðurstofunnar.

Á þessari töflu má sjá hversu tíðir skjálftarnir hafa verið …
Á þessari töflu má sjá hversu tíðir skjálftarnir hafa verið síðustu klukkustundirnar. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Gunn­ar Guðmunds­son, sér­fræðing­ur Veður­stofu Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að  skjálft­arnir ættu flestir upptök sín á svipuðu svæði, í sig­dal vest­ar­lega í Skjálf­anda­djúp­inu. „Þarna eru mörg mis­gengi og það eru lík­lega ný og ný mis­gengi að opn­ast þarna,“ sagði hann um ástæður skjálft­anna. Hins veg­ar væri þarna einnig mikið jarðhita­svæði svo sam­verk­andi öfl gætu verið að verki. Þá hefði einnig verið eld­virkni norður af svæðinu í fortíðinni. 

Gunn­ar sagði að svæðið væri svo­kallað sniðreks­belti sem kall­ast Gríms­eyj­ar­beltið og er hluti af Tjör­nes­belt­inu. Á Gríms­eyj­ar­belt­inu væri mesta rek svæðis­ins. „Mér finnst þetta minna á skjálfta­hrinu á Hengilsvæðinu á ár­un­um 1994 til 1998. Þar voru stöðugar hrin­ur í 1-2 daga sem tóku sig svo upp aft­ur og aft­ur.“

Hann sagði erfitt að átta sig ná­kvæm­lega á hver meg­in­or­sök skjálft­anna væri. „Það eru mjög oft skjálft­ar á þessu svæði,“ seg­ir hann og bæt­ir við að af þeim sök­um séu Gríms­ey­ing­ar mjög van­ir hreyf­ing­un­um og kippi sér sjálfsagt ekki upp við smá­skjálft­ana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert