Niðurfelling skattamála staðfest

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. Embættið staðfesti ákvörðun héraðssaksóknara um að …
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. Embættið staðfesti ákvörðun héraðssaksóknara um að fella fjölda skattamála niður eftir dóm Mannréttindadómstólsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkissaksóknari hefur staðfest niðurstöðu héraðssaksóknara um niðurfellingu skattamála sem héraðssaksóknari hafði til skoðunar og hafði fellt niður. Málin voru felld niður eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp dóm sinn í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar frá því í maí í fyrra þar sem tekist var á um tvöfalda refsingu.

Eftir að héraðssaksóknari felldi niður 62 af þeim 150 skattamálum sem embættið var með til rannsóknar ákvað embætti skattrannsóknarstjóra að kæra ákvörðunina í tengslum við sex málanna til ríkissaksóknara. Ákvörðun ríkissaksóknara lá svo fyrir fyrr í vikunni, en Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari staðfestir málalokin við mbl.is.

Í nóvember var greint nánar frá málunum 62 sem höfðu verið niðurfelld. Skattstofn þeirra nam samtals 9,7 milljörðum og var umfangsmesta málið upp á 2,2 milljarða, samkvæmt lista sem skattrannsóknarstjóri birti. Til viðbótar getur sekt í slíkum málum numið tvö­faldri og upp í tí­falda upp­hæð van­gold­inna skatta.

Málin tengjast meðal annars greiðslum frá erlendum félögum, vaxtatekjum, hlutabréfaviðskiptum, óheimilar úthlutunar frá lögaðila og vanframtalinna stjórnarlauna, auk vanframtalinna tekna.

Í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva komst Mannréttindadóm­stóll­inn að því að ekki væri hægt að refsa mönn­um tvisvar fyr­ir sama mál, en fyrst hafði skatt­ur verið endurákv­arðaður auk álags á þá Jón Ásgeir og Tryggva vegna skatta­laga­brota tengd­um Baugi og Gaumi. Síðar voru þeir dæmd­ir í skil­orðsbundið fang­elsi vegna máls­ins. Þannig var niðurstaða dóms­ins að þeir hefðu bæði hlotið refs­ingu frá skatt­in­um og ákæru­vald­inu sem byggðu á sama grunni.

Í nýju dóma­for­dæmi Hæsta­rétt­ar í sept­em­ber þar sem byggt var á niður­stöðu Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins var niðurstaðan að mynda þyrfti samþætta heild í mál­um sem þess­um og var ákærði í mál­inu sak­felld­ur og sektaður til viðbót­ar við fyrri endurákvörðun. Hæstirétt­ur tel­ur því tvö­falda refs­ingu ekki ólög­mæta ef um samþætta heild máls­ins er að ræða.

Þegar ákvörðun héraðssaksóknara lá fyrir í nóvember sagði Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri að niðurstaðan að mál hafi verið felld niður sé fúl og „mik­il blóðtaka.“

Hluti mál­anna kom upp eft­ir að embættið festi kaup á er­lend­um gögn­um um meint skattaund­an­skot Íslend­inga er­lend­is. Bryn­dís seg­ir að þótt mál­in hafi verið felld niður hjá sak­sókn­ara, þá hafi kaup á gögn­un­um skilað tals­verðu. Þannig hafi stór hluti mál­anna verið af­greidd­ur af rík­is­skatt­stjóra og í flest­um mál­um hafi verið skatt­ur­inn verið endurákveðinn. Það sé aft­ur á móti í tengsl­um við mögu­lega sekt og ákæru sem stór hluti geti verið glataður.

Ólafur Hauksson héraðssaksóknari sagði við mbl.is í dag að engar aðrar stærri ákvarðanir hefðu verið teknar varðandi niðurfellingu annarra skattamála sem embættið er með í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert